Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson seth@mbl.is „ÉG veit ekki hver niðurstaðan verður í þessu máli og kannski er best að flýta sér hægt.
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

„ÉG veit ekki hver niðurstaðan verður í þessu máli og kannski er best að flýta sér hægt. Ég hef ekki verið lengi hérna í Bodø og ég þarf tíma til þess að skoða mig aðeins um og kanna aðstæður áður en ég ákveð framhaldið,“ sagði knattspyrnumaðurinn Birkir Bjarnason í gær en forráðamenn Bodø/Glimt hafa áhuga á því að kaupa hann frá Viking. Birkir hefur gert lánssamning við Bodø/Glimt út þessa leiktíð en samningur hans við Viking rennur ekki út fyrr en í lok ársins 2009. Á norskum netmiðlum er greint frá því að hinn tvítugi íslenski leikmaður eigi framtíðina fyrir sér í Noregi og á undanförnum vikum hafi hann sýnt forráðamönnum Bodø/Glimt hvað í honum býr. „Ég hef svo sem ekki hugmynd um hvað þeir ætla sér að gera. Það er mikið skrifað og rætt um svona hluti en ég læt mér nægja að einbeita mér að því að spila fótbolta. Það sem ég veit er að ég fæ örugglega tækifæri til þess að leika mikið með Bodø/Glimt og það ætla ég mér að nýta mér. Um framhaldið vil ég helst ekki ræða mikið. Það mun bara koma í ljós og ég hef nægan tíma til þess að hugsa mig um,“ bætti Birkir við.

Talið er að Bodø/Glimt sé tilbúið að greiða 1,5 milljónir norskra króna fyrir Birki eða um 22 milljónir kr. Á fréttavefnum an.no er sagt frá því að áhugi Bodø/Glimt sé skiljanlegur. Forráðamenn liðsins telja að Birkir eigi eftir að verða í fremstu röð á norskan mælikvarða og því sé hagstætt að kaupa hann á þessum tíma. Bodö/Glimt kom upp úr 1. deild sl. haust eftir að hafa lagt Odd/Grenland í umspilsleikjum um laust sæti í úrvalsdeild. Fyrsti leikur liðsins er gegn Ham/Kam sem eru einnig nýliðar í deildinni.