Halldór Blöndal
Halldór Blöndal
Halldór Blöndal, fyrrum Alþingisforseti, flutti magnaða ræðu í sextugsafmæli Davíðs Oddssonar, fyrrum forsætisráðherra, í síðustu viku.

Halldór Blöndal, fyrrum Alþingisforseti, flutti magnaða ræðu í sextugsafmæli Davíðs Oddssonar, fyrrum forsætisráðherra, í síðustu viku.

Ræðan var mögnuð vegna þess að það var eins og orðfæri, flutningur og andrúm sjálfstæðisbaráttu íslenzku þjóðarinnar kviknaði allt í einu í afmælishófi merks stjórnmálaleiðtoga í Ráðhúsinu við Tjörnina.

Fáir stjórnmálamenn á okkar tímum eiga sér jafn sterkar og djúpar rætur í þeirri baráttu og Halldór Blöndal og það mátti finna í þessari ræðu sem var flutt óskrifuð og blaðalaust.

Alþingisforsetinn fyrrverandi fór yfir 100 ára sögu frá Hannesi Hafstein til okkar daga eins og ekkert væri og sagði m.a.:

Fyrir 100 árum urðum við sjálfra okkar ráðandi og umbylting varð í atvinnulífinu, sem lagði grundvöllinn að velmegun okkar á síðustu öld.

Nú voru sköpuð skilyrði til þess að íslenzk fyrirtæki og fjárfestar gætu hafið útrás til annarra landa á grundvelli samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði, undirstöður þjóðfélagsins hafa verið treystar og velmegun farið vaxandi ár frá ári.

Halldór Blöndal lauk ræðu sinni með þessum orðum:

Þjóðskörungur

leiddi þjóð sína

ódeigur

inn í árþúsund

nýrra vona,

nýrra hugsjóna.

Heill sé þér Davíð

Hannesar jafni.