Minkabani Reynir Bergsveinsson telur að með nýjustu tækni, minkasíunni og tölvunni, megi höggva stór skörð í minkastofninn.
Minkabani Reynir Bergsveinsson telur að með nýjustu tækni, minkasíunni og tölvunni, megi höggva stór skörð í minkastofninn. — Árvakur/RAX
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is MINKASÍA Reynis Bergsveinssonar hefur reynst mjög árangursríkt veiðitæki og sparar kostnað miðað við hefðbundnar veiðiaðferðir, að sögn Reynis.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

MINKASÍA Reynis Bergsveinssonar hefur reynst mjög árangursríkt veiðitæki og sparar kostnað miðað við hefðbundnar veiðiaðferðir, að sögn Reynis. Hann telur minkasíuna vera mestu framför sem orðið hefur við minkaveiðar síðan þessi vágestur náði fótfestu hér á landi.

Í nýlegri skýrslu VSÓ Ráðgjafar um tilrauna- og rannsóknaverkefnið Ölfus-Öxará-Grímsnes, sem varðaði notkun minkasía í Ölfusi, upp með Soginu, um allt Þingvallavatn og austur um Grímsnes frá 2005 til loka síðasta árs, kemur m.a. fram að úr minkasíum hafi verið hirtir 430 minkar og til þess varið 390 vinnustundum. Það er minna en ein vinnustund á hvern mink. Hefðbundnar veiðiaðferðir hafa reynst miklu tímafrekari og ekki óalgengt að verja þurfi 5-6 vinnustundum í hvern mink með þeim, að sögn Reynis. Hann bendir á varðandi minkasíurnar að tíminn sem tekur að vitja síanna sé einungis mældur, ekki tíminn sem tók að koma þeim fyrir.

Tilraunir skila árangri

Minkasíurnar veiða allan ársins hring. Búið er að leggja út um 400 minkasíur á landinu og hefur Reynir sjálfur eftirlit með um helmingi þeirra. Hann sýndi blaðamanni um 40 minka sem voru gómaðir í minkasíur fyrir austan fjall nýverið. Minkasíurnar veiða allan ársins hring.

Reynir hóf að gera tilraunir með þetta nýja veiðitæki haustið 2002 en þá hafði hann stundað minkaveiðar í hálfa öld. Það réð úrslitum um að þróun minkasíunnar hófst að Vegagerðin styrkti Reyni í upphafi. Síðan fylgdi stuðningur Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Æðarræktarfélags Íslands og umhverfisráðuneytisins í kjölfarið. Sían er höfð undir vatnsborði á minkaslóð og minkur sem fer í hana á ekki afturkvæmt heldur drukknar strax. Reynir segir að yfirleitt séu fleiri en einn minkur í hverri síu þegar vitjað er um. Flestir hafa verið ellefu í sömu síu. Til að byrja með var vitjað fimm sinnum á ári um síurnar en nú er þeirra vitjað þrisvar á ári.

Tilrauna- og rannsóknarverkefninu Ölfus-Öxará-Grímsnes var ýtt úr vör haustið 2004 og aðalfjárhagslegir bakhjarlar voru Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Þingvallaþjóðgarður sem ákváðu að styrkja verkefnið til ársloka 2007. Reynir segir að allir þættir sem áætlaðir voru 2004 varðandi vinnu, kostnað og árangur hafi staðist væntingar. Hann segir aðalárangurinn vera miklar endurbætur sem gerðar hafi verið á minkasíunum og er Reynir nú að sækja um einkaleyfi á tækinu.

Reynir segir að mikið hafi verið af mink í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Teknir hafa verið 42 minkar úr síum þar síðan um verslunarmannahelgi í fyrra. Minkahögnarnir eru yfirleitt tvöfalt stærri en læðurnar og segir Reynir að þeir stærstu séu um 70 sentimetra langir. Þó veit hann af einum 80 cm löngum högna sem líklega er enn á lífi í þjóðgarðinum.

VSÓ Ráðgjöf hefur unnið skýrslu um þessa þriggja ára tilraun. Reynir segir að samkvæmt niðurstöðum hennar megi ætla að minkastofninn frá Ölfusi að Úlfljótsvatni sé nú á fallanda fæti. Í þessari tilraun var allt að sjö minkum í sömu síunni. Í skýrslunni segir m.a. að þetta hljóti að teljast augljós kostur fram yfir aðrar hefðbundnar veiðiaðferðir á mink.

Reynir telur að veiðiárangur á mink með hjálp minkasía í Þingvallavatni gefi einnig góðar vonir um að þar verði unnt að fella stofninn. Hann segir það ekki vera keppikefli sitt að drepa síðasta minkinn heldur að fella stofnstærðina um 70-90%.

„Tilraunirnar, reynslan og endurbætur á minkasíunni eru komnar á það stig að ég tel að unnt sé að meta fyrirfram öll vatnakerfi á Íslandi og segja fyrir um með nokkurri vissu hvaða árangri megi ná við að hreinsa þær af mink,“ sagði Reynir. Hann bendir á að árin 2005 og 2006 hafi verið svipuð veiði í minkasíur í Ölfusinu en dregið áberandi mikið úr henni árið 2007.

Reynir stendur fyrir fræðsluhelgi um refa- og minkaveiðar 1. og 2. mars næstkomandi. Námskeiðið verður haldið á Gistiheimilinu Hofi í Staðarsveit.