Séra Bolli Þórir Gústavsson vígslubiskup er látinn 72 ára að aldri. Hann fæddist á Akureyri hinn 17. nóvember árið 1935, sonur hjónanna Gústavs Elí Berg Jónassonar rafvirkjameistara og Hlínar Jónsdóttur húsfreyju. Sr.
Séra Bolli Þórir Gústavsson vígslubiskup er látinn 72 ára að aldri. Hann fæddist á Akureyri hinn 17. nóvember árið 1935, sonur hjónanna Gústavs Elí Berg Jónassonar rafvirkjameistara og Hlínar Jónsdóttur húsfreyju. Sr. Bolli lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1963 og vígðist sama ár sóknarprestur til Hríseyjarprestakalls. Hann var skipaður sóknarprestur í Laufásprestakalli árið 1966, þar sem hann gegndi embætti uns hann varð vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal árið 1991 en lét af því embætti árið 2002 sökum heilsubrests.

Sr. Bolli gegndi margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum innan kirkju sem utan. Þar má af mörgu nefna formennsku hans í æskulýðssambandi kirkjunnar í Hólastifti, síðar í prestafélagi þess sama stiftis og þá sinnti hann formennsku í Hólanefnd eftir að hann tók við embætti vígslubiskups á Hólum. Um árabil var sr. Bolli formaður úthlutunarnefndar listamannalauna og lét í því samhengi víða til sín taka í lista- og menningarlífi þjóðarinnar.

Hann var kunnur fyrir ritstörf, bæði fyrir blöð og tímarit, og skrifaði lengi reglulega pistla og greinar í Morgunblaðið ásamt leiklistargagnrýni fyrir sama blað um sýningar Leikfélags Akureyrar. Um tveggja ára skeið ritstýrði hann tímaritinu Heima er best og tók saman ófáar dagskrár um skáld og skáldskap til útvarpsflutnings.

Sr. Bolli skrifaði sex bækur um menn og málefni. Flestar þeirra myndskreytti hann sjálfur og fyrir bókina Vorganga í vindhæringi fékk hann viðurkenningu Almenna bókafélagsins á 25 ára afmæli þess. Hann hlaut styrk úr Gjöf Jóns Sigurðssonar fyrir söfnun og útgáfu á ljóðmælum séra Björns Halldórssonar í Laufási og ritgerð um skáldið. Á afmælisdegi sr. Bolla hinn 17. nóvember síðastliðinn kom út bókin Lífið sækir fram, sem er safn prédikana og ljóða eftir hann og gefin út að frumkvæði fjölskyldu hans.

Eftir að sr. Bolli tók við embætti vígslubiskups á Hólum beitti hann sér fyrir byggingu Auðunarstofu en það er endurgerð stokkahúss sem Auðun biskup rauði reisti á 14. öld og var rifið illu heilli í byrjun 19. aldar. Hús þetta prýðir nú Hólastað, það vitnar um forna sögu og nýtist um leið sem fræði- og fundaraðstaða starfi kirkju og kristni til blessunar.

Eftirlifandi eiginkona sr. Bolla er Matthildur Jónsdóttir. Börn þeirra eru, Hlín, Jóna Hrönn, Gústav Geir, Gerður, Bolli Pétur og Hildur Eir.