2. mars 2008 | Innlent - greinar | 11228 orð | 21 mynd

Blómatími 68 kynslóðarinnar

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kynslóðin sem var um tvítugt kringum 1968 er oftast annaðhvort kennd við það ár eða hippa, nema hvort tveggja sé.
Kynslóðin sem var um tvítugt kringum 1968 er oftast annaðhvort kennd við það ár eða hippa, nema hvort tveggja sé. Þótt þeir sem nú eru á sextugsaldri geti af líffræðilegum ástæðum tæpast svarið af sér að vera af 68 kynslóðinni, voru fráleitt allir hippar. Að minnsta kosti skilgreindu fæstir sig sem slíka, sem hér varpa ljósi á tíðarandann, viðhorf, hugsjónir og arfleifð 68-kynslóðarinnar. Sumir voru þó býsna áberandi á blómatíma títtnefndrar kynslóðar – og eru enn, fjörutíu árum síðar.

Eftir Valgerði Þ. Jónsdóttur vjon@mbl.is

EF miðað er við þá almennu, en þröngu skilgreiningu, að hippar hafi einungis verið þeir sem voru síðhærðir, bjuggu í kommúnum, hlustuðu á sýrurokk, aðhylltust og ástunduðu frjálsar ástir og notuðu eitur- og ofskynjunarlyf á borð við kannabis og LSD að staðaldri, voru ekki margir hippar á Íslandi árið 1968. Ekki heldur næstu árin, þótt sum ungmenni hefðu haft einhverja tilburði í þá veruna um stundarsakir. Bæði kynin voru þó yfirleitt hárprúð og margir klæddu sig og stílfærðu í anda þeirra sem sumarið 1967 höfðu hreiðrað um sig í Haight-Ashbury hverfinu í San Francisco með blóm í hári og ást og frið á vörum.

Um 100 þúsund blómabörn hvaðanæva að úr heiminum flykktust til borgarinnar þetta mikla ástarsumar, Summer of Love, eins og það var kallað. „If you are going to San Francisco, be sure to wear some flowers in your hair . . ., söng Scott McKenzie og hefur eflaust átt drjúgan þátt í að vekja með unga fólkinu hugljúfar hippahugrenningar og auka ungmennastrauminn til borgarinnar. Samfélagið sem þarna þróaðist varð að mörgu leyti táknrænt fyrir þær byltingarkenndu pólitísku og menningarlegu viðhorfsbreytingar sem í hönd fóru og komu með afgerandi hætti fram í lífstíl, tísku, tónlist, sjónvarpi, kvikmyndum, bókmenntum og myndlist.

Maí 68

Meiri alvara var í spilunum hjá ungmennum víða um heim árið 1968 heldur en merkja mátti hjá draumlyndum og á stundum deyfðarlegum blómabörnum í San Francisco. Í stórum dráttum buðu ungmenni, oft háskólastúdentar, báðum megin Atlantsála, hefðbundnum gildum, siðum og venjum birginn. Þau mótmæltu hræsni, smáborgaraskap, valdníðslu, kúgun, neysluhyggju, úreltum og stöðnuðum stofnunum, t.d. fyrirkomulaginu í ýmsum háskólum, kjarnorkuvopnum, hernaðaruppbyggingu í Evrópu og stríðsrekstri, einkum Víetnam-stríðinu, sem þá hafði staðið í níu ár með gríðarlegu mannfalli. Ekki má heldur gleyma að hin óformlega hippahreyfing var á undan sinni samtíð þegar hún boðaði umhverfisvernd og afturhvarf til náttúrunnar.

Mótmælin voru ekki bara orðin tóm og léttvæg eftir því. Til að mynda er talið að vegna þeirra hafi Frakkland riðað á barmi byltingar í maí 1968, en miklar stúdentaóeirðir höfðu brotist út um alla borg í kjölfar mótmæla stúdenta í Nanterre-háskólanum fyrr um árið. Maí '68 varð tákn mótspyrnu ungu kynslóðarinnar víða í Evrópu og vísaði til breyttra tíma þar sem gildi eins og jafnrétti, kynfrelsi og mannréttindi voru meira í hávegum höfð en trúarbrögð, þjóðrækni og virðing fyrir yfirvaldinu. Eða svo vonuðu margir.

Ást og friður

Jafnrétti, bræðralag og umburðarlyndi voru ungmennum ofarlega í huga og töm á tungu. Friðsamlegar kröfu- og mótmælagöngur og -setur voru líka algengar og slagorð um ást, frið og góðar tilfinningar birtust á mótmælaspjöldum, barmmerkjum og sönglagatextum. Friðarmerkið hékk um marga hálsa og getnaðarvarnarpillan var öllum aðgengileg. Lag Bítlanna All you need is Love var gríðarlega vinsælt og margir töldu það hafa að geyma gæfulegasta friðarboðskap allra tíma. Ekki hefur enn reynt á þá kenningu til fullnustu.

Hvort sem unga fólkið kallaði sig hippa eða ekki, var þessi kynslóð óneitanlega fyrirferðarmeiri og gagnrýnni á alla skapaða hluti en kynslóðirnar á undan og virtist ekki á þeim buxunum að feta í fótspor foreldra sinna, verða venjulegir og þægir góðborgarar – smáborgarar, ef lesið er með hippagleraugum.

Þegar öllu er á botninn hvolft voru hugsjónirnar þó að mestu leyti afar kristilegar, nöfn guðs og Jesú voru bara ekkert að flækjast fyrir, hefðu efalítið þótt hallærisleg í samhenginu. Heimurinn virtist aftur á móti vera á heljarþröm, eina ferðina enn, vegna ófriðar og hörmunga af mannanna völdum, kannski ekki síst kristilegra, vestrænna pólitíkusa.

Í leit að alsælu

Þrátt fyrir vaxandi hagsæld eftirstríðsáranna virtist eitthvað hafa klikkað. Ungmenni horfðu í auknum mæli til austrænnar heimspeki og trúarbragða, hugsanlega í leitinni að tilgangi lífsins. Það var til að kynda enn frekar undir áhugann að helstu átrúnaðargoðin, sjálfir Bítlarnir, héldu til Indlands ásamt sínum nánustu gagngert til að stunda hugleiðslu hjá Maharishi Mahesh Yogi, sem nú er nýlátinn. Dvölin varð endaslepp og fer tvennum sögum af henni, önnur er sú að sá gamli hafi gerst fjölþreifinn við konur í hópnum, hin að hann hafi rekið fjórmenningana vegna þess að þeir notuðu LSD og reyktu hass. Á Indlandi sömdu Bítlarnir fjölda laga í Hvíta albúmið, sem kom út 1968.

Ómögulegt er að fullyrða hvort kom á undan, eggið eða hænan, en eins og Bítlarnir og fjöldi tónlistarmanna fóru ungmenni í auknum mæli að nota ofskynjunarlyf til að upplifa alsælu og víkka vitundina. Sum fóru vægar í sakirnar og reyktu kannski hass og marijúana til hátíðabrigða. Mörgum varð svo hált á tiltækinu að þeir hafa ekki borið sitt barr síðan. Hvort tveggja er enda óumdeilt helsti ljóður á ráði margra af 68-kynslóðinni og yfirskyggði oft skynsamlegan málflutning hennar og baráttumál.

Sameiningartáknið

Þótt 68-kynslóðin væri og sé fjarri því einsleitur hópur, var hún þó um margt nokkuð samstiga. Ef nefna ætti eitthvað eitt sem helst sameinar hana, hefur tónlistin tvímælalaust vinninginn. Hvert undrabarnið af öðru í tónlistinni steig fram á sjónarsviðið og ekki síður heilu hljómsveitirnar, sem heilluðu ungmennin svo að allt ætlaði um koll að keyra á tónleikum þeirra. Allir urðu að eignast plötur helstu goðanna.

Ekki aðeins spiluðu listamennirnir ljómandi vel heldur höfðu textarnir oft að geyma fagran boðskap, ef undan eru skildir þeir sem mærðu fíkniefni eins og brögð voru að. Tónlist þessa tíma er sígild og hefur orðið mörgum seinni tíma spámönnum innblástur.

Mest var gróskan og fjörið í London, sem ekki var að ástæðulausu kölluð Swinging London. Þar voru klúbbarnir og þaðan komu tískustraumarnir. Hingað heim voru þeir ívið lengur að berast heldur en nú tíðkast.

Hægfara straumar

Þrátt fyrir að á Íslandi væri bullandi efnahagskreppa árið 1968, var glugginn til heimsins smám saman að opnast upp á gátt. Æ fleiri fóru líka til útlanda og London varð Mekka unga fólksins, sem kom til baka uppstrílað í nýjustu tísku með tónlistina í farteskinu. Fyrir þá sem heima sátu voru það helst nýstofnað íslenskt sjónvarp og dagblöðin sem spegluðu tískuna, tónlistina og tíðarandann í útlöndum.

Straumarnir sigldu þó enn svo hægt að landi að hin íslenska 68-kynslóð er ábyggilega nokkrum árum yngri en jafnaldrar hennar annars staðar – svo þversagnakennt sem það kann að hljóma. Hér sást varla hippaleg manneskja fyrr en um 1970, upp úr því munu einhverjir hafa tileinkað sér lífstílinn, mun fleiri þó útlitið, sem ásamt tónlistinni þótti samt vægast sagt ögrandi.

Síðari tíma kynslóðir

Á eftir 68-kynslóðinni komu diskókynslóðin og pönkkynslóðin. Afsprengi þeirrar fyrstnefndu eru þó frekar kynslóðirnar sem t.d. hafa verið kenndar við X, klám eða krútt og hafa ekki, frekar en 68-kynslóðin gerði á sínum tíma, fetað í fótspor foreldranna að því er séð verður.

Eflaust má deila um arfleifð 68-kynslóðarinnar, en hugsjónir hennar eru þó flestar góðra gjalda verðar. Fáir hafa á móti ást og friði, mannréttindum, jöfnum rétti kynja og kynþátta og fordómaleysi gagnvart þeim sem ekki falla að norminu. Forræðishyggja sem undanfarið hefur víða látið á sér kræla og sú græðgisvæðing og neysluhyggja, sem víða ræður ríkjum, kunna þó að benda til að byltingin éti ekki endilega börnin sín – heldur barnabörn.

Hápunkturinn þegar ég sá Jimi Hendrix

Benóný Ægisson rithöfundur, tónlistarmaður, viðburðastjórnandi og vefsmiður m.a., fæddur 1952

1. Nei. Ég var bara sextán og fremur stefnulaus eins og flestir á þessum aldri. Það voru heldur engir hippar á Íslandi 1968 og í raun mjög skrítið að miða æskuuppreisnina hérna við þetta ártal.

2. Ég tók landspróf og byrjaði í MR. Svo var ég á sumarskóla í London og fékk ávæning af því sem var að gerast í Evrópu þegar Rauða-Danny var ekki hleypt inn í landið og allt varð vitlaust. En hápunktur ársins var líklega þegar ég sá Jimi Hendrix á útitónleikum og jafnvel merkilegra en það að fyrsta „alvöruleikritið“ mitt var flutt í Sigtúni við Austurvöll.

3. Bræðra- (og systra-) lagið og sú hugsun að vilja bæta heiminn með breytni sinni. Og svo sköpunarkrafturinn, það varð sprenging í allri listsköpun.

4. Jimi Hendrix og fleiri leitandi tónlistarmenn. Hér heima voru það SÚM-ararnir, þeir voru einu listamennirnir sem voru að gera eitthvað af viti á Íslandi.

5. Ég var með í að stofna Kristjaníu.

6. Þegar maður er sextán veit maður ekkert í sinn haus. Ætli valið hafi ekki staðið milli þess að verða rithöfundur eða tannlæknir.

7. Það sem þú vilt að aðrir menn geri þér, skalt þú þeim gera.

8. Líklega breyttist minna en við vildum. Við vorum viss um að við stæðum á þröskuldi nýrra tíma en þeir tímar urðu öðruvísi en við bjuggumst við. Efnishyggjan og ójöfnuðurinn hefur sennilega aldrei verið meiri, þrátt fyrir okkar gagnrýni. Ætli helsta arfleifðin sé ekki virkara lýðræði og það að umhverfismál komust á dagskrá. Flestar listgreinar núna eru líka markaðar af tilraunum sem voru gerðar á þessum tíma. Svo var auðvitað skuggahlið, það voru þeir sem drápu sig á dópi eða gerðust hryðjuverkamenn. Ætli það hafi ekki verið þeir sem þoldu vonbrigðin verst.

9. Flestallt. Eini munurinn er að ég bý ekki í kommúnu og er orðinn borgaralegur og miðaldra.

Tískudrós undir áhrifum Twiggíar

Guðrún Ögmundsdóttir verkefnisstjóri í menntamálaráðuneytinu, fædd 1950

1. Já, ætli ég geti neitað því. Ég var hins vegar afar pen og pjöttuð og nýtti mér hippatískuna mér til framdráttar, keypti hippakjóla og mussur, eða saumaði ef ég sá eitthvað flott, ætli ég hafi ekki átt vesti með kögri, rúskinsskápu með loðnum líningum, indíánaskó og auðvitað friðarmerki um hálsinn, mikið af armböndum. Var maður þá ekki bara klár í slaginn?

2. Ó, það var nú ekki sérlega merkilegt og tengist auðvitað kærustum og keleríi og svo var ég að vinna hjá Útvarpinu. Mikið var hlustað á Hendrix, setið í herbergjum sem voru öll í rósum, kertastjaki búinn til úr vaxi, reykelsi á borðum og dempuð ljósin. Algjörlega dásamlegt. Farið á blústónleika sem þá voru alltaf í Silfurtunglinu, hlustað á Hljóma í Glaumbæ, farið á ýmsa gjörninga, sem sagt aldrei heima og alltaf nóg að gera. Og ég man hvað pabbi var iðinn bæði að keyra mig og sækja, og við fylltum bara alltaf bílinn á heimleið. Þetta ár fór ég líka í mína fyrstu utanlandsferð til Spánar og London og fór auðvitað í Carnaby Street og þú getur rétt ímyndað þér hversu flott það var!

3. Ég held að það hafi fyrst og fremst verið frelsið, að þora að vera öðruvísi, ögra á jákvæðan hátt og allir alltaf svo flottir.

4. Tískudrósin ég var nú enn undir áhrifum Twiggíar og myndarinnar Bonny og Clyde, ætli ég hafi nokkuð getað hrist það af mér. Og finnst í raun ennþá flott.

5. Ætli það sé ekki þegar maður var ber að ofan í fyrsta skipti, henti haldaranum og fór í sólbað.

6. Það er nú erfitt að segja, þegar ég lít til baka þá sé ég að pólitík var aldrei langt undan, var þegar virk í henni á þessum árum, enda pabbi eðalkrati.

7. Ást og friður.

8. Já, ég er alveg klár á því að hún breytti miklu, en börn hippanna urðu kannski unga peningafólkið í dag, og ætli barnabörn hippanna verði ekki hinir nýju friðelskandi, grænu og ástríku hippar framtíðarinnar. Fer þetta ekki alltaf í hringi?

9. Kertaljósin...og tónlistin aldrei langt undan. Og svo er nú gaman að fara í endurminningarkast í fatabúðunum núna, því allt er þetta komið aftur og hver veit nema ég skelli mér í hippalega síða mussu, kveiki á kerti og reykelsi, setji Hendrix á fóninn og bjóði barnabarninu upp í dans. Aldrei byrjað of snemma.

Poppararnir voru fyrirmyndirnar

Jafet Ólafsson viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri Veigs fjárfestingarfélags ehf., fæddur 1951

1. Já, ég var hippi í kringum 1968, ef til vill ekki mikill, en það sýndi sig einkum í því að ég safnaði bæði hári og skeggi. Það var mest tónlistin sem hreif menn, Bítlarnir breyttu heiminum, að við töldum, þeir og aðrar hljómsveitir voru áhrifavaldurinn.

2. Árið 1968 er ég í steypuvinnu í Straumsvík og þénaði vel, enda eins gott, bensínkostnaður var allhár við að keyra rúntinn. Ég byrjaði í Verzló, eignaðist þar góða vini, tók bílpróf, lærði í vinstri umferð og fékk prófið daginn eftir að hægri umferð var tekin upp. Það kom ekki að sök. Ég man enn þegar ég heyrði Hey Jude með Bítlunum, var að keyra rauða Volksvagninn hans pabba á Miklubrautinni, ég stoppaði bílinn úti í kanti til að njóta og hélt að lagið ætlaði aldrei að enda.

3. Boðskapurinn um ást og frið, held ég.

4. Fyrirmyndirnar voru helst popparar þess tíma, maður leit alltaf upp til Bítlanna og gerir enn og Rúni Júl var flottur, sérstaklega þegar hann fór úr að ofan og stökk ofan af magnarastæðunni í Glaumbæ.

5. Ætli það hafi ekki verið hársöfnunin og skeggið, það þótti flott, svo var það Húsafellshátíðin, þar söng Bjarki Tryggva með Hljómsveit Ingimars Eydal og 10.000 manns sungu með.

6. Ég ætlaði alltaf að fara í viðskipti, þess vegna fór ég í Versló og þakka enn fyrir góða vélritunarkennslu og allt annað. Dreymdi ekki flesta um að þéna vel? Ég held að það hafi ræst. Ég stefndi líka að því að finna ástina, verða hamingjusamur, eignast mannvænleg börn og geta gert það sem mér þykir skemmtilegt og áhugavert, bæði hvað varðar atvinnu og áhugamál, það hefur ræst.

7. Einu sinni vann ég með góðum listamanni. Hans lífsmottó var: „Koma seint í vinnuna, gera lítið og fara snemma,“ hann þurfti að sinna öðru. Lífsmottó mitt hefur verið að vinna vel, klára hlutina sem ég tek að mér, rækta fjölskylduna og vini, taka lífið ekki allt of hátíðlega til þess er það of stutt.

8. Já, hipparnir breyttu ýmsu, sérstaklega gildismati fólks.

9. Ég hlusta enn mikið á tónlist frá þessum árum, boðskapur hennar höfðar enn til mín, það er ómissandi að heyra t.d. í Popps á dansleik einu sinni á ári.

Hafði engin efni á að vera hippi

Birna Þórðardóttir framkvæmdastjóri Menningarfylgdar Birnu ehf., fædd 1949

Birna Þórðardóttir segir að sér sé ógerlegt að svara spurningunum nákvæmlega eins og þær eru framsettar. Þess vegna kaus hún hálfgert hugleiðingaform, með spurningarnar þó í huga, en ekki í þeirri röð sem þær eru settar fram, né heldur svarar hún öllum spurningunum, t.d. kveðst hún ómögulega geta fundið svar við spurningu 5 (Hvað er það hippalegasta, sem þú hefur gert fyrr og síðar?)!!! – Hippa hvað?...

1. Ég var ekki hippi árið 1968 og reyndar aldrei, hafði engin efni á slíku. Það voru engir hippar á Íslandi 68. Hipparnir, sem þannig skilgreindu sjálfa sig, komu seinna til hér, við vorum dálítið á eftir! Flestir voru efri millistéttarkrakkar og betriborgarabörn sem fóru í matinn til mömmu á kvöldin og höfðu efni á rándýrum „hippafötum“.

Sumarið 1967 var ég að vinna í Englandi, Sgt. Peppers kom út, mannlífsflóran var margbreytilegri en mig hafði órað og ég fékk mér stysta pils norðan Alpa, síðan hef ég haft afar einfaldan smekk.

Í einhverri bókinni um blómabarnagötuna Haight Ashbury las ég lýsingu blaðamanns sem horfði hugfanginn á eina af skuggalegu sætu stelpunum, hipp og kúl, léttklædda og berfætta sem vera bar. Þegar henni varð stigið í hundaskít var ekkert að gera annað en hrista fótinn, sveifla makkanum og halda áfram. Ég man að mér fannst þetta hvorki hipp né kúl, enda yfirleitt þurft að hreinsa upp eigin skít.

2. Árið 1968 gerðist ég róttæk og virk í pólitík. Víetnamstríðið var á fullu, herforingjarnir höfðu rænt völdum í Grikklandi eftir Prómeþeifs-áætlun Nató. Napalm og Agent Orange-aflaufgunareitrið í Víetnam og mannabúrin í Grikklandi, þar sem Mikis Theodorakis var pyntaður ásamt með þúsundum. Morgunblaðið réttlætti allar athafnir Bandaríkjastjórnar og grísku herforingjanna. Ríkisstjórn íhalds og krata einsleit í hundingshætti gagnvart glæpaverkum Bandaríkjastjórnar – bíddu, hefur ekkert breyst?

Árið 1968 tók ég stúdentspróf, flutti til Reykjavíkur, gekk Keflavíkurgöngu í fyrsta skipti, mótmælti fundi Nató í Reykjavík þar sem þeim Dean Rusk og Pipinelis var boðið að spígspora á aumingjaskap okkar, þannig að ég vitni til ljóðs Jóhannesar úr Kötlum.

Árið 1968 hafði ég lesið Tómas Jónsson metsölubók og var búin að uppgötva Sigfús Daðason.

Árið 1968 var ég þess fullviss að ekkert fyrirmyndarríki væri til og myndi vonandi aldrei verða til. Ég mótmælti innrás Varsjárbandalagsins í Tékkóslóvakíu. Steinrunnin skrifræðisbákn austurblokkar voru aldrei mín deild.

Árið 1968 var skelfilegt atvinnuleysi, þúsundir flúðu til Svíþjóðar og Ástralíu, Róska lét meira að segja Útilegumann Einars Jónssonar gefast upp og flytja til Ástralíu, fokið í flest skjól þegar Útilegumaðurinn gefst upp! Bráðabirgðalög sett á sjómenn, samkvæmt venju.

Árið 1968 innritaðist ég í HÍ og var eina stelpan í gallabuxum. Ég kynntist Dagsbrúnarmönnum og Súmmurum, skáldum og skuggaböldrum, róttæklingum og öðru heiðarlegu fólki sem átti til samúð og samvisku. Í endurminningunni skein sólin allt sumarið 68.

Árinu 1968 lauk með því að ég var barin í hausinn á miðjum Austurvelli og þar með út úr viðurkenndu borgaralegu samfélagi. Fínt!

4. Fullt af flottu og fínu fólki er til og hefur verið, sem betur fer, góðum manneskjum. Mig hefur hins vegar aldrei langað til að líkjast neinum, engir tveir eru eins og hvert og eitt okkar ber ábyrgð og getur ekki firrt sig henni.

6. Fjörutíu ár fram í tímann – hver hugsar þannig prívat og persónulega fyrir sig? Stjarnfræðilega séð er mér slíkt ómögulegt og hefur alla tíð verið. Kannski vegna þess að mikilvægast hefur verið að vera en jafnframt að gera, vera virk í augnablikinu, taka þátt, láta sig allt varða, ekki bíða til að tékka hvort eitthvað komi til með að ávaxta sig og bera arð. Heldur bera ábyrgð hér og nú!

3. Í kringum 1968 var hugmyndafræði komin í þrot, það urðu pólitísk og menningarleg skil, heimurinn var ekki bara svartur og hvítur, þótt sumir haldi slíkt enn í dag – og hafi aldrei efast!!!! Víetnamstríðið var viðbjóðslegt, réttlæting þess var mannskemmandi og vanvirðandi fyrir hverja manneskju með siðferðisvitund. Nákvæmlega eins og Íraksstríðið í dag og fleiri stríð alltumráðandi stórveldis hafa verið. Ungu fólki sér í lagi var misboðið, en eldra fólki einnig. Í Bandaríkjunum var þetta að sjálfsögðu mjög sárt, drengirnir komu heim í pokum, fjöldamorð voru framin, My Lai, stríðsglæpir, heima fyrir stirðnað kerfi, fyrirfram skráð hvernig bæri að hegða sér, við hvern og hvenær. Ku-klux-klan enn á fullu, yfirráðaréttur bleiknefja algjör. Andófi mætt með ofbeldi, eða hver man ekki morð þjóðvarðliðanna í Kent State University?

Hér á landi voru reglurnar einnig stífar og það varð að brjótast undan þeim, reglur reglnanna vegna – nei þakk!

Nái hugsunin ekki lengra en að því hvernig öðrum kunni að lítast á það sem ég er að gera – tja, þá er sennilega eins gott að leggja upp laupana.

Alþjóðlega séð hafði hippahreyfingin, sem ómeðvituð, sjálfsprottin og óskipulögð hreyfing einstaklinga mikið að segja. Kerfið birtist sem óskapnaður í allri sinni óendanlegu smæð, keisarinn var nakinn.

Mikilvægast er að gera sér grein fyrir að keisarinn er enn nakinn, hversu mikið af pelli og purpura hann lætur bera á sig – ég nota karlkynsorðið keisari og gef ekki færi á keisuru. Vegna stöðugrar nektar hins valdasjúka keisara fagna ég þeim votti af borgaralegri óhlýðni sem örlað hefur á að undanförnu, allt eins mætti óhlýðnin vera óborgaraleg!

9. Það sem lifir í mér er að hafa aldrei gengist kerfinu á hönd, kerfinu sem lýtur eigin lögmálum til að viðhalda sjálfu sér og öllum þeim er völdin hafa og vilja hafa. Sjálfstæði og frelsi eru mér mikilvægari en öryggið sem breytist svo auðveldlega í fjötra, jafnvel glæsta.

Trúði heitt á hippahugsjónina

Jóhann Páll Valdimarsson útgefandi, fæddur 1952

1. Já, ég held að ég verði að líta svo á. Þannig litu aðrir á mig og það var vissulega sjálfsmynd mín. Það var óhugsandi annað en aðhyllast uppreisn gegn borgaralegum viðhorfum á þessum árum og ekkert eðlilegra en ungt fólk risi upp gegn ríkjandi viðhorfum.

2. Það ár er táknrænt fyrir hippahugsjónina yfirhöfuð. Þá urðu straumhvörf og hippakynslóðin ögraði öllum viðteknum viðhorfum og skoðunum og fólk hræddist frjálslyndið sem fylgdi. Það er mér langminnisstæðast að ég fór í sumarskóla í London þar sem ég átti að læra ensku en það fór ekki mikið fyrir náminu en ég eignaðist þó gott samband við kennarana sem ráðlögðu mér að vera ekkert að mæta í skólann heldur sinna frekar hugðarefnum mínum sem tengdust tónlist og öllum þessum nýju viðhorfum. Carnaby street var vinsæll viðkomustaður og Marquee-klúbburinn á Wardour Street var mekka tónlistarinnar. Svo var ég svo heppinn að sjá Jimi Hendrix á tónleikum fyrir utan London. Það var toppurinn. Ég var bara sextán ára og svo barnalegur að ég leit frekar út fyrir að vera þrettán ára og í raun heldur ungur til að taka þátt í hippahreyfingunni en einhvern veginn tókst mér að fá inngöngu í hópinn og dyraverðir næturklúbbanna horfðu í gegnum fingur sér með aldurstakmark. Í London var ég kallaður Joe the Fresh Kid og var bara glaður með það.

3. Allt til að byrja með. Uppreisnin eins og áður er sagt og ekki spilltu frjálsar ástir og ætlunin að skapa frið á jörðu. Það var okkur tvímælalaust ofarlega í huga þó ekki værum við mjög raunsæ í þeim efnum en við trúðum því einlæglega til að byrja með að við gætum gert heiminn að miklu betri stað. Í okkar huga þurfti ekki meira til en að heimurinn allur fíraði í einni feitri og þá myndi þetta allt lagast. En þetta varð auðvitað skuggahlið hippahugsjónarinnar. Þær liðu á endanum allar upp í reyk og vímuefnum.

4. Ég hef á lífsleiðinni bara átt eina fyrirmynd. Hef alltaf haft á móti stjörnudýrkun en ég virkilega dáði John Lennon og gekk svo langt að fá mér gleraugu eins og hann þó að sjónin væri fín. Hann var mesti uppreisnarmaðurinn í Bítlunum og þar af leiðandi minn maður. Hann gaf öllu langt nef og var ósmeykur að ögra og söng og samdi lög um frið og góða hluti af meiri einlægni en aðrir.

5. Úpps. Það man ég ekki. Skólafélögum mínum í Versló var illa brugðið þegar ég mætti í hippamúnderingunni eftir dvölina í London. Það stakk verulega í stúf í þeim virðulega og íhaldssama skóla. Jón heitinn Gíslason skólastjóri átti nú frekar erfitt þegar ég var gerður að ritstjóra skólablaðsins sem ég lagði auðvitað undir hippahugsjónir og viðtöl við fólk sem bjó í kommúnum í Reykjavík, viðtöl við Dag Sigurðarson og fleira í þeim dúr. Jón kallaði mig á teppið og spurði hvort ég gæti ekki dregið úr þessu. Hann var ákaflega elskulegur en ég gat ekki svikið hugsjónina sem ég trúði heitt á um þetta leyti.

6. Eitt sinn hippi, ávallt hippi. Ég gat ekki séð að ég yrði nokkru sinni annað en hippi en auðvitað runnu á mig tvær grímur eins og fleiri þegar halla tók undan fæti með þennan lífsstíl og fátt eitt var eftir annað en ólögleg fíkniefni. Það var ljóst að það gat aldrei orðið vit í því þó ég áttaði mig ekki á því fyrr en síðar. Það var stórmál að yfirgefa hippahreyfinguna. Maður var talinn svikari. Ég komst að þeirri niðurstöðu að við fengjum engu áorkað með því að vera alltaf utangarðs og lýsti því yfir að ég ætlaði að taka þátt í hinu borgaralega samfélagi og öðlast lágmarks viðurkenningu svo á mig yrði hlustað í framtíðinni og ég fengi hugsanlega einhverju áorkað með þeim hætti að erfiðara yrði að afgreiða málflutning minn ef ég stæði undir venjulegum kröfum samfélagsins. Þess vegna gætti ég þess að standa mig ávallt í skóla og rækti yfirleitt skyldur mínar. En ég er þrátt fyrir allt ansi mikill hippi enn inn við beinið. Þessi tími hafði varanleg áhrif á mig og ég er þakklátur fyrir hann þó svona færi.

7. Að vera góður strákur er að mínu viti það sem mestu skiptir. Ég flæki þetta ekkert frekar.

8. Nei, í meginatriðum lifir hippahugsjónin ekki lengur. Hún lenti hálfpartinn á öskuhaugunum vegna þess hve fíkniefnaneysla var henni samofin. Þó eimir eftir af ýmsu eins og friðarhugsjóninni og að vera á varðbergi gagnvart ríkjandi viðhorfum.

9. Ég hef alltaf verið villtur og fremur uppreisnargjarn og tek mig mátulega hátíðlega. Ég dýrka enn það besta í tónlistinni frá þessum tíma en finnst þó stundum óþægilegt að heyra hvað fíkniefnin eru samofin henni í mörgum tilfellum. Það var lifað í botn og það var merkileg reynsla.

Í uppreisnarframboði til Alþingis

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir alþingismaður, fædd 1949

1. Já, ég var nú dálítill hippi á háskólaárum mínum. Hippatímabilið hófst heldur seinna hér á landi en í Evrópu og Bandaríkjunum, þar sem það átti upptök sín hjá ungu fólki í háskólum sem vildi breytingar í frjálsræðisátt og fylltist uppreisnaranda. Það var orðið hundleitt á tilgangslausum styrjöldum eins og Víetnamstríðinu og gamaldags vinnubrögðum stjórnmálamanna. Árið 1968 var ég í Menntaskólanum í Reykjavík, sem var íhaldssöm menntastofnun, en þar var mikið og öflugt félagslíf. En '68-andans fór ekki að gæta á Íslandi og í lífi mínu fyrr en ég var komin í Háskóla Íslands 1969 og '70. Þá var ég flugfreyja hjá Loftleiðum og flaug mikið til New York þar sem hippamenningin blómstraði. Þar sá ég söngleikinn Hárið á Broadway þegar hann hóf göngu sína og tónlist þessa tíma um frið og frjálsar ástir var TÓNLISTIN.

2. Á þessum tíma sá ég um popptónlistarþætti í Ríkisútvarpinu (einu íslensku útvarpsstöðinni) og kom með hljómplöturnar volgar frá löndunum beggja vegna Atlantshafsins, en hljómplötur komu seint og illa til landsins í verslanir á þessum árum. Þá starfaði ég líka sem plötusnúður í diskótekinu í Glaumbæ, sem var vinsælasti skemmtistaðurinn. Ég átti alls kyns hippamussur og forláta útsaumað Afganistan-vesti sem ég keypti á markaðinum mikla í Istanbúl þegar ég fór þangað með vinkonu minni í fluginu en við gistum þar á pensjónati við Bláu moskuna, sem var vinsælt hjá hippum víðsvegar að úr heiminum sem ferðuðust ódýrt um Evrópu.

3. Frjálsræðið heillaði mig mest og lífsgleðin sem fylgdi '68 kynslóðinni.

4. Ég man nú ekki eftir að hafa haft einhverja sérstaka eina fyrirmynd.

5. Það má segja að uppátæki okkar skólafélaganna í félagsfræðideild HÍ árið 1971 hafi verið sprottið beint af hugmyndafræði '68 kynslóðarinnar, en þá buðum við fram til Alþingis, O-listann, öðru nafni Framboðsflokkinn. Þetta var uppreisnarframboð í háðskum grínstíl. Það var kannski ekki beinlínis hippalegt heldur frekar angi af '68 ólgunni sem gætti með þessum hætti hér.

6. Árið 1968 var ég ekki að gera mér neina rellu út af því hvernig eða hvað ég ætlaði að gera þegar ég yrði stór – heldur var ég ákveðin í að nýta öll skemmtileg tækifæri sem mér byðust í lífinu og að hafa gaman af öllu sem ég tæki mér fyrir hendur. Mér hefur tekist það bærilega.

7. Carpe diem.

8. Þessi bylgja sem reis á Vesturlöndum breytti mörgu í stöðnuðum og íhaldssömum samfélögum í frjálsræðisátt, og kannski meiru en við gerum okkur grein fyrir í dag. Hippatýpur eru enn til og sumir sem voru hippar verða ávallt hippar!

9. Ég elska tónlistina frá þessum tíma og svo höfum við vinirnir staðið fyrir '68 kynslóðar áramótaballi í yfir 20 ár, en það er reyndar komið í frí núna. Á þessum böllum var ýmislegt rifjað upp frá þessum róttæku, skemmtilegu og ógleymanlegu tímum, – í tónum og tali. Og mikið hlegið, sungið og dansað.

Margt í borgaralegri hugsun var mér lítt að skapi

Kjartan Gunnarsson lögfræðingur, fæddur 1951

1. Nei ég var ekki hippi kringum árið 1968. Hef í raun aldrei áttað mig á hvað þessi losaralega hippamenning átti að fyrirstilla. Ég var sautján ára gamall og nýkominn með bílpróf og hafði mestan áhuga á að undirbúa mig fyrir líf í borgarlegu samfélagi. Hvorki ég né mínir vinir sáum nokkuð eftirsóknarvert í því sem okkur virtist afar yfirborðslegt hjal, sítt hár og ósnyrtilegur og ljótur klæðnaður. Við höfðum engan áhuga á að sitja á gólfinu, reykja hass, mótmæla Víetnamstríðinu eða aðhyllast vinstristefnur í stjórnmálum. Borgaralegt samfélag var okkur engin hindrun til að koma draumum okkar í framkvæmd, heldur þvert á móti forsenda þess að þeir yrðu að veruleika. Það sem boðið var upp á sem mótvægi við ríkjandi skipulag var að okkar dómi fyrst og fremst fatatíska sem breyttist í lífsstíl, en þurfti ekki að vera lífsstíll. Þannig voru sumir sem við áttum að vinum klæddir á frjálslegan hátt þó að þeir væru ekki með framtíðarsýn hippanna um frið á jörð og metnaðarleysi einstaklinga.

2. Ég var að hefja menntaskólanám og virkur í Sjálfstæðisflokknum og í skólafélagi MR. Mér eru minnisstæðastir atburðir úr félagslífi skólans eins og inspektorskosningar og Herranótt og svo úr stjórnmálum þess tíma, en þá var Viðreisnarstjórnin við völd og mest á reið að koma þjóðinni yfir það efnahagsáfall sem hrun síldarstofnsins var 1967. Álvinnsla var í undirbúningi með þeim klofningi milli manna sem vildu einangrað Ísland og hinna sem vildu samstarf við útlendinga. Róstur voru á alþjóðavettvangi með innrás Sovétríkjanna inn í Tékkóslóvakíu og þær miklu afleiðingar sem það hafði á kommúnista á Íslandi.

3. Ég hafði ekkert á móti hippum, þeir voru bara þarna eins og skammdegið og lægðirnar, var innilega ánægður ef einhver fann sína hillu, en mér fannst fólki ekkert farnast vel á þeirri hillu og langaði ekkert þangað. Verst var að þeir vörðu tíma sínum í andmæli og mótþróa gegn öllu og öllum og því varð þeim lítið úr dýrmætum tíma sínum. Það hefur sýnt sig að þessu fólki hefur mörgu hverju farnast afar illa í lífinu, eins og þeir hafi misst úr hluta af mótunarferli æskuáranna.

4. Ég horfði af töluverðri aðdáun til Bjarna Benediktssonar. Hann var lögfræðingur og lagaprófessor, borgarstjóri, ritstjóri, dómsmálaráðherra, utanríkisráðherra og loks forsætisráðherra. Það var þó ekki fyrir titlana sem hann bar á mismunandi skeiðum lífsins sem ég leit upp til hans, heldur vegna þess hve sannspár hann var, hve dómgreindin reyndist honum vel, vegna elju hans og alvöru og alls þess sem hann kom í verk og allir nutu. Hann var í huga hippanna holdgervingur þess sem þeir stóðu á móti, enda vandfundnar meiri andstæður en dr. Bjarni og hipparnir.

5. Á dimission var ég í náttfötum með nátthúfu og stóð uppi á palli þar sem Pallas Aþena hafði verið áður en skólafélagar mínir rændu henni og komu fyrir í gömlum kolakjallara í MR og að lokum á skrifstofu rektors.

6. Ég var og er blessunarlega laus við vangaveltur um framtíðina, hvað mína persónu áhrærir og hvar ég yrði á tilteknum tímapunkti í framtíðinni. Ætli ég hafi ekki búist við því að vera lögfræðingur eins og ég er og sinna störfum sem tengd væru stjórnmálum Sjálfstæðisflokksins og fjármálum, hver svo sem vettvangurinn yrði nákvæmlega. Hvort ég yrði fjölskyldumaður eða ekki, slíkar vangaveltur hafa örugglega ekki verið neinar á þeim tíma. Hafi ég hugsað út í framtíðina með þessum hætti hef ég vafalaust gengið út frá því að vinir mínir þá myndu verða það áfram.

7. Að vera en ekki sýnast.

8. Þeir breyttu mörgu í ríkjandi samfélagshugsun, ekki síst hvað konurnar varðaði. Við megum ekki gleyma því að hippamenningin og femínisminn héldust hönd í hönd á Íslandi með tilkomu Rauðsokkanna, en margar þeirra voru lausar úr viðjum þeirrar borgarastéttar sem viðurkenndi aðeins eitt viðfangsefni kvenna, heimilisumsýslu, en hafnaði því að þau verkefni gætu verið allra og konur sem karlar ættu jafnan rétt til að þroska og njóta allra hæfileika sinna.

9. Eftir á séð gæti ég trúað að hippatíminn hafi í mörgu rutt brautina fyrir frjálshyggjubyltingu síðustu þriggja áratuga.

Ég sagði í byrjun að sjálfur hefði ég ekki verið hippi, heldur litið á framtíð mína innan ríkjandi skipulags, í stórum dráttum, hefði ég átt að bæta við. Án þess að vilja umturna öllu fyrirkomulaginu var margt í borgaralegri hugsun mér lítt að skapi. Mér fannst vanahugsun víða ráða ríkjum, gagnrýndi blinda virðingu fyrir hefðum sem jaðraði við þrælsótta, vanahugsun um að engu mætti breyta, þá færi allt úr böndunum. Ríkjandi hugmyndir um stöðu ríkisvaldsins og margt fleira voru mótaðar af stétt embættismanna og af ættarsamfélaginu, fólki sem kunni allar reglur ríkjandi samfélags upp á hár og notaði regluveldið sér í vil. Þeir sem þá gáfu tóninn notuðu „hefðarspekina“ þ.e. ríkjandi viðmið eftir hentugleikum til að viðhalda eigin stöðu og halda öðrum niðri.

Hipparnir ætluðu sér sannarlega ekki að styrkja hið borgaralega þjóðskipulag en gerðu það að mínu mati með óbeinum hætti. Með málflutningi sínum um annan og betri heim en hið ríkjandi samfélag bauð upp á opnuðu þeir huga okkar, hinna borgaralega sinnuðu jafnaldra fyrir þeim möguleika að skoða heiminn nýjum augum og gefa sér ekki óbreyttan hugsunarhátt stöðnunar, opnuðu augu manna fyrir því að vel væri hægt að kollvarpa gildum og hefðum innan ríkjandi borgaralegs þjóðskipulags og þannig efla það og festa í sessi með nauðsynlegri endurnýjun.

Listamennirnir af hippakynslóðinni voru mjög öflugir gerendur í þessari gerjun hugmyndanna. Gjörningur Rúríar, bekkjarsystur minnar í barnaskóla í miðborg Reykjavíkur, þegar hún eyðilagði gylltan Mercedes Benz með sleggju, er atburður sem engum gleymdist sem sá. Gjörningurinn var táknmynd þess hve efnishyggjan ein nær skammt og hve auðveldlega maðurinn sjálfur verður afgangsstærð í heimi sem snýst bara um efnislega hluti.

Margt fleira mætti tína til sem dæmi um hugmyndasmiðju og tíðaranda hippatímans. Tíðarandi hippatímans var áhrifamikill í því að búa til færa leið fyrir þá sem aðhylltust borgarleg gildi í stórum dráttum en stigu fram og efuðust um að hefðarspekin væri heilagur sannleikur án þess að tefla með því ríkjandi þjóðskipulagi í hættu. Með þessum hætti urðu svo smám saman til móttökuskilyrði fyrir hugmyndir frjálshyggjunnar á síðustu þrjátíu árum.

Kastaði tómati í Pípínellís utanríkisráðherra

Kristján Guðlaugsson blaðamaður, fæddur 1949

1. Ég var aldrei hippi á árunum kringum 1968 ef haft er í huga hvað bandaríska hippahreyfingin stóð fyrir, en þó fór ekki hjá því að ég hafði samúð með ýmsu af því sem hipparnir sögðu og gerðu. Ég leit á hippana sem hluta af langtum stærri hreyfingu meðal æskunnar í heiminum (allt frá Rauðu varðliðunum í Kína til hassreykjandi aðdáenda gúrúanna í Nepal og á Indlandi). Ég sá heldur aldrei neitt markmið með hippastandinu annað en að draga sig út úr vélvæðingu og tæknibrölti hins vestræna og kommúníska heims með tilheyrandi stríðsrekstri og ég held að hipparnir hafi átt lítinn þátt í því sem gerðist í Bandaríkjunum og Evrópu árið 1968. Því má kannski bæta við að allir ungir menn með sjálfsvirðingu báru sítt hár á þessum tímum, voru aldrei með bindi eða í hvítri skyrtu og létu illa að stjórn en hlustuðu þeim mun ákafar á hina nýju tónlist sem sköpuð var af og í kringum æskuhreyfinguna á þessum árum.

2. Ég var í menntaskóla árið 1968 og margir atburðir eru minnisstæðir frá því ári, bæði erlendir og innlendir. Tet-sóknin mikla í Víetnam frá janúar til september þetta árið, atburðir sem reyndust afgerandi fyrir þróun stríðsins og endanlegan ósigur Bandaríkjamanna. Morðið á Martin Luther King. Hin ofsafengnu uppþot sem urðu í Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi og mörgum öðrum löndum álfunnar, stúdentarnir sem myrtir voru af lögreglunni við Kent-háskólann í Bandaríkjunum, Menningarbyltingin í Kína og loks innrás sovéska hersins í Tékkóslóvakíu um haustið voru allt saman atburðir sem kyntu undir vaxandi æskuhreyfingu um alla veröld, einnig hér á Íslandi. Þeir sem segja að 68-kynslóðin hafi bara verið ruglaðir kjaftaskúmar, eins og nú heyrist æ oftar, ættu að huga að þessum stóratburðum sögunnar sem mynduðu ramman um þessa „kynslóð“. Hérlendis gerðust líka ýmsir atburðir þó að ekki hafi þeir haft heimssögulega þýðingu. Fyrir mig persónulega man

ég eftir að hafa kastað tómati í Pípínellís, utanríkisráðherra grísku herforingjaklíkunnar, og að árið 1968 endaði með því að mér var vikið úr MH fyrir að hafa skrifað leiðara í skólablaðið í tengslum við hrottafengna framkomu lögreglunnar gagnvart mótmælendum fyrir utan rússneska sendiráðið eftir innrásina í Tékkóslóvakíu.

3. Það var fátt bitastætt í hugsjónagraut hippanna, nema ef vera skyldi að einhverjir fengu að njóta frelsis í ástarlífinu áður en vofa eyðninnar birtist, en það hefur þá helst hrifið mig í eftirtíð eins og svarið segir til um.

4. Fyrirmyndir mínar sótti ég fyrst og fremst í leiðtoga þeirrar baráttu sem átti sér stað gegn Víetnamstríðinu og yfirgangi Sovétríkjanna en einnig í fjölmarga aðra. Nægir að nefna Bob Dylan, Woodie Guthrie, Joan Baez, John Lennon, Rolling Stones en bæði rithöfundar og heimspekingar voru hluti af þessum hópi.

5. Það hippalegasta sem ég hef gert fyrr og síðar var að búa í kommúnu í Gautaborg þar sem maríjúana var mikið haft um hönd. Til að byrja með var kommúnan vel skipulögð og allir unnu og lögðu fram sinn skerf til rekstursins. Seinna þegar starfsþrek sumra íbúanna byrjaði að dvína í takt við aukna neyslu fíkniefna flutti ég út úr kommúnunni ásamt þáverandi konu minni. Hvorugt okkar vildi ánetjast eiturlyfjum og ekkert okkar prófaði neitt sterkara en maríjúana eða hass.

6. Árið 1968 hugsaði ég hreinlega ekki mikið um það hvernig líf mitt myndi þróast næstu 40 árin, ég hafði of mikið að hugsa um samtíðina, þá eins og nú.

7. Frelsi til að fara eigin leiðir án þess að skerða frelsi annarra.

8. Mér virðist hippalífsstíllinn hafa lifað einna lengst hjá tísku- og fataframleiðendum sem alltaf eru nokkrum skrefum á eftir þeim hluta æskunnar sem velur að fara eigin leiðir og lætur ekki teyma sig. 68-kynslóðin breytti kannski ekki lífsgildum eða samfélagsgerð til frambúðar en barátta hennar og andstaða gegn lífsgildum sem ríktu á tímabilinu sem kallað hefur verið „Pax Americana“ (1945-1965) olli breytingum á margvíslegan hátt. Ein hlið þessara breyttu lífsgilda varða til dæmis stöðu konunnar í samtímanum, önnur minnkað vægi trúarbragða á Vesturlöndum o.s.frv.

9. Þörfin til að fara eigin leiðir og trúin á að 68-kynslóðin hafi ekki verið neitt einangrað fyrirbæri sem nú heyri sögunni til, eða með öðrum orðum trúin á afl og þor æskunnar í framtíðinni.

Hugmyndin um ást og frið hreif mig mest

Jón Ársæll Þórðarson sálfræðingur og fréttamaður á Stöð 2, fæddur 1950

1. Maður hefði þurft að vera kalinn á hjarta til að hrífast ekki með þeim straumi hugsjóna sem flæddi um allan hinn vestræna heim í byltingunni sem kennd hefur verið við árið 1968. Og auðvitað hreifst maður með og ekkert varð sem áður. Af hverju? Af hverju ekki? Hér voru allt í einu komin svör við öllum þeim spurningum sem maður hafði verið að velta fyrir sér og ekki fengið neinn botn í. Nú var línan skýr og klár. Héðan af yrði ekki staðar numið. Nú skyldi heiminum breytt til hins betra. „Heimsyfirráð eða dauði“, hrópuðu sumir.

2. Ég bjó í Englandi þennan vetur og það fór ekki fram hjá neinum að meðal ungs fólks áttu miklar breytingar sér stað. Ég hafði verið á sjó um sumarið en meðal skipsfélaga minna voru hugsjónirnar aðrar en þær sem blómabörnin börðust fyrir. Til að komast utan vann ég einnig í síldarverksmiðju fram að jólum og þar hugsuðu menn meira um lýsi og mjöl en um hina nýju heimsmynd. Það var svo ekki fyrr en ég var kominn í Kennaraskólann að hlutirnir fóru að skýrast um leið og hárið síkkaði og hýjungurinn á hökunni varð að myndarlegu Jesú-skeggi.

3. Það sem hreif mig mest var hugmyndin um ást og frið. Hvað gæti bjargað vesölum heimi ef það væri ekki þetta tvennt. Hér var grundvöllurinn kominn. Ást og friður, hvað annað?

4. Það er ef til vill klisjukennt að segja að ein helsta fyrirmyndin hjá manni hafi verið Jesú Kristur eða „Sússi“ eins og krakkarnir kalla hann en hann kemur óneitanlega upp í hugann þegar spurt er um fyrirmyndina í byltingunni. Hann hafði jú sjálfur staðið í ströngu fyrir ástina og friðinn og endað á krossgötum ef þannig má að orði komast.

5. Það fennir ört í sporin þegar nefna á einstök atvik úr byltingunni og ég veit heldur ekki hvort það er eitthvað til að stæra sig af en ég tók mig til eitt sinn og sneri öllum myndum og málverkum á heimili mínu á hvolf til að sýna foreldrum mínum fram á að myndlistin heima væri ekki lengur list heldur aðeins hluti af húsgögnunum. Það væri einfaldlega rangt að búa við list sem væri hætt að tala til manns, hætt að hafa áhrif. Þessi einkabylting mín við Þormóðarstaðaveginn vakti litla hrifningu og mér mistókst algjörlega að fá heimilisfólkið til að hrífast með og ganga til liðs við hina nýju tíma nema þá helst Kristrúnu litlu systur mína sem fannst þetta helvíti töff ef ég man rétt.

6. Hvað framtíðina snerti þá sá maður aldrei lengra en fram á vorið, lifði meira fyrir daginn, já og kvöldið og það dugði með ágætum. Framtíðin var alltof langt í burtu og er einhvern veginn enn.

7. Lífsmottóið? Gera betur á morgun en gert var í dag og þetta með „að við hefðum getað verið betri hvort við annað“.

8. Hugsjónirnar frá 68-byltingunni og baráttan fyrir ást og friði höfðu óneitanlega mikil áhrif á hin vestrænu samfélög. Menn héldu auðvitað hver í sína áttina og urðu hluti af þeim samfélögum sem þeir voru sprottnir upp í. Með þátttöku sinni í daglegu lífi og þessar hugsjónirnar í farteskinu var hins vegar sáð fræjum þeirrar hugsunar að heiminum væri hægt að breyta til góðs. Ég væri stoltur ef ég gæti talist til þessa fólks.

9. Það sem lifir frá 1968 er draumur um betri tíð.

Tilnefning svínsins sem forsetaefnis hitti í mark hjá mér

Magnea J. Matthíasdóttir rithöfundur og þýðandi, fædd 1953

1.-2. Nei, væntanlega hefur nú ekki verið hægt að kalla mig hippa.

Ég var 15 ára menntaskólamær, bjó heima hjá ömmu Möggu og fylgdi hennar boðum og bönnum – svona að mestu. Aftur á móti var farið að fréttast af hreyfingu „blómabarna“ með tilheyrandi áherslum á ást og frið og ég verð að játa að hún höfðaði mikið til mín. Ekki spillti fyrir lag Scotts McKenzies: For those who come to San Francisco / Summertime will be a love-in there / In the streets of San Francisco / Gentle people with flowers in their hair... Að vísu komst ég aldrei alla leið.

En það kemur væntanlega engum á óvart, að það sem ég man best eftir frá árinu 1968 er stúdentauppreisnin og mótmælin í París í maí, sem ollu ekki síst mikilli ólgu í brjóstum menntaskólanema og vangaveltum um hvernig skólar – og þá einkum háskólarnir sem biðu okkar – ættu að vera. Vorið í Prag vakti líka fyrirheit um bjartari og betri heim og mennskari sósíalisma. Varsjárbandalagið læknaði okkur svo rösklega af þeim ranghugmyndum með haustinu – og mig reyndar í leiðinni af ámóta ranghugmyndum sem ég kann að hafa gert mér um „roðann í austri“.

3. Þessu er fljótsvarað: ást og friður, umburðarlyndi og að setja alltaf spurningarmerki við viðtekin gildi og viðhorf í staðinn fyrir að telja slíkt heilagan sannleika.

4. Hmm – 1968 – ja, hver skyldi það nú hafa verið? Ég var auðvitað veik fyrir Rauða-Rudi Dutschke eins og svo margir en kolféll líka fyrir Jippunum Abbie Hoffman og Jerry Rubin. Einkum höfðaði pólitíska satíran og allt leikhúsyfirbragð hennar til mín, ekki síst þegar Jipparnir reyndu að kyrja Pentagon á loft og þegar bissnismennirnir í kauphöllinni í New York börðust um dollaraseðlana sem Jipparnir fleygðu niður af áhorfendapöllunum. (Skrílslæti hvað?) Uppátækin í kringum landsþing bandaríska Demókrataflokksins 1968 og tilnefning svínsins „hins ódauðlega Pigasus“ sem forsetaefnis hittu líka í mark hjá mér. Sama máli gegndi ekki um bandarísk yfirvöld og seinna fylgdist ég með réttarhöldunum yfir the Chicago Seven og svarta hlébarðanum Bobby Seales. Og svo var auðvitað Bob Dylan. – En fyrirmyndir? Hmm... Já, kannski að einhverju leyti.

5. Það fer nú algjörlega eftir því hvað telst vera hippalegt. Að búa í kommúnu? Ganga berfætt? Bródera blóm í buxur og jakka? Mála lágmynd á stofuvegginn? Baka heilhveitibrauð og búa til jógúrt? Taka þátt í mótmælaaðgerðum? Brenna brjóstahaldarann? Hlusta á Incredible String Band og Doors? Segja „Wow, maður!“ í tíma og ótíma?“ Been there, done that...

6. Ég er hreint ekki viss um að ég hafi velt því mikið fyrir mér. Aðalpælingin var auðvitað að lifa fyrir daginn í dag, svona rétt eins og liljur vallarins, og setja framtíðinni ekki í of stífar skorður. Ég stórefast um að árið 1968 hafi ég hugsað lengra en til ársins 1969. Árið 2008 var eitthvað úr vísindaskáldsögu, en af þeim las ég reyndar töluvert á þessum árum – og stundum enn.

7. „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“ stendur víst í Biblíunni. Ætli ég vildi ekki hafa það „ekki gera neinum það sem þú vilt ekki að þér sért gert“. Það er að segja: reyndu að sýna öðrum umburðarlyndi og skilning og berðu virðingu fyrir lífsháttum og skoðunum annarra. Svo er aftur annað mál hvort manni tekst að lifa eftir því.

8. Já, ég held að hin svokallaða '68-kynslóð hafi skilað ýmsu og miklu meira en henni er eignað, enda telja menn víst almennt að allir af þeirri kynslóð hafi reykt af sér hausinn og dópað frá sér allt vit. Ég er til dæmis nokkuð viss um að umhverfisvernd og almennt frjálslyndi á Vesturlöndum, t.d. gagnvart samkynhneigðum, eigi þar rætur. Frelsi, jafnrétti og bræðralag – eða var það hin franska byltingin? – eru jafngóðar hugsjónir nú sem þá, þó að þær verði fyrir bakslagi við og við.

9. Ég geng enn í síðum pilsum dags daglega. Og kannski eimir eftir af fleiru, það er aldrei að vita

Fór leynt með trúaráhugann

Anna Sigríður Pálsdóttir prestur, fædd 1947

1. Ég get í raun alls ekki talist meðal hippanna þó að mér fyndist þau sem voru þar stödd á margan hátt spennandi fólk.

2. Árið 1968 útskrifaðist ég úr Myndlista- og handíðaskólanum, ég gifti mig sama ár og var því nýgift og ófrísk þegar ég lauk kennaraprófi úr MHI (átti son minn í lok desember 1968). Ég var fyrst og fremst uppfull af ábyrgðartilfinningu og að undirbúa mig undir að hefja starf sem myndmenntakennari. Svo að ég gat alls ekki talist til hippa í fullum skilningi þess hugtaks.

3. Kannski er rétt að segja að tónlistin hafi hrifið mig mest í tengslum við hippana. Ég var ekki sérlega hrifin af lífsstíl þeirra, alls ekki af því að búa í kommúnu, á þessum tíma var ég skíthrædd við hass, svo að eitthvað sé nefnt.

4. Ég er ekki viss um að ég hafi verið með sterka fyrirmynd á þessum árum, heillaðist þó alltaf af þeim sem þorðu að standa fyrir því sem þeir voru, hvort sem þeir voru hippar eða ekki.

5. Ætli að það hafi ekki verið þegar ég fékk mér Angelu Davis permanent eða afro-permanent, það var seinna, um 1973, sonur minn varð svo hræddur við mig að hann grét heilan dag. Seinna lærði ég að reykja hass, var mjög fljót að afgreiða það. Hætti því jafnfljótt og ég byrjaði.

6. Alveg örugglega ekki í þá átt sem það hefur þróast, ég sá mig í hlutverki móður og eiginkonu fyrst og síðast og fór mjög leynt með trúaráhuga minn. Það þótti ekki áhugavert í mínum kreðsum :-)

7. Að vera trúr sjálfum sér og sjálfum sér samkvæmur.

8. Ég veit ekki hvað skal segja, það er í mínum huga alltaf ósannfærandi þegar ein kynslóð tekur eitthvað upp eftir annarri án þess að það spretti upp úr grasrót þeirrar sömu kynslóðar. Hippakynslóðin spratt upp úr ákveðnu ástandi sem ríkti í hinum vestræna heimi, það er auðvitað ekki allt sem skyldi í heiminum í dag, en ég held að margt í hugmyndafræði hippanna eigi ekki við í dag, hafi sannað sig að vera til skaða. Eins og til dæmis neyslan á hassi og ofskynjunarlyfjum.

9. Andúð á stríðsrekstri stórveldanna. Ég er ekki viss um að ég haldi í lífsstílinn nema ef vera kynni að hafa dálæti á austrænum skartgripum og fatastíl.

Fannst Flowers langflottastir

Lóló Guðmundsdóttir einkaþjálfari í World Class og ungbarnasundkennari, fædd 1949

1. Nei ég var ekki hippi í þess orðs merkingu en hippatískan náði algjörlega til mín.

2. Ég var í íþróttakennaranámi en minnisstæðust er mér hljómveitin Flowers. Á böllunum hjá þeim var hippatískan allsráðandi og þeir langflottastir.

3. Hugsjónir hippanna voru örugglega góðar og gildar þeim sem tileinkuðu sér þær. Á mig virkaði þetta sem letilíf. „Peace“-merkið í sjálfu sér kemur manni ekki langt í lífinu.

4. Man ekki eftir neinni einni fyrirmynd, það var svo margt að skoða.

5. Fór í Þórsmörk um verslunarmannahelgi með vinahópnum. Sátum inni í tjaldi umvafin teppum

og flaska af Cointreau gekk hringinn. Hef reyndar aldrei drukkið Cointreau síðan.

6. Sá fyrir mér heilbrigt og íþróttatengt líf og það hefur gengið eftir.

7. Vera samkvæm sjálfri mér og lifa samkvæmt því.

8. Allt er þetta spurning um hvaða væntingar við höfum til lífsins. Öll viljum við frið og elsku í hvívetna. Ég held að það sé spurning um aðferð á hverjum tíma.

9. 68-hugsunin var auðvitað bara partur af mótun á því hvað maður ætlaði sér í lífinu og hvernig mann langaði að líf manns þróaðist. Ég er bara mjög sátt.

Æfði tónlist, stundaði nám og hugsaði um stelpur

Magnús Jón Kjartansson hljómlistarmaður og framkvæmdastjóri Félags tónskálda og textahöfunda, fæddur 1951

1. Já, ég var hippi. Að einhverju leyti var um áhrif frá tónlistarheiminum að ræða og þá skelfingu sem kjarnorkukapphlaupið olli. Ungt fólk sameinaðist um að breyta hugsanahætti og gildismati millistéttarinnar um stríðsrekstur, auðvaldshyggju og kjarnorkuvæðingu. Áhrifin komu víða að. Frá Bandaríkjunum bar mest á efasemdum almennings um stefnu Bandaríkjanna í Víetnamstríðinu. Stór hópur vaskra manna streymdi til landsins í kistum, pokum og/eða mikið limlestur, án þess að almenningi væri ljóst fyrir hverju var barist. Frá Evrópu bárust áhrif frá stúdentum, sem létu mikið fyrir sér fara, þó aðallega í Frakklandi. Tónlist var notuð sem skilaboðakerfi og varð mjög leitandi og tilraunakennd á þessum tíma. Það vakti áhuga minn og margra annarra. Réttindindastaða kvenna varð mörgum hugstæð og þær rifu sig úr brjóstahöldurunum. Pillan varð algeng getnaðarvörn og Bítlarnir sungu „All you need is love“ og „Hey Jude“. Þetta voru góðir tímar.

2. Þá var ég 17 ára og gerði allt það sem unglingar á mínum aldri gerðu. Maður æfði tónlist, stundaði nám, og hugsaði um stelpur. Hippastelpurnar voru langfallegastar og gáfaðastar.

Morðið á Martin Luther King hafði áhrif og einnig það að Rússar réðust inn í Tékkland. Fyrir sjálfan mig var það bílprófið sem ég fékk um mitt sumar þetta ár.

3. Þessu er erfitt að svara í fáum orðum, en ég geri það þó mest í svari mínu við spurningu 1.

4. Vegna tónlistarstarfa minna voru The Beatles, The Beach Boys o.fl. í miklu uppáhaldi ásamt Steve Winwood og Jimmy Hendrix.

5. Að þora að vera ég sjálfur og lifa inní miðju núinu. Til þess þarf kjark og áræði.

6. Stór hluti af pólitík hippana var að spá ekki of mikið í framtíðina, en lifa fyrir líðandi stund. Af þeirri ástæðu lagði maður ekki löng plön um framtíðina. Mér var allavega ekki ljóst að ég yrði íhaldssamur millistéttarmaður, sem má kalla að ég sé í dag. Það er erfiður biti að kyngja. Maður fylgist þó með „krúttkynslóðinni“ sem er á margan hátt framlenging af hippamenningunni.

7. Lifðu í núinu, ekki sitthvorum megin við það.

8. Áhrifin eru margvísleg. Eiturlyfjanotkun sem þá þótti sjálfsögð, að hluta til vegna þess að áhrif hennar höfðu lítið verið rannsökuð, er orðin að alltof stóru vandamáli sem á ekkert skylt við hugmyndafræði, eða neyslu hippanna. Hún er orðin að skipulagðri glæpastarfsemi sem leggur líf alltof margra í rúst á örskotsstundu. Á hippatímanum var hún að hluta til til þess að fara í aðra vímu en millistéttin viðurkenndi og stundaði sjálf þ.e.a.s áfengisneyslu.

Nú í dag er öllu blandað saman í graut sem sem er lífshættulegur. Það er vissulega svartur blettur á hippatímanum að hafa á sér þann stimpil að hafa innleitt þessa menningu að hluta. Frá þeirri ábyrgð verður ekki komist.

Flestir gamlir hippar lifa nú reglusömu millistéttarlífi, og brýna hættuna fyrir „krúttkynslóðinni“ sem svarar fyrir sig að nú sé „hent grjóti úr glerhúsi“.

9. „Eitt sinn hippi, ávallt hippi.“

Þetta er eins og að hafa farið í skátana, eða KFUM. Hugmyndirnar og hugsunin hverfur ekki, heldur lifir með manni alla ævi í því formi að maður hefur fyrirvara á græðgisvæðingunni, kjánavæðingunni, virkjanavæðingunni og öllu því sem getur hugsanlega fært náttúrulega þróun úr jafnvægi. Virðing fyrir landi og lýð og sérstöðu hvers og eins er mikilvæg hugsun. Það er merki um ósjálfstæði að allt þurfi að vera eins og annarstaðar. Það að verslanir og fyrirtæki heiti útlendum nöfnum og að við skulum helst vilja borða á erlendum skyndibitastöðum á Íslandi er merki um ósjálfstæði og lágt sjálfsmat.

Heimurinn er fallegur og gjöfull eins og hann var skapaður. Maðurinn bætir hann ekki eins mikið og hann heldur með innígripi sínu í náttúru, veiðar og landbúnað með uppgerðartæknivæðingu sinni.

Allt er þó gott í hófi, og vandrataður hinn „gullni meðalvegur“.

Fékk hljómsveitina til að safna hári

Þuríður Svala Sigurðardóttir myndlistarmaður, fædd 1949

1. Nei, ég var aldrei týpískur hippi, einhver eliment í mér pössuðu ekki þar inn. Ætli ég hafi bara ekki verið of mikil tepra og of jarðbundin?

2. Ég man að ég byrjaði árið á að syngja með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar í áramótaskaupi Sjónvarpsins. Annars rennur árið 68 svolítið út í eitt fyrir mér, ég var að syngja meira og minna öll kvöld, stóð í framlínunni hjá Magnúsi ásamt Vilhjálmi Vilhjálmssyni á Röðli, á Vellinum og úti á landi um sumarið. Ég stökk inn í heim skemmtanalífs fullorðinna, sem ég tók aldrei beinan þátt í og missti svolítið af lestinni þegar kom að jafnöldrunum, náði örsjaldan að komast í Glaumbæ t.d.

3. Hugsjónin um betri heim, ást og frið hreif mig en áherslan á frjálsar ástir, frelsi til að neyta fíkniefna, frelsi frá kerfinu, frelsi til að vera nákvæmlega eins og hver og einn vildi höfðaði ekki til mín og margt af gildum hippanna gekk heldur ekki upp. Þeir enduðu allnokkrir í að selja sig markaðnum.

4. Útlit og klæðnaður Cher og hönnun Mary Quant, pínupilsin og allur pakkinn! Í söngnum Sandy Shaw og Dusty Springfield. Magnús Ingimarsson var mér ákveðin fyrirmynd og lærifaðir en Vilhjálmur var mér stelpukrakkanum stoð og stytta í söngnum. Mér fannst allir í hljómsveitinni, að Vilhjálmi meðtöldum hálfgerðir gamlingjar en Villi var þá 23 og næstur mér í aldri. Ég fékk hann og restina af hljómsveitinni til að safna hári.

5. Að syngja kasólétt í hljómsveitinni Islandia 1974. Konur földu slíkt ástand á þeim tíma og létu alla vega ekki sjá sig á sviði komnar á steypirinn.

6. Mig langaði alltaf að læra myndlist og náði því langþráða marki árið 1998 þegar ég innritaðist í Listaháskóla Íslands. Annars minnist ég þess ekki að hafa verið að velta því mikið fyrir mér hvernig líf mitt myndi þróast. Ég sá mig reyndar alltaf sem fjölskyldumanneskju og þar er ég lukkunnar pamfíll, á tvo syni og eitt barnabarn og við hjónin fögnum 30 ára brúðkaupsafmæli í ár.

7. Að njóta dagsins og vera þakklát fyrir líf mitt og heilsu.

8. Ungt fólk lét í sér heyra á hippatímanum, sem hafði margvísleg áhrif til góðs í heiminum. Ég tel að fyrir vikið sé öll umræða í dag opnari og gegnsærri og það hefur skilað sér til unga fólksins. Mótmælendur dagsins í dag má ef til vill kalla nútíma hippa.

9. Mig dreymir enn um betri heim.

1968 Innlent

4. mars fara um 20 þúsund manns í mörgum verkalýðsfélögum í verkföll, sem standa í rúman hálfan mánuð.

18. mars er undirritað samkomulag um greiðslu verðlagsuppbóta í áföngum og rúmlega hálfsmánaðarverkfalli aflýst.

19. mars býður dr. Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður, sig fram til forseta.

22. mars tilkynnir dr. Gunnar Thoroddsen, sendiherra í Kaupmannahöfn, forsetaframboð sitt.

25. mars hrapar bandarísk herþota af Keflavíkurflugvelli í Landssveit og reyndist hún vera með 24 flugskeytum, ætluðum til að granda óvinaflugvélum.

3. maí liggur hafís fyrir norðan og austan og hefur ísinn að sögn fróðra manna ekki verið meiri hér við land síðan 1915.

26. maí tekur hægri umferð gildi og Íslendingar eru hvattir til að fara út að aka.

24. – 25. júní er ráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins haldinn á Íslandi í fyrsta sinn. Andstæðingar Nato efna til mótmæla og skera niður einn Natofána.

30. júní var Kristján Eldjárn kjörinn forseti Íslands.

Í ágúst eru haldnir fjölmennir útifundir til að mótmæla innrás Rússa og fylgiríkja þeirra í Tékkóslóvakíu.

24. ágúst er Norræna húsið vígt.

3. september hefjast viðræður fulltrúa allra stjórnmálaflokkanna um hið alvarlega efnahagsástand þjóðarinnar.

3. október kemur út ný skáldsaga, Kristnihald undir jökli, eftir Halldór Laxness.

11. nóvember Gengi íslenskrar krónu er fellt um 35,2% gagnvart erlendri mynt. Seðlabankinn segir ástæðuna léleg aflabrögð síðustu tveggja ára og lækkandi fiskverð á erlendum mörkuðum.

17. nóvember heldur Alþýðusamband Íslands fjölmennan útifund þar sem mótmælt er þeirri stórfelldu árás á launakjör alþýðu sem felst í nýafstaðinni gengisfellingu.

21. desember verða átök milli lögreglu og fólks sem var að koma úr Tjarnarbúð af fundi í tilefni af 8 ára afmæli þjóðfrelsishreyfingar Víetnams. Átta manns eru handteknir og tvennt flutt á slysadeild.

Heimild: Öldin okkar

Dýrkaði dadaista – og geri enn

Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri, fædd 1948

1. Nei, það voru engar veðurfarslegar forsendur til að lifa sig inn í San Francisco hippalíf.

Ég var í MR árið 1968 og maður hafði enn mjög óljósar hugmyndir um hvað það snerist að vera hippi. Maður hreifst af Janis Joplin, Dylan og Doors, var friðarsinni á móti Víetnamstríðinu og gömlum hugmyndaheimi en hvaða unglingur var það ekki? Það er sama hversu mikið ég skima þetta ár, hvergi kem ég auga á alvöru hippa. Næstu árin mættu einhverjir hippar frá útlöndum með hass og LSD með sér. Það gerði engan að betri manni.

2. Um sumarið fór ég til Frakklands. Kynntist hópi skapandi ungmenna sem tóku þátt í maí-óeirðunum og höfðu sagt skilið við gamla heiminn, töluðu fyrir friði, frelsi, réttlæti og mannúð, voru náttúruunnendur, gegn kynþáttafordómum og hverskonar hömlum og höftum. En þau hefðu hakkað menn í spað sem hefðu borið upp á þau að þau væru hippar. Það var reyndar í gangi hreyfing þar í landi sem kölluð var Baba Cool og var frönsk útgáfa af hippum. Mér fannst það mjög smart nafn og út frá því bjó ég til mína eigin hreyfingu sem ég kallaði Dada Cool, til heiðurs dadaistum sem ég dýrkaði og geri enn. Þessi hreyfing mín varð aldrei fjölmenn en varð mér hið vænsta veganesti. Nær komst ég ekki hippum það árið.

3. Þó að hippahugsjónin hafi verið útópísk (ekki í fyrsta skipti að það hendir menn og varla það síðasta), þá er það í sjálfu sér íhugunarvert að hálf milljón manna skuli hafa uppgötvað hvað orð eins og samhjálp, tillitssemi, réttlæti, væru máttug orð. Þetta gerðist samt á Woodstock, 1969. Allt á forsendum frelsis. Í heila þrjá sólarhringa.

4. Ég hafði uppgötvað kvikmyndalistina og ákvað með sjálfri mér um vorið það ár að læra að gera kvikmyndir. Þetta sumar í Frakklandi sá ég bæði La Chinoise og Week End eftir Godard. Ég varð algjörlega skák og mát. Slíkt og þvílíkt frelsi hafði ég aldrei skynjað í miðlun frá því dada var og hét. Mjög uppljómandi og hafði varanleg áhrif á mig. Ekki var Godard hippi. En hann varð fyrirmynd... þangað til árið eftir þegar hann fór alveg út í móa.

Þá tók eitthvað annað við. Af nógu var að taka, öll veröldin iðaði af hugmyndum en ég veit ekki hvort það var endilega hippum að þakka.

5. Það hippalegasta var ef til vill þegar ég keypti mér litasprengda boli sem ég kunni nú aldrei almennilega við, búin að henda brjóstahöldurunum mínum og sat með krosslagða fætur úti í heitri Miðjarðarhafsnóttinni og hlustaði á indverska vini mína herma eftir Ravi Shankar.

6. Ef það var eitthvað sem maður forðaðist tvítugur að aldri var það að reyna að ímynda sér hvernig það væri að vera þroskaður einstaklingur. Ég ætlaði bara að vera flott, æðisleg, mögnuð, hættuleg, djörf, skapandi og skæð. Eitt var ég viss um, að leiðin lá ekki til Katmandou.

7. Ég reyni alltaf að minna mig á að hver stund er full af möguleikum ef hugurinn er frjáls... vera Dada Cool!

8. Tónlistin lifir og er síendurtekin uppgötvun fyrir ungt fólk á öllum aldri og öllum tímum.

Hipparnir mega eiga það að þeir veltu mörgum tabúum og ætluðu að endurhæfa gamla heiminn og áttu með öðrum hreyfingum stóran þátt í að opna leið fyrir nýjum viðhorfum, eins og umhverfisvernd (þó ekki hafi borið mikið á því í Woodstock) mannúð, friði, frjálsu kynlífi, kvenfrelsi, andstöðu gegn efnishyggju og svo framvegis.

Sagt er að peningamarkaðurinn hafi ef til vill verið mannaður í stórum stíl af gömlum hippum og nú sé hann í óða önn að taka að sér mál sem eru talin arfleifð hippanna. Er þá ekki hægt að segja að endurhæfingu gamla heimsins sé að ljúka eða er allt bara komið enn einn hringinn?

9. Öll völd til Dada Cool!

Stofnaði kvennahreyfingu í Svíþjóð

Álfheiður Steinþórsdóttir sálfræðingur, fædd 1949

1. Nei, það var ég aldrei. En ég var svo sannarlega af 68-kynslóðinni.

Þegar talað er um hippa þá skil ég það svo að átt sé við þá sem höfðu sérstakan lífsstíl, bjuggu í kommúnum eða sambýli, stundum fjölmennum. Jafnvel var talið að frjálsar ástir hafi viðgengist innan hópsins og algengt með hassneyslu og hvers kyns samneyslu. Flestir sem ég þekki til sem um tíma bjuggu í kommúnu voru bara í sambýli og hjálpuðust að með leiguna og voru vinir og kunningjar eins og svo algengt er hjá stúdentum í dag. En þetta form var óvanalegt þá.

Sjálf átti ég mann og barn á þessum tíma og var í stífu námi auk félagsstarfanna.

Tískan í kringum 68/70 var mjög afgerandi, ég var eins og aðrar konur með slegið sítt hár og ómáluð yfirleitt. Karlmenn á þessum tíma voru frekar síðhærðir og með skegg. Fötin sem við vildum ganga í voru oft með austurlenskum blæ, síð pils, náttúrulegir litir og bómullarbolum kynntist ég fyrst á þessum tíma. Föt áttu að vera þægileg, náttúrulegir litir og bómull/ull en gerfiefni átti ekki upp á pallborðið hjá okkur, hvorki á börn eða fullorðna. Ég man eftir að hafa litað og gert batik-boli og pils með vinkonu minni á þessum tíma og bjó sjálf til barnamat án aukaefna. Mikið var um tónlist, bítlarnir og Bob Dylan, en ekki síður Cornelis Vreesvijk og trúbadúrar og svo auðvitað jazz. Ekkert lífsgæðakapphlaup var á mér og mínu fólki en mikið lagt upp úr að vera virkur í samfélaginu.

2. Þá var ég í námi við Háskólann í Uppsölum í Svíþjóð, var í félagsfræði og félagsmannfræði sem ég tók áður en ég fór yfir í sálfræðina. Mér er mjög minnisstætt á þessu ári að hafa horft á sjónvarpsfréttir frá stúdentauppreisn í Frakklandi. Ljóslifandi er fyrir mér innrásin í Tékkóslóvakíu 21. ágúst 1968. Þá sat ég heima og horfði mjög slegin á atburðarásina í sjónvarpinu sitjandi í hægindastól með son minn sofandi.

3. Það sem var sérstakt við þessar hugsjónir var áherslan á jafnrétti fólks og barátta gegn kúgun þeirra sem valdið höfðu yfir þeim sem voru minni máttar. Við sem vorum stúdentar 68-kynslóðarinnar skipuðum okkur í raðir þeirra sem börðust gegn hvers kyns misrétti. Það átti líka við um íhaldssama afstöðu í skólakerfinu.

Ég get nefnt dæmi um þetta: Í Menntaskólanum í Reykjavík var það neyðarlegt þegar Guðni Guðmundsson enskukennari gerði gys að okkur bekkjarsystrum í 5a bekk fyrir að skrifa svo lélegan stíl að við ættum heima í frystihúsunum en ekki í menntaskóla. Við þögðum og vorum sneyptar. Í félagsfræðitíma í Uppsölum man ég eftir svipaðri uppákomu þegar kennari sagði að ef nemendur næðu ekki betri árangri ættu þeir frekar heima á verksmiðjugólfinu. Það urðu heldur betur önnur viðbrögð af hálfu nemenda. Þeir urðu hneykslaðir og kennarinn fékk að vita að hann sýndi mikinn hroka þegar hann talaði niðrandi um vinnandi fólk og gerði lítið úr því. Hann var beðinn um að svara fyrir hvað væri að því að starfa í verksmiðjum.

Sjálf hafði ég mestan áhuga á þessum tíma á Víetnam-hreyfingunni en ekki síst kvennabaráttunni, stofnaði Grupp 8 í Uppsölum með nokkrum konum og hélt áfram í Rauðsokkahreyfingunni eftir að til Íslands kom.

4. Ég man ekki eftir að hafa átt einhverjar fyrirmyndir í einstaklingum en dáðist að mörgum fyrir dugnað og sköpunarkraft, ég man akkúrat núna eftir Mikis Theodorakis sem samdi tónlist sem er svo falleg og gaf Grikkjum hugrekki og úthald á tímum herforingjastjórnarinnar. Þegar ég kom fyrst til Grikklands 1976 var tónlist hans bönnuð af herforingjastjórninni en hægt var að kaupa hana á plötum með leynd.

5. Ég hef ekkert sérstakt svar við þessari spurningu.

6. Ég vildi hafa áhrif á það hvernig samfélagið yrði í framtíðinni, ekki síst hafði ég áhuga á framtíð barna og sálrænni líðan fólks. Vissi að ég vildi mennta mig á því sviði en óraði ekki fyrir því að ég myndi vera stödd þar sem ég er í dag, að reka eigin fyrirtæki, halda námskeið og skrifa bækur. Sérstaklega átti ég ekki von á að reka fyrirtæki 2008.

7. Mitt leiðarljós er að reyna að vera heilsteypt manneskja, við fjölskylduna, vini og í starfi en líka gagnvart sjálfri mér. Og að geta glaðst og notið lífsins í núinu hverju sinni.

8. 68-kynslóðin hafði hugsjónir sem leiddu til víðsýni og vakti alþjóðavitund. Hún lagði áherslu á mannúð og vakti áhuga á sálfræði og heimspeki, umræðu um lífsgildi og réttlæti. Konur af þessarri kynslóð fóru í stórum stíl að mennta sig og fara út á vinnumarkaðinn. Í flestum löndunum í kringum okkur fæddust því mun færri börn á fjölskyldu en áður var en við Íslendingar eigum þó enn flest börn á fjölskyldu. Í kjölfarið á 68-breytingunum fengu börn þó of litla ramma og of óljósar línur frá foreldrum. Það hefur fylgt uppeldi barna þessarar kynslóðar margt gott en líka markaleysi í uppeldi sem er ekki til góðs fyrir börnin.

9. Ég hef þá hugsjón að vilja miðla þekkingu í mínu fagi, skrifa og halda námskeið og vera alltaf að læra nýtt. Í anda 68 þarf alltaf að vera að koma með og vinna úr hugmyndum, og það varð til dæmis mikilvægt að halda námskeið fyrir 68-kynslóðina þegar hún fór að komast á miðjan aldur og vildi fræðast um hvernig hægt sé að takast á við slík tímamót. Þessi kynslóð verður eflaust einnig með hugmyndir um hvernig hún ætlar að hafa það þegar hún kemst á elliárin. Hún er ekki hætt að láta í sér heyra.

Af lífsstíl finnst mér það vera arfur frá stúdentsárunum að vilja gjarnan halda stór matarboð með vinum og fjölskyldu, skemmtilegast er þegar allir koma með mat og vín í púkkið.

1968 Erlent

5. janúar er Alexander Dubcek kosinn leiðtogi Kommúnistaflokksins í Tékkóslóvakíu. Viðburðurinn markar upphaf Vorsins í Prag.

16. mars fremja bandarískar hersveitir fjöldamorð á óbreyttum borgurum í My Lai, Suður-Víetnam. Sama dag tilkynnir Robert Kennedy, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins, forsetaframboð sitt.

17. mars særist 91 lögreglumaður og 200 mótmælendur eru handteknir á Grosvenor-torgi í London í mótmælaaðgerðum gegn stríðsþátttöku Bandaríkjanna í Víetnam.

22. mars taka nokkrir vinstrisinnar, skáld og tónlistarmenn, auk 150 stúdenta undir forystu Daniels Cohn-Bendits, yfir stjórnarskrifstofur Nanterre-háskólans í París, til að mótmæla stéttamismunun og pólitísku skrifstofubákni sem réði yfir fé skólans.

4. apríl er blökkumannaleiðtoginn Martin Luther King drepinn í Memphis, Tennessee. Í kjölfarið verða uppþot í helstu borgum Bandaríkjanna.

11. apríl er reynt að myrða Rudi Dutschke, leiðtoga vinstri hreyfingarinnar í stúdentaóeirðunum í Þýskalandi. Sama dag taka vinstrisinnaðir stúdentar yfir aðalstöðvar Springer-fjölmiðlasamsteypunnar í Berlín.

11. apríl undirritar Lyndon B. Johnson, forseti Bandaríkjanna, Mannréttindasáttmálann.

22. apríl Stöðugir árekstrar stúdenta og yfirvalda í háskólanum í Nanterre urðu til þess að skólanum var lokað.

29. apríl Söngleikurinn Hárið frumsýndur í London. Á Íslandi var Hárið sett upp í Glaumbæ árið 1971.

1. til 31. maí uppþot og verkföll og óeirðir breiðast út í Frakklandi og ríkisstjórnin riðar til falls. Maí '68 varð tákn mótspyrnu kynslóðarinnar sem var um tvítugt 1968.

5. júní er skotið á Robert Kennedy, forsetaframbjóðanda, í Los Angeles. Hann deyr af sárum sínum næsta dag.

25. júlí birtir Páll VI páfi umburðarbréf sitt þar sem hann fordæmir getnaðarvarnir.

5. ágúst útnefna repúblikanar Richard Nixon sem forsetaefni Bandaríkjanna og Spiro Agnew sem varaforsetaefni.

20. ágúst líður vorið í Prag undir lok þegar 200.000 manna herafli og 5.000 skriðdrekar Sovétríkjanna og bandamanna þeirra í Varsjá ráðast inn í Tékkóslóvakíu.

29. september er þjóðaratkvæðagreiðsla í Grikklandi, sem eykur völd herforingjastjórnarinnar.

14. október tilkynnir varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna að 24.000 hermenn verði sendir aftur til Víetnams.

20. október Aristotle Onassis og Jacqueline Kennedy giftast á grísku eyjunni Skorpios.

31. október fyrirskipar Lyndon B. Johnson að sprengjuárásum skuli hætt á Norður-Víetnam frá og með 1. nóvember.

5. nóvember Richard M. Nixon sigrar í forsetakosningunum.

22. nóvember kemur Hvíta albúm Bítlanna út.

24. desember kemst geimfarið Apollo 8. á sporbraut umhverfis tunglið og voru þremenningarnir í áhöfninni þeir fyrstu til að sjá bakhliðina á tunglinu og jörðina alla.

1. Varst þú hippi kringum árið 1968?

2. Hvað varst þú að gera árið 1968 og hvað er þér minnistæðast frá því ári?

3. Hvað hreif þig mest við hugsjónir hippanna?

4. Hver var helsta fyrirmynd þín árið 1968? Af hverju?

5. Hvað er það hippalegasta, sem þú hefur gert fyrr og síðar?

6. Hvernig sást þú í stórum dráttum fyrir þér árið 1968 að líf þitt myndi þróast til dagsins í dag og þú yrðir staddur í tilverunni árið 2008?

7. Hvaða lífsmottó vildir þú helst geta haft í hávegum?

8. Hver er arfleifð hippanna, eða 68-kynslóðarinnar?

9. Hvað lifir enn af '68-hugsuninni og lífsstílnum hjá sjálfum þér?

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.