[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir um það bil 20 árum voru lægstu dagvinnulaun hérlendis skattlaus. Þá voru skattleysismörk tekjuskatts nokkurn veginn jafnhá lægstu launatöxtum verkalýðsfélaganna.
Fyrir um það bil 20 árum voru lægstu dagvinnulaun hérlendis skattlaus. Þá voru skattleysismörk tekjuskatts nokkurn veginn jafnhá lægstu launatöxtum verkalýðsfélaganna. Fljótlega varð þó breyting á þessu þegar ríkisstjórn krata og íhalds, svokölluð Viðeyjarstjórn, komst til valda og bjó sér til ástæðu til að skattleggja lægstu launin.

Ástæðulaus skattlagning

Sú skattlagning kom ekki vegna þess að um væri að ræða einhverjar umframhækkanir lægstu launa, heldur var hér um að ræða beinar aðgerðir ríkisins til að skattleggja sérstaklega tekjulægsta fólkið í landinu. Það sérkennilegasta við þessa nýju skattheimtu var það að hún var ekki tilkynnt almenningi með formlegum hætti heldur var henni komið á með því lævísa bragði að halda niðri eðlilegri hækkun skattleysismarka þannig að þau fylgdu ekki lengur verðlags- og/eða launaþróun í landinu. Á ríkisstjórnarárum íhalds og krata 1991 til 1995 náði þessi ósvífna skattheimta að festa rætur með þeim afleiðingum að með hverju árinu sem leið óx hlutfallsleg skattbyrði þeirra sem minnstu tekjurnar höfðu og í lok þess kjörtímabils var skattheimtan orðin allveruleg. Og ekki batnaði ástandið eftir að Framsóknarflokkurinn fór í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum eftir alþingiskosningarnar 1995. Í þau tólf ár sem þessir flokkar störfuðu saman hélt skattheimtan á lægstu launin áfram að aukast ár frá ári.

Hátekjuskattur afnuminn

Þó að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki fyndist ástæða til þess að auka skattbyrði láglaunafólks, þá gilti ekki það sama um hátekjufólkið. Þar töldu þeir brýna nauðsyn til verulegrar skattalækkunar. Á árunum 2003 til 2006 afnámu þeir t.d. 7% hátekjuskatt og lækkuðu skattprósentu tekjuskatts um fjögur prósentustig. Afnám hátekjuskatts kom eingöngu hátekjufólki til góða og lækkun tekjuskatts einungis þeim sem voru með tekjur fyrir ofan meðallag. Þetta létti ekki skattbyrðar láglaunafólks, einfaldlega af þeirri ástæðu að stjórnvöld héldu skattleysismörkunum niðri og létu þau ekki hækka nema lítillega og alls ekki í samræmi við verðlagsþróunina í landinu.

Það er kannski of snemmt að dæma núverandi stjórnmálaflokka en bara það að skattleggja öll laun, hvort sem þau eru há eða lág, með sömu prósentutölu boðar ekki gott. Núna er 35,72% tekjuskattur lagður jafnt á 145 þúsund króna lágmarkslaun og ofurlaun upp á tíu til tuttugu milljónir króna eða meira. Það sjá allir sem einhverja skynsemisglóru hafa að hér er verið að skattpína láglaunafólk, öryrkja og stóran hóp ellilífeyrisþega. Þeir sem aftur á móti græða á þessu eru t.d. skötuhjúin Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún. Þau fá, hvort fyrir sig, vel á aðra milljón króna á ári vegna þessara skattabreytinga. Á sama tíma er fólkið sem vinnur í framleiðslu- og þjónustugreinum þjóðarinnar að hugsa um að flýja land vegna þess að það er að kikna undan fjandsamlegri skattheimtu stjórnvalda.

Hærri skattleysismörk

Sú litla hækkun skattleysismarka sem núverandi stjórnvöld hentu í verkalýðsfélögin við gerð síðustu kjarasamninga er langt frá því að vera nóg og einungis lítill hluti af nauðsynlegum aðgerðum ríkisins til að gera lægstu launin lífvænleg og minnka þann mikla og óeðlilega launamun sem er í landinu. Þetta vita stjórnarþingmenn en finnst vel og gott og halda að sér höndum meðan þeir sjálfir eru með fjórfalt hærri laun auk margskonar skattaívilnana, aukagreiðslna og styrkja, að ógleymdum lífeyrisréttindum, sem eru betri en þau bestu sem vitað er um annars staðar í Evrópu. Það vita allir að 145 þúsund króna mánaðarlaun eru það lág að þau duga ekki fyrir eðlilegri framfærslu. Þegar búið er að borga leigu á 2ja til 3ja herbergja íbúð og gera skil á skatti og skyldum þá eru í mesta lagi eftir um 10 til 20 þúsund krónur sem duga eiga út mánuðinn fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Það dæmi gengur ekki upp og úr því verða stjórnvöld að bæta með því að hætta að skattleggja lægstu laun og sjá til þess að skattleysismörk tekjuskatts verði aldrei lægri en umsamin tekjutrygging verkalýðsfélaganna hverju sinni. Þeir alþingismenn, sem halda því fram að 145 þúsund króna mánaðarlaun séu svo rífleg að leggja megi á þau skatt, eru ekki marktækir á meðan þeir sjálfir eru með fjórföld þessi laun auk allskonar hlunninda sem meta má til tuga þúsunda mánaðarlega.

Höfundur er fyrrverandi formaður

Verkalýðsfélagsins Hlífar