Urðarbrunnur Bókmenntir Sigrún Klara Hannesdóttir Vilborg Davíðsdóttir: Við Urðarbrunn. Mál og menning, 1993. Sagan hefst uppi í afdal á Íslandi og tíminn er um árið 900, skömmu eftir landnám.

Urðarbrunnur Bókmenntir Sigrún Klara Hannesdóttir Vilborg Davíðsdóttir: Við Urðarbrunn. Mál og menning, 1993. Sagan hefst uppi í afdal á Íslandi og tíminn er um árið

900, skömmu eftir landnám. Ambáttin Mýrún segir sonum húsbænda sinna sögur úr keltneskri fornfræði. Korka dóttir Mýrúnar hlustar á frásagnir móður sinnar af kynngikrafti galdra og rúna aftan úr grárri forneskju. Beðið er heimkomu húsbóndans Einars og húskarlsins Kjallakurs en heima eru húsfreyjan Ása og börn hennar auk þrælanna. Héðan er sagan rakin, saga mikilla örlaga, grimm og oft ómannúðleg á nútíma mælikvarða en samt falleg. Sagan berst til Danmerkur og við fylgjum Korku um erfiða stigu sem leiða hana á þroskabraut frá ungri fáfróðri stúlku þar til hún er sjálf orðin örlagavaldur og sér örlög sem öðrum eru búin. Sögusviðið er vel unnið, skýrt og trúverðugt og enginn vandi að sjá fyrir sér aðbúnað og lifnaðarhætti þessa löngu liðna tíma. Höfundur þekkir greinilega vel það sem vitað er um þennan tíma og tekst að draga upp svo skýra mynd að hún dygði sem kvikmyndahandrit.

Kolka er aðalsögupersónan en mjög margir eru nafngreindir til sögunnar þótt fáir séu dregnir verulega sterkum litum. Auk Korku eru bestu persónulýsingarnar kvenlýsingar svo sem af Úlfbrúnu og Gunnhildi. Úlfbrún er gömul og forn í skapi. Hún er líka fjölkunnug og skynjar að Kolka hefur næmni til að geta lært að nota þá þekkingu sem gamla konan býr yfir. Gunnhildur á Kolku líf að launa og samspil þessara ungu stúlkna er mjög sannfærandi og vel gert. Steingerður og Þórólfur eru í minni hlutverkum og lítið tækifæri til að sjá inn í hug þeirra. Þau eru fyrst og fremst fólk sem fellur inn í hlutverk sitt. Hallur Illugason er eina verulega skítmennið í sögunni - aðrir falla inn í þann heim sem þær fæðast í og eru fremur umgjörð og baksvið í sögunni en sögupersónur. Höfundur hefði mátt gæða Atla ofurlítið meira lífi og skýra betur hvað honum kom til þegar hann keypti Kolku. Það varð aldrei fyllilega ljóst í sögunni. Ást við fyrstu sýn er einhvern veginn ósannfærandi í þessari miklu sögu.

Höfundur hefur skapað sögusvið sem er sannfærandi og á þessu sögusviði er teflt fjölda fólks sem stýrt er af kunnáttu og nákvæmni til að skapa heillandi og magnaða atburði. Bók Vilborgar er glöggt dæmi um hversu erfitt það getur verið að flokka bækur eftir því til hvaða aldurs þær eiga að höfða, enda hefur verið sagt að góð bók eigi að höfða til allra aldurshópa. Í þessari sögu er aðalsögupersónan ung að árum og við skiljum við hana sem gjafvaxta stúlku. Vilji menn eingöngu saklausa rómana eða spennusögur fyrir unglinga er þetta ekki rétta bókin. Þetta er átakasaga og þroskasaga, grimm á köflum en trú þeim tíma sem hún túlkar. Þetta gæti verið Íslendingasaga skrifuð út frá sjónarhóli kvenna. Sagan um Kolku ætti ekki að láta neinn ósnortinn og ekki hægt annað en bíða með óþreyju eftir næsta verki þessa höfundar sem kemur hér fram með svo vel unnið byrjandaverk.

Vilborg Davíðsdóttir