Bifvélavirki Stefanía Gunnarsdóttir finnst starfið fjölbreytt og gaman að fá ný verkefni á hverjum degi.
Bifvélavirki Stefanía Gunnarsdóttir finnst starfið fjölbreytt og gaman að fá ný verkefni á hverjum degi. — Morgunblaðið/RAX
Það er eiginlega bara kjánalegt að halda að bifvélavirkjun sé ennþá algjört karlastarf. Stefanía Gunnarsdóttir, sem starfar á bifvélaverkstæði Heklu, sagði Völu Ósk Bergsveinsdóttur frá því hversu skemmtilegt það er að vera skítugur upp fyrir haus alla daga.
Stefanía, eða Steffí eins og hún er alltaf kölluð, var búin að stunda nám við Menntaskólann við Sund í tvö ár þegar það rann upp fyrir henni að hana langaði að læra bifvélavirkjun. Bílaáhuginn hafði aukist jafnt og þétt síðan hún kynntist núverandi vinahópi sínum 14 ára gömul en hópurinn er allur á kafi í bílum og bílaviðgerðum. „Fyrst hékk ég inni í skúr með vinum mínum og fylgdist með þeim gera við bíla,“ útskýrir Steffí, sem síðan gerði sér grein fyrir því að þetta væri eitthvað sem ætti vel við hana.

Kennararnir yndislegir

Hún var hins vegar frekar rög við að sækja um í námið við Borgarholtsskóla en vinahópurinn hvatti hana áfram. „Ég þorði ekki að sækja um og umsóknarfresturinn var útrunninn en vinir mínir ýttu mér áfram og sögðu mér samt að sækja um og heimta að fá inngöngu,“ segir Steffí. Það gekk eftir og hún hóf nám í bifvélavirkjun við Borgarholtsskóla.

Námið skiptist í þrennt: grunnám (1 ár), bifvélavirkjun (2 ár) og svo starfsnám á verkstæði í eitt ár áður en sveinsprófið er tekið. Steffí segir námið vera að miklu leyti bóklegt en þar sem efnið átti vel við hana hafði hún mun meira gaman af því en bóklega náminu í MS. „Aðstaðan er mjög góð í Borgarholtsskóla og kennararnir yndislegir,“ segir hún en seinni hluta námsins er að miklu leyti varið á verkstæði skólans við ýmis verkefni.

Stelpum í bransanum fjölgar

Steffí hefur starfað á bifvélaverkstæði Heklu í næstum því ár og er ein af þremur stelpum þar í vinnu. „Þegar ég byrjaði í skólanum fyrir þremur árum vissi ég ekki af neinni stelpu í þessari vinnu,“ lýsir Steffí. „En það hefur aukist og nú veit ég um stelpur sem starfa á öðrum bifvélaverkstæðum. Ég held að stelpur séu ekki lengur hræddar við að velja svokölluð karlastörf.“

En hvað er svona skemmtilegt við bifvélavirkjun? Steffí segir félagsskapinn vera stóran hluta af starfinu og svo finnst henni mikilvægt að sitja ekki á rassinum allan daginn. „Ég verð að hreyfa mig og í þessu starfi geri ég það og fæ ný verkefni á hverjum degi. Maður er alltaf skítugur upp fyrir haus og það er alltaf jafngaman,“ segir hún hlæjandi.

Fallegasta Corolla landsins

Frítímanum eyðir Steffí einnig mikið í bílaviðgerðir og leigir meðal annars aðstöðu með vinum sínum þar sem hópurinn dundar sér á kvöldin. lýsir Steffí. Kærastinn hennar er einnig bifvélavirki þannig að það má með sanni segja að hún sé á kafi í bílabransanum.

Steffí segir sér líka vel að vinna hjá Heklu og hún læri stöðugt eitthvað nýtt. Á verkstæðinu vinna í kringum 20 manns og alltaf er nóg að gera. Hún segir starfið ekki bara vera fyrir sterka karlmenn því verkfærin í dag séu orðin mjög sérhæfð og tölvuvædd. „Ef eitthvert verk þarfnast mikilla krafta eru menn fljótir að hlaupa til og hjálpa,“ útskýrir hún, „og reynsluboltarnir koma hlaupandi til að hjálpa þegar maður lendir í vandræðum.“

Að sögn Steffíar hefur tölvuvæðingin bætt miklu við starfið og gert það fjölbreyttara en áður var. Nú er ekki einungis hamagangur ofan í vélarrúminu heldur sitja bifvélavirkjarnir stundum inni í bílum að lesa á tölvu.

Eiga ekkert í okkur

Það er ljóst að Steffí og samstarfskonur hennar á bifvélaverkstæðum landsins gefa öðrum ungum stelpum gott fordæmi og sýna það að bifvélavirkjun er starf fyrir alla, konur jafnt sem karla. „Strákarnir eiga ekkert í okkur og við stríðum þeim ekkert minna en þeir okkur,“ lýsir hún. „Ég var reyndar hrædd fyrst og þorði ekki að sækja um á verkstæði,“ segir Steffí. En aftur hvöttu vinirnir hana áfram og hún sér ekki eftir því að hafa valið þennan starfsvettvang. „Það er alltaf nóg að gera, það vantar ekki. Þetta er ósköp venjulegur vinnustaður og góður mórall meðal starfsmannana, engin karlremba eins og sumir halda.“

valaosk@gmail.com