Tryggvi Gunnarsson
Tryggvi Gunnarsson
Í BRÉFI, sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sendi Árna M.
Í BRÉFI, sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sendi Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra í febrúar vegna skipunar héraðsdómara, segir að spurningarnar til ráðherrans séu ítarlegri en að jafnaði sé þörf á svo ráðherra fái sem best tækifæri til að senda skýringar.

Í svari Árna við spurningum Tryggva, sem birt var í Morgunblaðinu í gær, segir ráðherra m.a: „Athygli vekur að spurningar yðar eru mjög ítarlegar í framsetningu og með því yfirbragði og orðavali að svo virðist sem afstaða yðar til úrlausnarefnisins kunni að vera mótuð fyrirfram. Af þeim sökum má halda því fram að svör þau sem undirritaður ber fram hér að neðan komi til með að hafa takmarkaða þýðingu þegar þér leysið úr málinu og þar með hinn sjálfsagði réttur undirritaðs til andmæla.“

Í bréfi umboðsmanns til ráðherra segir m.a: „Ég tek það fram að með tilliti til málavaxta í þessu máli hef ég talið rétt að setja af minni hálfu fram ítarlegri spurningar en ég tel að jafnaði þörf á. Þetta geri ég til þess að yður gefist sem best tækifæri til að senda mér skýringar yðar og þar með verði sem bestur grunnur lagður að frekari athugun minni og afgreiðslu á þeim kvörtunum sem mér hafa borist vegna þessa máls.“

Ráðherra biðjist afsökunar

Ungir jafnaðarmenn hafa sent frá sér ályktun þar sem þeir undrast viðbrögð fjármálaráðherra við spurningum umboðsmanns og hvetja hann til að biðjast afsökunar.

„Hlutverk umboðsmanns er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt einstaklinga gagnvart stjórnvöldum landsins. Ummæli ráðherra eru með öllu óviðeigandi tilraun til þess að draga úr trúverðugleika embættis umboðsmanns Alþingis. Það er óeðlilegt að einn æðsti ráðamaður þjóðarinnar skuli tjá sig á þennan hátt gagnvart þeim aðila er á að hafa eftirlit með störfum hans,“ segir m.a.