Hugrakkur hópur „Þau eru ofsalega hugrökk og inn á milli leynast einatt stjörnur framtíðarinnar. Hópurinn er drifinn áfram af einskærum eldmóði og áhuga.“ Ólafur S.K. Þorvaldsson ásamt leikurum Herranætur sem setja munu upp Nosferatu, hinn þýska Drakúla.
Hugrakkur hópur „Þau eru ofsalega hugrökk og inn á milli leynast einatt stjörnur framtíðarinnar. Hópurinn er drifinn áfram af einskærum eldmóði og áhuga.“ Ólafur S.K. Þorvaldsson ásamt leikurum Herranætur sem setja munu upp Nosferatu, hinn þýska Drakúla. — Morgunblaðið/G.Rúnar
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is ÞAÐ er Ólafur SK Þorsteins sem leikstýrir Herranótt þetta árið og viðfangsefnið er dumbrautt og myrkt, en aðalpersóna leikritsins er sjálfur Nosferatu.
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

ÞAÐ er Ólafur SK Þorsteins sem leikstýrir Herranótt þetta árið og viðfangsefnið er dumbrautt og myrkt, en aðalpersóna leikritsins er sjálfur Nosferatu.

„Við byggjum sýninguna á kvikmyndinni The Shadow of the Vampire með John Malkovich og Willem Dafoe, mynd frá árinu 2000,“ segir Ólafur. „Ég hef skrifað upp handrit eftir myndinni, en hún segir af kvikmyndatökuliðinu sem var að gera upprunalegu Nosferatu-myndina (eftir F.W. Murnau, 1922). Sagan segir að Murnau hafi ráðið alvöruvampíru til að leika Nosferatu gegn því að hann fengi að bíta aðalleikkonuna á háls.“

Æfingar hófust á mánudaginn í þessari viku og þetta er í fyrsta skipti sem Ólafur vinnur með Herranótt. Hann er þó eldri en tvævetur í nemendasýningum, hefur leikstýrt í Versló og Fjölbrautaskóla Vesturlands auk fleiri verkefna, m.a. úti í London.

„Fyrsta hugmyndin var að setja upp Drakúla [en Nosferatu er einmitt byggt á sömu sögu] en ég tefldi þessari hugmynd fram á móti. Hún varð svo fyrir valinu. Ólafur Darri Ólafsson leikari hóf þessa vinnu og hann hafði samband við mig og við ætluðum að vinna þetta saman. Verkefnið færðist svo algerlega á mínar hendur sökum anna hjá Ólafi.“

Ólafur segir enga sérstaka ástæðu vera fyrir þessu hryllilega tema.

„Það sem vekur áhuga hjá fólki virðist vera óhamingjan frekar en hamingjan. Við erum svona að varpa ljósi á brigðulleika mannsins.“

Hrollvekjusinfónía

Ólafur Darri sló reyndar í gegn á sínum tíma í Herranótt sem rakarinn blóðþyrsti Sweeney Todd . Það var árið 1994. Er einhver tenging þarna á milli?

„Ætli það,“ segir nafni hans. „En við Ólafur kynnumst þegar hann leikstýrði mér árið 1999 í Versló, en þá var NÖRD, Nær Öldungis Ruglaður Drengur , sett upp. Þá var ég menntaskólapjakkur.“

Ólafur segir það einstaklega skemmtilegt að fá að vinna með menntskælingum.

„Þú ert með krakka sem hafa engar fyrirfram gefnar hugmyndir um hvað leikhús er og eru því tilbúin að fylgja manni í eltingaleik við einhverjar brjálaðar hugmyndir. Vinnan er því mjög frjáls og krakkarnir eru tilbúnir til að takast á við nánast hvað sem er. Þau eru ofsalega hugrökk og inn á milli leynast einatt stjörnur framtíðarinnar. Hópurinn er drifinn áfram af einskærum eldmóði og áhuga.“

Ólafur segir að í þessu samhengi sé líka hægt að leyfa sér hluti sem erfiðara er að gera í atvinnuleikhúsi.

„Maður fær fullt af fólki frítt sem er laust allan sólarhringinn. Og er bara að þessu út af áhuganum.“

Þess má þá geta að hljómsveitin Rökkurró, sem gaf út plötuna Það kólnar í nótt... á síðasta ári, sér um tónlistina. Þau verða uppi á sviði og spila lag eða stef sem er notað á milli atriða. Hljómsveitin sér og um allar hljóðbrellur.

„Nosferatu hefur verið kölluð hrollvekjusinfónía og þannig verk ætlum við að að skapa,“ segir Ólafur að lokum. „Verk sem stígur hægt og rólega upp í blóðug endalok.“