Börn á öllum aldri sýna listir sínar á hestbaki í Reiðhöllinni í Víðidal um helgina og þau yngstu skrýðast skrautlegum grímubúningum.
Eftir Einar Jónsson

einarj@24stundir.is

Börn og hestar verða í aðalhlutverki á stórsýningunni Æskan og hesturinn 2008 sem fram fer í reiðhöllinni í Víðidal á laugardag og sunnudag. Tvær sýningar verða hvorn dag og hefjast kl. 13 og 16. Börn á aldrinum 3-18 ára taka þátt í sýningunni og koma þau úr hestamannafélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Börn og hestar skreytt

„Minnstu krakkarnir koma inn á hestum og eru í grímubúningum og með alls konar skraut. Eldri krakkarnir taka þátt í flóknari sýningaratriðum og afreksknapar sýna flottustu hestana,“ segir Ólafur Árnason, talsmaður sýningarinnar.

Hvert félag leggur fram sýningaratriði og liggur mikill undirbúningur að baki. „Mesti undirbúningurinn hjá þeim yngstu lendir kannski á herðum foreldranna enda eru bæði krakkarnir og hestarnir oft ævintýralega skreyttir. Eldri krakkarnir eru svo búnir að vera undanfarnar 4-6 vikur að æfa þessi atriði sem þeir sýna.“

Muna eftir fyrstu sýningu

Þetta er í 17. sinn sem sýningin er haldin og mörg börn búin að vera með lengi. „Margir af þessum krökkum sem eru núna í afreks-

knapahópnum byrjuðu í grímutöltinu fyrir 8-9 árum,“ segir Ólafur sem er ekki frá því að sýningin hafi mikið gildi fyrir börnin. „Þau kynnast bæði krökkum úr öðrum félögum og fá að fara í sínar fyrstu sýningar sem er alltaf svolítið ævintýri. Krakkar sem eru reyndir og búnir að taka þátt í landsmótum og stórum keppnum muna alltaf eftir þessum fyrstu sýningum,“ segir Ólafur að lokum.

Í hnotskurn
Á milli 200 og 250 börn og unglingar taka þátt í sýningunni að þessu sinni. Einnig koma fram Magni, Hara-systur, Bjarni töframaður og fleiri. Aðgangur að sýningunni er ókeypis og allir velkomnir.