— Árvakur/Golli
Eftir Elías Jón Guðjónsson elias@24stundir.is Netbankar í eigu Kaupþings og Landsbankans hafa vakið athygli í Bretlandi í þeirri samkeppni sem þar ríkir nú á innlánamarkaðnum.

Eftir Elías Jón Guðjónsson

elias@24stundir.is

Netbankar í eigu Kaupþings og Landsbankans hafa vakið athygli í Bretlandi í þeirri samkeppni sem þar ríkir nú á innlánamarkaðnum. Kaupþing opnaði um mánaðamótin netbankann Kaupþing Edge en Landsbankinn hefur rekið netbankann Icesave frá haustinu 2006. Netbankarnir bjóða báðir háa vexti af innlánum.

Innlán mikilvæg

Arnar Bjarnason, prófessor við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, segir það ekki koma á óvart að mikil samkeppni sé í innlánum. „Þegar fjármögnun er erfið, eins og nú er, þá skiptir mjög miklu máli að geta haft stærri hluta fjármögnunar í formi innlána og geta sýnt efnahagsreikning sem er þannig samsettur,“ segir Arnar. Hann segir þetta skipta bankana miklu máli og því séu þeir tilbúnir að borga aðeins hærri innlánsvexti. „Þá lítur efnahagsreikningurinn betur út. Sterk innlánastaða í efnahagsreikningi getur síðan leitt til hagstæðari kjara í lántökum.“

Nýjung hjá Kaupþingi

Í upphafi þessa mánaðar hleypti Kaupþing nýjum netbanka, Kaupthing Edge, af stokkunum í Bretlandi. „Kaupthing Edge er innlánabanki sem starfar eingöngu á netinu,“ segir Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Kaupþings. „Kostnaður er því í lágmarki og þess vegna getum við boðið betri kjör en þeir hefðbundnu bankar sem fyrir eru í þessum löndum,“ bætir hann við. Fyrsti Kaupthing Edge-netbankinn var opnaður í Finnlandi í október. Síðan þá hafa verið opnaðir bankar í Svíþjóð, Noregi og Belgíu auk Bretlands.

Hefur gengið framar vonum

Icesave, netbanki Landsbankans, á sér lengri sögu en Kaupthing Edge. „Við fórum af stað með þetta í október 2006 og þetta hefur gengið vonum framar,“ segir Tinna Molphy hjá fjárfestatengli Landsbanks en rétt eins og hjá Kaupthing Edge býður Icesave upp á mismunandi tegundirinnlánsforma. „Ástæðan fyrir því hve vel þetta hefur gengið hjá okkur er hvað þetta er einfalt. Þetta er bara þannig að fólk fær það sem er auglýst.“

Mikil samkeppni

Bæði Jónas og Tinna segja mikla samkeppni vera á breska innlánamarkaðnum og hún fari vaxandi.
Í hnotskurn
Starfsemi Icesave hófst í október 2006 og er fyrirtækið eingöngu starfrækt á Bretlandi. Í lok ársins 2007 voru innlán hjá Icesave alls 4,8 milljarðar punda. Þar af voru 14 prósent í bundnum innlánum. Kaupthing Edge er nú starfrækt í fimm löndum og mun þeim fjölga á árinu.