Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson seth@mbl.is „ÉG á von á því að það verði klárt í byrjun næstu viku hvar ég leik handbolta á næstu leiktíð.
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

„ÉG á von á því að það verði klárt í byrjun næstu viku hvar ég leik handbolta á næstu leiktíð. Ég get ekki sagt frá því hvaða lið er um að ræða enda standa viðræðurnar enn yfir en ég er bjartsýnn á að þetta klárist á sunnudag eða mánudag,“ sagði Einar Hólmgeirsson, landsliðsmaður í handknattleik, en hann er eins og kunnugt er á förum frá þýska liðinu Flensburg þegar keppnistímabilinu lýkur í vor. Vitað er að Einar var með tilboð frá fjórum þýskum liðum; Rhein-Neckar Löwen, Grosswallstadt, Melsungen og Wetzlar. Einar var mjög var um sig þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær og taldi best að segja sem minnst. „Ég hef tekið ákvörðun um að ræða við eitt ákveðið lið, ég er ekki í viðræðum við mörg lið á sama tíma. Það er skriður á viðræðunum og mér sýnist þetta eiga ganga upp á allra næstu dögum.“

Einar þekkir vel til hjá Grosswallstadt þar sem hann lék í þrjú ár áður en hann samdi við Flensburg sl. sumar. Guðjón Valur Sigurðsson hefur samið við Rhein-Neckar Löwen frá og með keppnistímabilinu 2009-2010 en hann er samningsbundinn Gummersbach út næstu leiktíð.