Alsherjargoði Frá vígslu Hilmars Arnar Hilmarssonar á Þingvöllum. Grunnhugmynd ásatrúarmanna er að brúðhjónin gifti sig sjálf. Í brúðkaupinu skiptist þau á eiðum því stundin og ábyrgðin sé þeirra, enda eru þeim ekki lagðar lífsreglurnar við athöfnina.
Alsherjargoði Frá vígslu Hilmars Arnar Hilmarssonar á Þingvöllum. Grunnhugmynd ásatrúarmanna er að brúðhjónin gifti sig sjálf. Í brúðkaupinu skiptist þau á eiðum því stundin og ábyrgðin sé þeirra, enda eru þeim ekki lagðar lífsreglurnar við athöfnina. — Morgunblaðið/Arnaldur
Tónlistarmaðurinn og tónskáldið Hilmar Örn Hilmarsson hefur gegnt embætti allsherjargoða síðan 2003. Aðeins sextán ára gamall gekk hann í Ásatrúarfélagið og hefur verið ötull talsmaður hins forna siðar allar götur síðan.

Tónlistarmaðurinn og tónskáldið Hilmar Örn Hilmarsson hefur gegnt embætti allsherjargoða síðan 2003. Aðeins sextán ára gamall gekk hann í Ásatrúarfélagið og hefur verið ötull talsmaður hins forna siðar allar götur síðan. Hrund Hauksdóttir leitaði til allsherjargoða til að kynnast brúðkaupsathöfnum að hætti ásatrúarmanna.

Hvernig fer hjónavígsla að ásatrúarsið fram?

„Grunnhugmyndin er sú að brúðhjónin gifta sig sjálf. Þau skiptast á eiðum, stundin og ábyrgðin er þeirra, enda eru þeim ekki lagðar neinar lífsreglur við athöfnina.

Það er hins vegar hlutverk goðans að helga stað og stund og kalla til viðeigandi goðmögn, yfirleitt þrjá guði og þrjár gyðjur, brúðhjónum til farsældar. Hver athöfn er einstök því þær eru ætíð sniðnar að óskum og áherslum brúðhjónanna sjálfra. Stundum felst það í því að fleiri goð eru kölluð fram þeim til fulltingis, stundum fær tónlist meira vægi og stundum koma vinir eða ættingjar að athöfninni með upplestri eða persónulegu framlagi. Athafnir fara með fáum undantekningum fram utandyra, kveiktur er eldur og brúðkaupsgestir slá hring um brúðhjónin. Hápunktur athafnarinnar er þegar brúðhjónin sverja hvort öðru tryggðar- og trúnaðareiða og leggja hönd á stallahring sem goðinn heldur á.“

– Hverjir hafa vígsluréttindi og hvaða skilyrði þurfa þeir að uppfylla?

„Nú hafa fimm goðar innan ásatrúarfélagsins vígsluréttindi. Goðar eru þeir sem hafa fengið meðmæli til starfans og verið samþykktir á allsherjarþingi ásatrúarfélagsins sem slíkir. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið veitir þeim síðan löggildingu til þess að framkvæma athafnir sem hafa lagalegt gildi.“

– Hvar fara slíkar athafnir fram?

„Oft og tíðum velja brúðhjónin stað sem hefur tilfinningalegt gildi fyrir þeim. Það getur verið sumarbústaðarland, garðurinn heima, hefðbundnar söguslóðir eða persónulegir staðir. Þingvellir og Snæfellsnes eru vinsælir kostir og svo má geta þess að Hellisgerði í Hafnarfirði er einnig mjög vinsæll vígslustaður. Staðarvalið er brúðhjónanna þótt vígslumenn geti oft komið með góðar uppástungur.“

– Eru veisluhöld að lokinni athöfninni?

„Yfirleitt er haldin hefðbundin brúðkaupsveisla og er allur gangur á því hvar hún fer fram. Sum brúðhjón leigja veislusali eða félagsheimili, önnur bjóða til veislu í heimahúsi og oft er slegið upp grilli á vígslustaðnum og bornar fram veitingar sem fólk hefur haft meðferðis.“

– Koma útlendingar til landsins í þeim tilgangi að giftast að þessum sið?

„Útlendingar hafa frá fyrstu dögum ásatrúarfélagsins sótt í að giftast að heiðnum sið hér á landi. Slíkar athafnir hafa spurst út, enda þótt fréttnæmar, og því hefur verið stöðug fjölgun á slíkum athöfnum. Sé makinn erlendur hefur einnig færst í vöxt að vinir hans og ættingjar flykkist til landsins til að vera viðstaddir athöfnina.“

– Gefið þið saman samkynhneigða?

„Því miður leyfa landslög það ekki enn sem komið er. Það eru að vísu blikur á lofti í þeim efnum því uppi hafa verið hugmyndir um að gefa forstöðumönnum trúfélaga slík réttindi, óski þeir eftir því sjálfir. Sjálfum þykir mér sárt að vera neyddur til þess að hanga í halarófu á eftir þjóðkirkjunni meðan hún er að útkljá þessi mál innan sinna veggja. Eðlilegast væri að vígslumenn gætu farið eftir eigin sannfæringu í þessum efnum.“