Búr í leit af fugli Alan Nashman í leikritinu Kafka & Son sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu síðasta haust.
Búr í leit af fugli Alan Nashman í leikritinu Kafka & Son sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu síðasta haust. — Ljósmynd/Cylla von Tiedemann
Franz Kafka eyddi vetrinum 1917-18 í húsi systur sinnar í Zürau, örlitlu sveitaþorpi í Bæheimi. Þangað fór hann mánuði eftir að hann greindist með berkla (sem drógu hann loks til dauða sjö árum síðar) og samdi rit það sem síðar var kallað Zürau-spakmælin .

Eftir Ásgeir H Ingólfsson

asgeirhi@mbl.is

Það er rétt að taka það fram strax í upphafi að ég er enn ekki búinn að lesa þetta rit Kafka nógu vel. Kápan er nefnilega enn í heilu lagi. Forsíða bókarinnar er nefnilega þeim eiginleika gædd að smátt og smátt losnar um ferhyrninginn í miðju hennar sem hefur að geyma nafn bókarinnar og þegar hann losnar mun nafnið ekki lengur blasa við, heldur spakmæli sem hljóðar svo: „Þegar þú ert kominn nógu langt þá er engin leið að snúa til baka. Þangað verður þú að komast.“ Og ég er ekki enn kominn á þessa lífsnauðsynlegu endastöð þar sem bækur taka að molna í höndunum á manni og skipta um heiti í miðjum lestri.

Hinn fjölþjóðlegi Kafka

Þetta verk Kafka hefur raunar þegar skipt um nafn. Vinur Kafka og sjálfskipaður ritstjóri hans eftir andlátið, Max Brod, skýrði þetta spakmælasafn upphaflega Hugleiðingar um synd, þjáningu, von og hina sönnu leið . Ítalski Kafka-fræðingurinn Roberto Calasso rakti sig hins vegar í gegnum upprunalegt handrit Kafka í byrjun aldarinnar og sá ekki neina góða ástæðu fyrir því að breyta röð spakmælanna, eins og Brod hafði gert, og þá fannst honum titill Brod gefa fölsk fyrirheit um innihald verksins. Það var svo í anda þýskumælandi gyðingsins Kafka, sem er í uppflettiritum ýmist gerður að Austuríkismanni (hafandi búið í því gamla keisaraveldi sem þá teygði anga sína til Prag) eða Tékka, að þessi útgáfa ritsins kom fyrst út á ítölsku undir heitinu Aforismi di Zürau , sem seinna varð svo að The Zürau Aphorisms í ensku þýðingunni sem ég las.

Spakmælin eru alls 109, sum aðeins ein setning og það lengsta á aðra síðu, og raunar er nafnið sem Calasso gefur ritinu ekki mikið nákvæmara en nafn Brod. Líklega yrðu öll nöfn á þessu riti villandi því Kafka er ekki þeirrar gerðar að falla auðveldlega í fyrirfram gefin hólf – enda fékk hann sitt eigið lýsingarorð á ensku, kafkaesque (kafkaískt), ekkert fullnægjandi orð þótti vera til um heimana sem Kafka skapaði.

Fight Club og Kafka

En þó á Kafka það sameiginlegt með mörgum samtíðarhöfundum sínum að þurfa að horfast í augu við dauðann snemma á ævinni. Berklasjúka skáldið sem dó ungt er vissulega ákveðin klisja, er sannleikurinn í þeirri klisju líklega helst sá hversu mikilvægt þessum skáldum var að fara alla leið, eins og segir í fimmta (og bráðum fyrsta) spakmæli bókarinnar sem áður er getið. Í bréfum sem Kafka skrifar frá Zürau lýsir hann dvölinni sem einhverjum besta tíma ævi sinnar. Þar skipti vissulega máli að vera fjarri skarkala stórborgarinnar Prag en kannski ekki síður að nú hafði hann ekkert val annað en að fara alla leið – hann var orðinn berklaveika skáldið úr goðsögunni. Líf hans hafði breytt um nafn.

En eftir því sem á lesturinn líður rennur upp fyrir manni að líklega er frjóasti lesturinn að skoða verkið sem sjálfshjálparbók. Það er vissulega í flestu eins langt frá sjálfshjálparbókum nútímans og mögulegt er, en sáluhjálp berklaveikra skálda millistríðsáranna var líklega töluvert öðruvísi en sú sem lesendur 21. aldar velmegunarþjóðfélagsins Íslands sækja í. En þó grunar mig að munurinn sé fyrst og fremst sá að sjálfshjálp Kafka sé einlægari. Hann horfist í augu við skuggahliðarnar og eins það að þær heilla hann. Hann sér gildi hins grýtta slóða og er tilbúinn til þess að taka við hnefahöggum veraldarinnar (sbr. spakmæli 54 þar sem segir m.a. að veröldin skammist sín svo mikið þegar horft er á hana berum augum í sterku ljósi að hún muni öðlast hnúa til að berja þann sem horfir) – líklega er sú sjálfshjálparbók nútímans sem kemst næst henni Fight Club . Þetta er sjálfshjálp nýhilismans, þeirra sem hafna hinu þægilega IKEA-lífi nútímans. „Góðmennska er í vissum skilningi óþægileg.“ (30. spakm.)

Paradísarmissir er blekking

Kafka er þó í ýmsu jákvæðari en margir myndu ætla. Honum er tíðrætt um Paradís, sem hann virðist sannfærður um að við höfum í raun aldrei verið rekin úr, brottreksturinn hafi aðeins verið blekking. Paradísarheimt snýst þannig um að sjá í gegnum allar blekkingarnar. Raunar er erfitt að sjá hvaða, ef einhverja, trú Kafka aðhyllist. Eitt nefnir hann þó ítrekað í ritinu sem hann greinilega trúir á – hið óbrjótanlega. Þetta óbrjótanlega er inni í okkur öllum en það er okkur flestum hulið, við hyljum það með guðstrú og blekkingum – en sökum þess að það er ekki hægt að eyðileggja þennan kjarna – sem öllu skiptir – þá hefur ekkert sem máli skiptir eyðilagst við Paradísarmissinn, Paradís er inni i okkur öllum, við rötum bara fæst þangað.

Hann er líka móralskur á sinn svartsýna hátt eins og 53. spakmælið sýnir best: „Það er rangt að svindla, jafnvel þótt við lifum í heimi þar sem svindlið hefur borið sigur úr býtum.“ Þá má finna kjarnann úr mörgum þekktustu skrifræðismartröðum Kafka í þessari einföldu setningu: „Búr lagði af stað í leit að fugli.“ (sp. 16)

Í raun má segja að kjarninn í verkinu sé trú á manneskjuna en vantrú á samfélag hennar. Þetta kristallast kannski best í 27. málshættinum; „Okkur er kennt að gera hið neikvæða, hið jákvæða er þegar til staðar inni í okkur.“ Hverja Kafka hafði í huga þarna er svo efni í aðra og lengri grein, er hann að tala um foreldra, skóla eða yfirvöld – eða hugsanlega allt þetta? Alla handhafa sannleikans – en hann sjálfur hefur vissulega orðið einn af þeim eftir andlátið, á sinn sérstæða hátt.

Kynslóðabilið brúað

En ef arftakar Kafka í skáldastétt ætla að gera uppreisn hafa þeir stuðning hans, jafnvel þótt uppreisnin beinist gegn honum sjálfum. Því allar byltingar eru réttmætar þótt þær séu dæmdar til þess að mistakast. Því er rétt að ljúka þessum pistli á sjötta spakmælinu, sem ætti að geta sætt byltingarmenn allra tíma, ungskáld, fyrrum ungskáld og látin skáld; „Úrslitastund þróunar manneskjunnar er sífellt að bresta á. Þess vegna hafa hreyfingar byltingarkenndra stefna, sem lýsa allt sem á undan fór marklaust, rétt fyrir sér – því enn sem komið er hefur ekkert gerst.“