[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bóndarósir hafa verið í ræktun á Íslandi í nokkrar kynslóðir. Undanfarin ár hafa þær eitthvað fallið í skuggann af þeim aragrúa nýrra og spennandi blómplantna sem kynntar hafa verið til leiks í íslenskum görðum.

Bóndarósir hafa verið í ræktun á Íslandi í nokkrar kynslóðir. Undanfarin ár hafa þær eitthvað fallið í skuggann af þeim aragrúa nýrra og spennandi blómplantna sem kynntar hafa verið til leiks í íslenskum görðum. Bóndarósir, og þá sérstaklega silkibóndarósir Paeonia lactiflora, hafa síðustu ár verið mikið til umfjöllunar í ýmsum erlendum tímaritum um garðrækt, um þær hafa verið skrifaðar bækur og mikill fjöldi afbrigða er í ræktun og til sölu. Sérstaklega hefur áhuginn á eldri sortum verið mikill.

Silkibóndarós hefur verið ræktuð í Asíu í meira en þúsund ár, bæði til skrauts og sem lækningajurt. Hún hefur verið algeng garðplanta í Kína, Japan og Kóreu. Talið er að hún hafi verið flutt til Englands síðast á 18. öld. Vitað er að bóndarósir voru ræktaðar í grasagarðinum í Uppsala litlu síðar. Silkibóndarósin sló algjörlega í gegn á sýningu í París árið 1824 en þá var kynnt afbrigðið ‘Edulis Superba', ljósbleik fyllt bóndarós með góðum ilmi, eftirspurnin varð gríðarleg og enn í dag er verið að rækta þetta afbrigði. Bóndarósin hélt innreið sína í Bandaríkin á 19. öld og um miðja öldina voru menn þar duglegir að rækta fram fjöldamörg afbrigði. Meðal þeirra er ein af þeim sem þykja klassískar í dag ‘Karl Rosenfield'. Bandaríkjamenn gáfu út a.m.k. 2 bækur um bóndarósir á fyrri hluta 20. aldar (The Book of The Peony 1917 og Peonies in the Little Garden 1923) og hafa þær notið gríðarlegra vinsælda og verið endurútgefnar reglulega. Með bókunum má segja að gripið hafi um sig æði fyrir að eiga og safna bóndarósum þar í landi.

Bóndarósir eru tilkomumiklar skrautplöntur bæði þegar þær eru að koma með blómknúppana sína og þegar þeir springa út, ekki skemmir að laufskrúðið er yfirleitt mikið og plantan því öll hin myndarlegasta. Mörg afbrigði bóndarósa eru ilmandi. Víst er um það að ilmur er fyrir marga jafnmikilvægur og eftirsóttur eiginleiki hjá plöntum og útlit, að minnsta kosti er það ósjálfrátt viðbragð margra sjái þeir fallega plöntu að teygja nefið að blóminu til að njóta ilmsins! Bóndarósir hafa yfir sér rómantískt yfirbragð; skrautlegt postulín, silfurhnífapör, háir hanskar, síðir kjólar og 19. aldar tónlist er meðal þess sem kemur ósjálfrátt upp í hugann þegar horft er á þær. Þær eru yndislega fallegar plöntur að setja í vasa, gaman að þessum prímadonnum sem gera hversdaginn meira lifandi og fallegan.

Bóndarósir verða á tiltölulega stuttum tíma nokkuð stórar og þarf staðsetning þeirra að taka mið af því. Þær una sér vel í sól en geta einnig staðið í einhverjum skugga. Misjafnt er hversu vel þær þola flutning svo best er að koma þeim fyrir á stað þar sem þær geta staðið til frambúðar. Þrátt fyrir að vera margar hverjar sterkbyggðar er gott að hafa þær í nokkru skjóli því rok og rigning getur þyngt þær og unnið á þeim skaða. Mikilvægt er að gera vel við plöntuna þegar hún er sett niður, hún þarf frjóan og djúpan moldarjarðveg með töluverðu af lífrænum áburði. Alls ekki má setja plöntuna dýpra en 4-5 cm því það dregur úr vexti og blómgun. Bóndarósir geta orðið gamlar og bera aldurinn yfirleitt vel. Fari hins vegar að draga úr blómgun getur verið gott að grafa rótina upp, helst þegar plantan er komin í hvíld að hausti, skipta henni og setja að henni frjóan jarðveg. Áburður eða safnhaugamold á fyrri hluta vaxtartímans gerir plöntunni gott. Plantan þolir ekki að standa í stöðugum raka. Yfir veturinn er gott að hlífa plöntunni með 10-15 cm lagi af kurli eða viðlíka, sérstaklega á þetta við um fyrstu árin.

Bóndarós er seld sem jarðhnýði og stundum í pottum í gróðrarstöðvum. Nú eru 4 tegundir bóndarósa á vorlaukalista Garðyrkjufélags Íslands sem nýir og gamlir félagar geta pantað. Fyrst er að nefna Paeonia l. 'Bowl of Beauty' Hún er harðgerð og blómviljug. Blómin eru rósableik með hvítum fræflum. Önnur af plöntunum á listanum hefur þegar verið nefnd til sögunnar en það er Paeonia l. 'Karl Rosenfeld'. Hún er harðgerð, stönglarnir sterklegir, gljáandi grænt lauf, blómin fagurrauð, hálffyllt og ilma frekar létt. Sú þriðja er ‘Krinkled White' sem er með hvítum einföldum blómum og gulum fræflum. Loks er ‘Duchess De Nemours' með stórum hvítum fylltum blómum. Allar þessar plöntur geta orðið um 70-90cm á hæð og eiga góðar lífslíkur þar sem er að finna sól og skjól. Þess má geta að bóndarósir henta allar mjög vel til afskurðar.

Segi þetta gott að sinni um þessar hefðarfrúr.

höfundur er í stjórn Garðyrkjufélags Íslands