Hrefna vinkona mín í Árnesi í Trékyllisvík sagði mér á dögunum frá ungum herramanni sem var að glíma við þá spurningu hvort hann ætti að fermast á næsta ári.
Hrefna vinkona mín í Árnesi í Trékyllisvík sagði mér á dögunum frá ungum herramanni sem var að glíma við þá spurningu hvort hann ætti að fermast á næsta ári. Eftir miklar vangaveltur komst drengur að þeirri niðurstöðu að vert væri að fermast, en þá kom næsta spurning: Ætti hann að fermast í kirkju eða við borgaralega athöfn?

Hann kynnti sér báða kosti og tilkynnti svo að hann ætlaði að fermast í kirkju. Af hverju? Borgaralega fermingin fer víst fram seinna á árinu og hann vildi (fyrst hann var að þessu á annað borð) fermast eins fljótt og hægt væri. Ástæðan? Jú, væntanlegt fermingarbarn taldi að miðað við þróun á hlutabréfamarkaði væri best að fermast sem allra, allra fyrst.

Frétt eftir frétt eftir frétt um stöðu krónunnar, gengi hlutabréfa og vaxtahækkanir hafa leitt til þess að hin svokallaða úrvalsvísitala er orðin eins konar hamingjuvog íslensku þjóðarinnar. Nú eru allir (líka væntanleg fermingarbörn) sérfræðingar í krónu eða ekki krónu og við bíðum með öndina í hálsinum eftir nýjustu tölum úr Kauphöllinni.

Og ekkert annað skiptir máli í fréttatímum. Smáræði utan úr heimi er afgreitt í framhjáhlaupi, svo er byrjað aftur á krónunni, vöxtunum, hlutabréfunum. Og íbúar í heimsins stærstu dótabúð geta ekki á heilum sér tekið.

Með leyfi: Við höfum séð það svartara. Drögum andann djúpt. Lífið heldur áfram. Sólin er á sínum stað. Og lóan er komin.