[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hann breytir öllu,“ sagði í auglýsingunni. Þó að Volkswagen Tiguan hafi reyndar ekki haft svo djúpstæð áhrif á mig má vera að annað gildi um aðra.
Reynsluakstursbíllinn var af Track & Field-útfærslunni, með aukabúnaði á borð við glerþak með sóllúgu og leðuráklæði á sætum.

Track & Field-útgáfan byrjar í 4.380.000 kr. en fyrir 3.730.000 kr. getur þú fengið Trend & Fun-útgáfuna með 1,4 lítra TSI mótor sem skilar 150 hestöflum. Verðið ætti því ekki að vera neinum fjötur um fót.

Lítill og sætur?

Þrátt fyrir að vera í raun minni bróðir Touareg er Tiguan mjög frambærilegur bíll. Hann fellur því ekki í sömu gryfju og BMW X3, sem verður aldrei annað en sárabót þeirra sem hafa ekki efni á X5.

Sérstaklega ber að minnast á frábæra aksturseiginleika, sem komu einkum á óvart í þó þetta stórum bíl.

Ekki reyndi mikið á torfæruhæfni bílsins í reynsluakstrinum, nema hvað vegurinn um Kjós var þakinn djúpum og frosnum snjó. Track & Field-útgáfan er sérbúin í torfærur með betra aðhorn en hinar útgáfurnar og sérvarinn undirvagn. Fjöðrunin er hins vegar fólksbílamiðuð, sem skýrir góða aksturseiginleika á malbiki.

Ekki grænn en samt vænn

Nýlega féll dómur þess efnis að ekki mætti gefa bílum nafnbótina „grænn“. Tiguan er því ekki grænn, en með meðaleyðslu upp á 7,5 lítra á hundraðið (sem mér sýndust vera nokkuð raunhæfir útreikningar) ætti hann að minnsta kosti að vera vænn kostur í því eldsneytisharðræði sem við búum við.

2ja lítra dísilvélin skilar bílnum annars ágætlega áfram án þess að vera sérlega aflmikil, þó að bíllinn sé ekki nema 1,6 tonn.

Enn verra fanst mér urrið í henni á lágum snúningi. Það minnti mig helst á þegar ég var á skólaballi í gamla daga og hlustaði á félagana æla í gegnum dyrnar á karlaklósettinu.

Skúffur og skíðagat

Að öðru leyti kunni ég mjög vel við bílinn. Fyrir miðju mælaborði er snertiskjár til að stjórna útvarpinu en hann er líka tengdur við bakkmyndavélina sem staðsett er í afturstuðaranum. Þá birtast á honum línur sem sýna akstursstefnu bílsins eftir því hvernig þú snýrð stýrinu.

Sé miðjusætið aftur í bílnum autt má leggja hluta baksins niður og nota fyrir armpúða. Við það opnast gat aftur í farangursrými (936/1679 lítrar, eftir því hvort aftursætin eru uppi eða lögð niður) sem nýtist fyrir langan farangur, eins og skíði.

Loks fundust mér skúffurnar undir framsætunum skemmtileg viðbót, ekki síst fyrir fjölskyldufólk.

Í hnotskurn
Flottur og eigulegur bíll, sérstaklega með öllum aukabúnaði, á samkeppnishæfu verði. Verður vinsæll fyrir aksturseiginleika.