1. febrúar 2008 | Aðsent efni | 831 orð | 1 mynd

Enn um málefni Kosovo

Rúnar Kristjánsson svarar Gunnari Ársælssyni

Rúnar Kristjánsson
Rúnar Kristjánsson
Rúnar Kristjánsson svarar Gunnari Ársælssyni: "Ég segi enn og aftur, látum sama mælikvarða gilda gagnvart öllum þessum aðilum."
GUNNAR Ársælsson ritar grein í Mbl. 18. jan. sl. og er ekki sáttur við umfjöllun mína um grein hans þar frá 5. jan. en grein mín birtist í Mbl. 7. jan. Allar þessar greinar fjalla um ástandið í Kosovo. Ekki þykir mér þessi síðari grein Gunnars taka þeirri fyrri fram þó sumt í henni sé ásættanlegt. Hann tekur nokkrum sinnum fram að rétt skuli vera rétt. En tilhneiging hans til að fara framhjá þeirri reglu opinberast strax í því að hann getur ekki einu sinni farið rétt með nafnið mitt. Auk þess kýs hann greinilega að misskilja það sem ég skrifaði í veigamiklum atriðum. Ég hef gagnrýnt harðlega þá einstefnu áróðurs sem beitt var gegn Serbum í sambandi við stríðið á Balkanskaga og tel það aldrei vænlegt til að skapa frið að einn aðili sé fordæmdur í öllu en hinir sleppi meira eða minna. Það virtist sem Serbar væru varla taldir til manna í fjölmiðlum á tímabili svo hart var áróðursstríðið gegn þeim og bentu ýmsir góðgjarnir menn á að þvílíkar fjölmiðlaofsóknir yrðu bara til þess að auka vandann sem og varð. Í seinni tíð hefur þó skynsemin komist nokkuð að og nú er viðurkennt af flestum að allir stríðsaðilar hafi framið mikil voðaverk. Það eru því gamlar lummur ef menn vilja hanga enn á því að Serbar hafi einir verið sekir.

Gunnar játar hinsvegar í þessari seinni grein sinni að allir aðilar stríðsins hafi framið hryllileg hermdarverk og það er vissulega framför hjá honum, en hann stillir sig ekki um að bæta því við að Serbar hafi þó verið verstir. Ég veit ekki hvort sá er endilega verri sem drepur 100 menn en sá sem drepur 50. Það er ekki kjarni málsins. Sá sem drap 50 hefði kannski drepið 150 hefði hann fengið færi á því. Aðalatriðið er að viðurkenna að þeir séu sekir sem sekir eru og dæma alla eftir sama mælikvarða – ekki einn í útskúfun og sýkna aðra sem sekir eru um hliðstæða glæpi.

Ég vil líka undirstrika það, að ef Albanir fá sjálfstæði í Kosovo og seinna meir verði svo héraðið sameinað Albaníu, eins og Gunnar nefnir sem möguleika, þá hljóta að opnast mjög varhugaverðir landvinningamöguleikar um alla Evrópu.

Tyrkneskir innflytjendur gætu til dæmis eignast Þýskaland með tímanum o.s.frv.

Gunnar segir að flest bendi til þess að Albanir séu upprunalegir íbúar Kosovo og Serbar hafi komið þangað mun síðar. Ég kannast ekki við þessa söguskýringu og veit ekki til þess að albanskt ríkisvald hafi nokkurntíma verið við lýði í Kosovo. Hygg ég að Gunnar segi þarna of mikið með tilliti til þess að rétt skuli vera rétt. Í fyrri grein sinni virtist Gunnar setja Tító upp sem einhverskonar vörslumann serbneskra þjóðarhagsmuna. Ég benti því á að Tító hefði verið Króati og alla tíð reynt að draga úr áhrifum Serba í ríkinu og þjóðerni hans skiptir auðvitað heilmiklu máli þegar reynt er að skilja hvernig hann hélt á málum.

Martti Athisaari er ef til vill á því að Albanir eigi að fá sjálfstæði í Kosovo, en hvað ef Samar í Finnlandi krefðust sjálfstæðis, skyldi honum verða sama um það? Af hverju fá Baskar ekki sjálfstæði á Spáni eða Flæmingjar í Belgíu o.s.frv.? Hvernig yrðu ríkisheildir Evrópu leiknar ef öll þjóðabrot heimtuðu sjálfstæði?

Það er áreiðanlega mikill skoðanamunur á milli okkar Gunnars Ársælssonar. Hann er eftir því sem ég best veit Evrópusambandssinni, en ég íslenskur sjálfstæðissinni, hann er líklega fjölmenningarsinni en ég er alfarið á móti fjölmenningu. Í fyrri grein sinni fordæmir hann ríkjasambandið Júgóslavíu sem hann telur hafa verið vonlausa tilraun til að bræða saman ólíkar þjóðir í einu ríki. Sú tilraun hafi m.a. leitt til vandamálanna í Kosovo. En er þetta ekki einmitt það sem fjölmenningin snýst um, að safna allskonar ósamhæfu liði saman og segja því að allir eigi að vera vinir þó allt stefni með því móti í bullandi ágreining? Það mun alls staðar leiða til viðlíkra vandamála og á Balkanskaga því þjóðlegar rætur manna verða ekki skornar þeim úr brjósti og sumir eiga bara ekki samleið.

Gunnar ásakar Serba réttilega fyrir þjóðernishreinsanir, en Króatar stunduðu þær líka og Gunnar segir sjálfur að 75% Serba í Kosovo hafi verið hraktir þaðan á brott og slíkt er auðvitað þjóðernishreinsun.

Ég segi enn og aftur, látum sama mælikvarða gilda gagnvart öllum þessum aðilum. Segjum ekki eins og sagt var í Bretlandi þegar krafist var framsals Pinochets: „Jú, maðurinn er óþokki, en það verður að hlífa honum af því að hann er okkar óþokki!“ Ég segi óþokki er óþokki og leiðin til samninga liggur í gegnum það sjónarmið að allir fái að sitja við sama borð þegar unnið er að lausn mála.

Ég vara við afleiðingum þess að Kosovo fái fullt einhliða sjálfstæði, en það er engin niðurstaða miðað við þann veruleika sem Evrópuríkin búa við og gæti valdið gífurlegri upplausn um alla álfuna. Að vara við í því sambandi er því ekki dæmi um afturhaldssemi heldur framsýni með tilliti til raunverulegrar ógnar sem gæti skapast og valdið miklum hörmungum.

Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.