Steinar Sigurjónsson „Í verkum hans var enginn ljós tilgangur, enginn boðskapur, andinn var heiðinn, laus við biblíulegar kvaðir og fordæmingu,“ segir Guðbergur Bergsson.
Steinar Sigurjónsson „Í verkum hans var enginn ljós tilgangur, enginn boðskapur, andinn var heiðinn, laus við biblíulegar kvaðir og fordæmingu,“ segir Guðbergur Bergsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eiríkur Guðmundsson er ritstjóri tuttugu binda ritsafns Steinars Sigurjónssonar sem kemur út á morgun, 9. mars, en þann dag eru áttatíu ár liðin frá fæðingu skáldsins. Í ritsafninu koma út allar bækur Steinars, skáldsögurnar og smásagnasöfnin, auk leiktexta, ljóða og greina sem höfundurinn birti í blöðum og tímaritum. Að síðustu kemur út bók um skáldskap Steinars eftir Eirík, Nóttin samin í svefni og vöku. Hér er rætt er við Eirík um Steinar.

Eftir Þröst Helgason

throstur@mbl.is

Steinar Sigurjónsson fæddist 9. mars á Hellissandi og ólst þar upp til átta ára aldurs þegar hann fluttist með foreldrum sínum til Akraness. Steinar hefur lýst hversu erfitt hann átti með að samlagast lífinu á Skaga en það eru líka til heimildir um að það hafi verið mikill stæll á skáldinu þar upp frá, að sögn Eiríks, hann rak ballhljómsveit, Hljómsveit eða Sextett Steinars Sigurjónssonar, spilaði sjálfur á klarinett og saxófón. „Steinar var lítið gefinn fyrir fótbolta og fisk, en eins og menn vita þá snýst lífið á Skaga um þetta tvennt.“

Steinar fór í prentnám. Hann var í sambúð á þessum árum og eignaðist tvær dætur. En á fyrri hluta sjötta áratugarins byrjaði hann að skrifa. Hann sýndi Jóni Óskari sögu árið 1953. Jóni leist vel á en það var ekki fyrr en 1955 sem fyrsta bók Steinars kom út, Hér erum við .

„Þetta er falleg bók,“ segir Eiríkur, „inniheldur tvær smásögur og svo ljóðræna smáprósa sem mætti kalla módernísk brot. Þarna er tónninn strax gefinn, verkið fjallar um glímuna við lífið í litlu þorpi og þann sálarkyrking sem verður hjá fólki á slíkum stöðum sem þráir eitthvað annað.“

En það er svo í Ástarsögu árið 1958 sem Steinar mætir til leiks í öllu sínu veldi. Þar er dregin upp groddaleg mynd af frumstæðum kenndum fólks á Skaga.

„Fylliríi sjómanna er lýst, framhjáhaldi og brostnum vonum, en Steinar gerir það á stórkostlegan hátt. Hann sagðist sjálfur mjög hrifinn af James Joyce og hefur greinilega lesið hann vel. Í Ástarsögu beitir hann vitundarflæði og fer inn í hugsanir hvers karaktersins á fætur öðrum, dregur upp eins konar heilalínurit. Stafsetningin tekur mið af framburði og kannski var það tilraun til þess að færa alþýðumál yfir á bók. Og það tekst bara mjög vel. Þetta eru ekki stælar og ekki tiktúrur. Steinari tekst að nota aðferðir módernismans til þess að skrifa bók um þennan íslenska veruleika, ekki ósvipað og Faulkner gerði. Hann lærði líka af módernískum fyrirrennurum sínum og setti sinn hrepp í það skapalón. Sjálfur Halldór Laxness er að hamast á nútímaskáldsögunni á útkomutíma Ástarsögu . Hann talar um að þetta séu bara dillur og taugaveiklun og órar og prentbrellur, slapptaugaður æsingur sem menn sletta yfir síðurnar. En það eru engir stælar í Steinari. Þetta er ekta.“

Fyllirí og fagurfræði

En hver hefur staða Steinars verið í íslenskri bókmenntasögu? Viðtökur voru misjafnar á sínum tíma, honum var sýnt fálæti en þó skrifuðu sumir vel um verkin. Talsvert endurmat hefur átt sér stað síðustu ár. Matthías Viðar Sæmundsson skrifar ítarlega um verk Steinars í Íslenskri bókmenntasögu og Ástráður Eysteinsson hefur sinnt rannsóknum á verkum hans svo dæmi séu nefnd. En Eiríkur telur að enn eigi menn eftir að átta sig á mikilvægi Steinars.

„Hann er klárlega einn af þremur eða fjórum helstu skáldsagnahöfundum okkar á seinni hluta aldarinnar. Ástráður Eysteinsson hefur skrifað um blómaskeið íslensks módernisma á sjöunda og áttunda áratugnum og þar á Steinar stóran hlut. Guðbergur kemur auðvitað til sögunnar 1961 og á síðan feril sem er eitt samfellt blómaskeið. Og kannski hefur Steinar staðið í skugganum af Guðbergi en Guðbergur sjálfur hefur sagt að það væri skortur á æðri menningu hjá Íslendingum að hafa ekki tekið eftir verkum Steinars. Og Steinar hafi lent í því að Íslendingar gera ekki greinarmun á skáldskap og raunveruleika. Menn vildu gera hann að utangarðsskáldi.“

Má ekki segja að fylliríssögurnar hafi flækst fyrir viðtökunum, bæði af honum og eftir hann?

„Jú, menn hafa ruglað saman lífi og list. Auðvitað var Steinar slarkari og það fór fyrir brjóstið á einhverjum. En það kom líka illa við fólk hvaða mynd hann dró upp af lífinu í þorpinu. Það er eins og fólk hafi litið svo á að hann væri bara að hefna sín á Skagamönnum með því að lýsa ömurlegu lífinu í þorpinu. En það hangir miklu meira á spýtunni. Steinar er með fagurfræðilegan grundvöll. Hann er hægt að finna í greinum sem hann skrifaði til dæmis í Lesbók . Og ein ástæðan fyrir því hvað bækurnar eldast vel er að fagurfræðin kallast á við það sem ýmsir póststrúktúralistar hafa skrifað, svo sem hugmyndir um verkið og höfundinn. Steinar kemur í beinu framhaldi af Flaubert sem skrifar um meinlætamanninn sem lokar á allt og lifir bara fyrir skrifin. Þannig var Steinar. Þrátt fyrir allt slarkið þá skrifaði hann á hverjum degi – eða á nóttunni. Skáldskapurinn var hans heimkynni. Kannski hefur of mikið verið horft á raunsæislega hlið verkanna, þorpslýsinguna sem slíka. En bækurnar hans eru ekki raunsæisverk, þetta eru ekki félagsfræðilegar skýrslur um lífið á Skaga. Það er miklu frekar rómantískur þráður í verkunum, Steinar skrifaði um ást og funa og söknuð. En í þessu svakalega umhverfi.“

Draumurinn á aldrei séns

En er hægt að setja Steinar í erlent samtímalegt samhengi?

„Jú, hann las Joyce, Kafka og Faulkner og þess sér stað í verkunum. En kannski er helst hægt að líkja honum við höfunda, eins og Austurríkismanninn Thomas Bernhard, sem lýsa einæði söguhetjunnar, fólki sem er á jaðri þess að bugast. Þetta er Steinar alltaf að gera. Persónur hans eru að leita að einhverju ævintýri sem veruleikinn býður ekki upp á. Draumarnir verða að engu, eins og í skáldsögunni Skipin sigla þar sem skáld fer við annan mann upp á Skaga að kveikja í sláturhúsi til að nota peningana í fagurfræði, eins og hann segir. En það eru þrír hestar í húsinu sem brenna inni, skáldfákarnir fuðra upp. Og allt fer í vitleysu. Þeir tveir lenda á bak við lás og slá. Draumurinn á aldrei séns.

Steinar var þeirrar skoðunar að skáldskapurinn þrifist ekki í þessu samfélagi, við erum búin að drepa sönginn í okkur. Hann skrifaði grein í tímaritið Óreglu 1962 um samband skálds og þjóðar. Það er ekkert skáld án þjóðar, sagði hann. En þjóðin er búin að gleyma því að við vorum ekkert nema skáldskapurinn. Við höfum fórnað honum á altari skynsemishyggju og efnishyggju. Þessi grein er skrýtin að mörgu leyti, Steinar kemur fram sem eins konar þjóðræknismaður. En hún er líka merkileg því hann áttar sig á því að það sprettur ekkert úr engu.

Steinar endar á því að leita sannleikans í öðrum heimum. Hann fer til Indlands en þar kemst hann líka að því að hann á ekki athvarf nema í skáldskapnum. Hann er lúbarinn hérna í norðrinu, ekki viðtekinn en hingað verður hann samt að komast aftur, hér er eina heimili hans því hér sinnir hann skáldskapnum.

Sennilega hefur vantað upp á að umræðan um Steinar tæki fagurfræði hans til greina. Hún er í verkunum hans. Að því leyti er hann eins og Guðbergur, hann kemur fagurfræðilegum hugmyndum inn í verkin sín á mjög fallegan hátt.“

Ans voldugt undirlífið

Eins og áður sagði beitti Steinar framburðarstafsetningu og fann upp á alls konar tilbrigðum í ritun íslenskrar tungu. Hann vildi til dæmis eyða samtengingunni eins og út úr íslensku máli og nota í staðinn ans . Vafalítið hefur þetta einnig haft einhver áhrif á viðtökur verka Steinars. En hann var einnig með mjög sérstök tök á málinu.

„Ég held að hann hafi stuðst mikið við undirvitundina,“ segir Eiríkur, „sitt volduga undirlíf. Benda mætti á skáldsöguna Djúpið sem er eins konar flæði. Honum virðist hafa lánast að skapa sitt eigið tungumál sem á sér enga hliðstæðu hjá okkur.

En stafsetningin hefur örugglega farið í taugarnar á mörgum. Og Steinar var ekki sjálfum sér samkvæmur í henni. Við vitum reyndar ekki hvaða áhrif útgefendur hafa haft, þeir hafa ábyggilega oft sett hann í spennitreyju.“

Lokaverk og endurritanir

Blómaskeið Steinars stendur í tuttugu ár, frá Ástarsögu 1958 til Siglingar 1978. Á níunda áratugnum gekk Steinari hins vegar ekki vel að fá verk sín útgefin. 1986 kom Singan Rí út hjá Menningarsjóði. Þar segir Eiríkur að Steinar sé á svipuðum miðum og í Siglingu , að finna dulmagnið einhvers staðar annars staðar, í öðrum heimum.

„Í Siglingu leitar hann þess úti á hafi en í Síngan Rí í eyðimörkinni. Bókin fjallar um menn sem eru að leita að endanlegum sannindum í sandinum í Sahara. Skagavolkið er að baki en leitin í sandinum skilar í sjálfu sér engu. Sáðmenn , sem kom út í Hollandi 1989, eru á svipuðum nótum. Þar er þetta linnulausa tal sem Steinar lærði af Írum sem sitja og tala um lífið út í eitt á meðan þeir drekka. Lesandinn er eins og boðflenna á köflum en sogast samt inn í vaðalinn vegna þess hvað textinn er góður. Kjallarinn er síðan síðasta bókin 1991 en hann er byggður á skáldsögunni Þú sem kom út 1975.

Steinar stundaði það alla tíð að endurrita verk sín. Frægt dæmi er Blandað í svartan dauðann sem er endurritun á Ástarsögu . Það gerist eitthvað í þeirri bók. Fyrri hlutinn er að mestu leyti samhljóma Ástarsögu en í seinni hlutanum speglar verkið sjálft sig. Úr verður eins konar tilbrigði við Don Kíkóta .“

Steinar endurskrifaði meira og minna allar bækur sínar og gekk frá þeim á tölvutæku formi áður en hann féll frá. Það eru þessar endurskoðuðu útgáfur verka hans sem koma út nú. Það má segja að þetta séu ný verk. En endurritunin var nánast árátta hjá Steinari. Það eru líka til leiktextar upp úr sögunum.

„En hann endurritaði ekki bara sín eigin verk,“ segir Eiríkur, „heldur líka annarra. Hann endurritaði þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar á Illíonskviðu Hómers. Hann fellir burt kafla og líkingamál. Hann skrifaði líka upp sex eða sjö af leikritum Shakespeares. Þá vildi hann bara komast inn í verkið. Einhver sagði að maður kynntist ekki verki nema skrifa það upp sjálfur.“

Eiríkur upplýsir að þótt kalla megi ritsafnið heildarútgáfu á verkum Steinars þá séu enn til textar eftir hann sem ekki hafa komið út. En aðalatriðið núna sé að það þurfi að skrifa meira um Steinar. „Hann þarf að fá þann sess sem honum ber. Menn þurfa að hætta að afgreiða hann sem eitthvert kúríósum á hliðarlínunni, fullan snilling eða eitthvað slíkt. Það þarf að viðurkenna hann sem alvöru höfund og einn af okkar bestu mönnum.“

Bækur í ritsafni Steinars Sigurjónssonar: Hér erum við (1955) Ástarsaga (1958) Hamíngjuskipti (1964) Fellur að (1966) Skipin sigla (1966) Blandað í svartan dauðann (1967) Brotabrot (1968/1993) Farðu burt skuggi (1971) Djúpið (1974) Þú (1975) Landans er það lag (1976) Siglíng (1978) Síngan Rí (1986) Sáðmenn (1989) Kjallarinn (1991) Að auki: Leiktextar Laust og bundið (2 bindi) (safn sagna, ljóða og greina úr blöðum og tímaritum) Nóttin samin í svefni og vöku: Um skáldskap Steinars Sigurjónssonar eftir Eirík Guðmundsson

Steinar Sigurjónsson

Eftir Guðberg Bergsson

Það sem heillaði í skáldskap Steinars var ekki aðeins eðlileg óreiða manns og hluta heldur hitt að innan hans var enginn ákveðinn tími eða dæmigert fyrir ár eða atburði sem hægt væri að tengja vissu skeiði. Allt í verkunum gerðist innan sinna marka en hægt að finna liðið og ókomið í ómsjá sem virðist búa í manni og fer af stað þegar lesið er. Áður höfðu komið út bækur í svipuðum dúr, Vögguvísa Elíasar Marar, en þar var reynt að fanga tímann með því að tengja atburði við þekkta staði. Þótt ekki væri í vísunni ádeila leyndist þar siðferðiskennd og félagsleg ábending: Ráðleysi persónanna spratt af upplausn í fjölskyldum og íslenskum efnahag. Fólk leitaði frelsis í fljótteknum gróða og gæðum sem valda sjálfseyðileggingu. Óreiðan kemur þannig frá persónunni sjálfri og ytri aðstæðum, einkum útlendum áhrifum. Hið ameríska hafði haldið innreið á þröngt borgarsvæði til að leysa upp og færa ný tengsl í peningum. Hjá Steinari var þetta annað en svipað, enda fer ekkert listaverk út fyrir sinn menningararf eða þær uppreisnir sem gerðar eru gegn honum með endurnýjun hugmynda og viðhorfs. En í verkum hans var enginn ljós tilgangur, enginn boðskapur, andinn var heiðinn, laus við biblíulegar kvaðir og fordæmingu. Hér var engin togstreita á milli manns og sveitar eða annars sem lifði lengi í sögum. Persónurnar voru þær sjálfar, tætingslegar eins og málið sem þær töluðu. Í þessu fólst reyndar samræmi. Ekkert fór út fyrir sitt lögmál, allir voru bundnir á sinn klafa sem virtist ekki hvíla þungt á þeim. Uppgjöfin í samtímanum hafði verið viðurkennd, samþykkt með ábyrgðarleysi af fyrri kynslóð: “Við erum bara að böðlast áfram og höfum gefist upp við flest, eins og það að hugsa í tengslum við hefðir og sjáum enga skyldu í því að gera neitt af framsýni og viti í nútímanum.“ Aftur á móti virðist sú synd að rjúfa sagnahefðina, sé hún til í íslenskum skáldskap, hafa vakið sektarkennd hjá Steinari og hann ekki séð útleið eða framhald á braut sem hann ruddi sér inn í blindgötu. Þá fer hann að vega hart að sögum sínum með því að höggva og tengja í heild sem verður þeim framandi en gagnlegt fyrir lesandann.

Skrifað með hnéfiðlu í djúpið

Eftir Ástráð Eysteinsson

astra@hi.is

Fyrsta bók Steinars Sigurjónssonar er smásagnasafn og heitir Hér erum við (1955) og sú næsta er skáldsagan Ástarsaga (1958). Bókartitlar þessir gætu gefið til kynna að hér sé á ferðinni skáld samfélagsmáttar og rómantíkur. Fyrstu og lengstu sögurnar í Hér erum við segja reyndar af heldur brösóttum tilraunum til að falla að samfélaginu og „Einföld saga um klaufalegan pilt á gelgjuskeiði“ endar á þessum orðum: „Hann langar mjög til að verða persóna og múgur.“ Líklega er íslenskt samfélag í verkum Steinars jafn ráðvillt og þessi piltur og kannski fylgdist Steinar alla tíð með gelgjulegu samfélagi. Honum gekk ekki vel að hreyfa sig í takt við þetta samfélag og persónur í verkum hans eru gjarnan á jaðri þess eða á hrjóstrugum slóðum á athafnasvæði þess eða þá komnar út úr því, á siglingu til annarra heima, ef þær eru þá ekki horfnar í djúpið.

En rómantískur höfundur er Steinar vissulega; hann kannar frá upphafi sambönd og sambandsleysi, tilfinningalíf og djúpstæðar þrár persóna sinna, og skrif hans um einsemd og tómleika eru einnig mörkuð ígrundunum um vilyrði og skilyrði ástarinnar. „Fjarlæg voru höf þín, víkingur, og þú stýrðir af hinum fjörru höfum að strönd konunnar.“ „Maður og kona vöknuðu um morgun og litu í kringum sig. Maðurinn beið þess að konan gerði eitthvað, en hún gerði ekki neitt. Hann reyndi að muna hvenær hún kom og hugsaði um hvort hún myndi hafa strokið þvölum fingrum sínum um hár hans.“ Svona hefjast tvær af styttri sögunum í fyrstu bókinni og athyglisvert er að þær birtast báðar endurskoðaðar í síðustu bókinni sem Steinar gekk frá til útgáfu, Brotabrotum (1993). Þetta bendir til þess að sterkir þræðir liggi eftir öllu höfundarverki Steinars, sem er ekki lítið að vöxtum eins og öllum ætti að verða ljóst nú þegar það er birt í einu lagi.

En ástin er orð sem er líkt og þrautpakkað inn í óteljandi umbúðir samfélagsins og hið sama má segja um listina . Það sannferði sem mannveran á vegferð sinni kann að sækja í þessar tvær uppsprettur er ekki auðfundið og höfundur sem leitar að „tilgangi lífins“, eins og persóna hans Davíð gerir í skáldsögunni Kjallaranum (1991), þarf að lifa við það að þessi tilvistarorð eru svo mikil tugga í „umræðunni“ að merking þeirra virðist flúin í fjarlæg djúp. En þangað kafar Steinar eftir henni – ekki síst í hinni róttæku og mögnuðu sögu Djúpinu (1974). Og það virðist langt inn að ástinni í Ást arsögu , það þarf að vaða hryssinginn og nöturleikann, ýmist spaugilegan eða tragískan. Þetta gildir um ferð lesandans í öðrum skáldsögum Steinars, um lotulöng samtöl, stundum krökk af rausi, blaðri og þrefi, sem hefur slegið inn úr umhverfinu. Þessar samræður breytast stundum í einræður og þaðan yfir í einskonar flæðandi innra eintal, muldur sem streitist gegn ofstopa skynseminnar og sækir í tónlist, eins og skriffærið hafi breyst í hnéfiðlu, en það hljóðfæri birtist ítrekað í verkum Steinars.

Og úr þessu músíkalska muldri rís hin hráa og þó dulmagnaða póesía sem er burðarvirki í skáldskap Steinars, ans í þessum texta í skáldsögunni Skipin sigla (1966): „Æ, til hvers eru kalkaðar æðar? Því brátt muntu eiga örðugt um mál, skáldið sjálft. Því þinn tími er ekki hér og ekki , þinn tími og þitt líf er bara misgá, ans allra þeirra sem til einkis eru; og þú munt eiga örðugt með að halda þér nokkurn veginn saman, því þú munt verða að týna sjálfum þér fyrir hið mikla fyrirheit, sem aldrei rætist hér , á þessum klúra reit; missa mannsmót þitt, glata hinum svonefnda karakter, sem er svo mikils metinn í veröld þinni að blinda og algert óráð er þeim búið sem missa hans; glata öllu sem þú átt, nema kvölinni; og þú munt mæta kuldanum napra, og þú munt skríða út í hornið, hornúngur allra manna!“