Eftir Hlyn Orra Stefánsson hlynur@24stundir.
Eftir Hlyn Orra Stefánsson

hlynur@24stundir.is

„Það er grafalvarlegt mál að Vegagerðin skuli hafa sent UNESCO upplýsingar sem gefa til kynna að Umhverfisstofnun hafi ekki áhyggjur af niturmengun vegna Gjábakkavegar, þegar staðreyndin er sú að stofnunin tekur undir þau sjónarmið að niturmengun geti raskað jafnvægi í lífríki Þingvallavatns.“

Þetta segir Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, um bréf sem Vegagerðin sendi UNESCO, 26. nóvember sl. Eins og sagt hefur verið frá í 24 stundum íhugar heimsminjanefnd UNESCO að endurskoða stöðu Þingvallaþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO, vegna lagningar veglínu í stað Gjábakkavegar sem liggur á milli Þingvallavatns og Laugarvatns. Hin nýja veglína mun heita Lyngdalsheiðarvegur.

Í bréfi Vegagerðarinnar segir að Umhverfisstofnun hafi ekki haft áhyggjur af niturmengun vegna breytingar á Gjábakkavegi. Í umsögn Umhverfisstofnunar frá 10. október sl. um stjórnssýslukæru Péturs M. Jónassonar vatnalíffræðings vegna leyfisveitingar umhverfissráðherra til lagningar Lyngdalsheiðarvegar, segir hins vegar: „Umhverfisstofnun tekur undir það ... að aukning í magni köfnunarefnis (niturs) getur raskað jafnvægi í lífríki Þingvallavatns. Það er mat Umhverfisstofnunar að náttúran eigi að njóta vafans í þessum efnum og að við lagningu Gjábakkavegar eigi að velja þann valkost sem er í mestri fjarlægð frá þekktum hrygningarsvæðum.“

Eins og fram hefur komið telur Pétur að nýja veglínan færi umferð nær hrygningarstöðum í vatninu. Undir það tekur Landvernd.

Umhverfisstofnun á móti

„Við höfum alltaf verið þeirrar skoðunar að bæta eigi gamla veginn frekar en að leggja nýja línu,“ segir Helgi Jensson, ráðgjafi hjá Umhverfisstofnun. Hann segir bréf Vegagerðarinnar „ekki taka fullt tillit til“ umsagnar Umhverfisstofnunar. „En samkvæmt mínum upplýsingum var Vegagerðin ekki með þá umsögn þegar hún skrifaði til UNESCO.“

Undir það tekur G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Í hnotskurn
Til stendur að leggja Lyngdalsheiðarveg í stað vestari hluta Gjábakkavegar. Skipulagið hefur verið samþykkt, en eftir er að bjóða verkið út.