Sigurður Sveinn Másson fæddist í Reykjavík 9. september 1955. Hann varð bráðkvaddur í Vilnius í Litháen 10. mars síðastliðinn. Foreldrar hans eru Fanný Guðbjörg Guðmannsdóttir hárgreiðslumeistari, f. 24. október 1932 og Már Sveinsson, f. 16. nóvember 1933. Þau slitu samvistum. Sveinn átti einn albróður; Jón Guðmann Jónsson, f. 1952 og þrjár hálfsystur sammæðra, þær eru Halldóra Elín, f. 1959, Valdís, f. 1960 og Sólveig Fanný, f. 1961, Magnúsdætur. Samfeðra systkini Sveins eru Sigþór Sveinn, f. 1959, Ingvar, f. 1964, Sigurður, f. 1968 og Sveina María, f. 1973.

Sveinn giftist árið 1998 Vaidu Másson frá Litháen. Sonur þeirra er Samúel, f. 27. maí 1999.

Sveinn ólst upp í Reykjavík. Hann stundaði nám í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og síðar í Bergen í Noregi. Þar bætti hann við sig námi og lauk þar námi í rafmagnsverkfræði. Starfaði hann lengst af á olíuborpöllum við Noregsstrendur eða til ársins 2007. Sveinn vann að stofnun eigin fyrirtækis í Vilnius þegar hann varð bráðkvaddur. Sveinn og Vaida voru búsett í Vilnius í Litháen.

Sveinn verður jarðsunginn frá Laugarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Hvít snjóbreiða var yfir landinu okkar og sólin skein, sveitin mín skartaði sínu fegursta.

Þá kom hringingin sem ég mun aldrei gleyma. Svenni bróðir er dáinn af hjartaáfalli 52 ára, getur það verið? Elsku besti bróðir minn, ég finn ennþá sterka faðmlagið hans, lyktina af honum, hlýjuna og traustið þegar hann kvaddi okkur á flugvellinum í Vilnius síðastliðið haust.

Svenni var annað barn mömmu, eldri var Jón, f. '52, foreldrar þeirra skildu. Mamma bjó með þá bræður í kjallaranum hjá ömmu og afa á Laugarnesveginum. Mamma giftist aftur pabba mínum Magnúsi Jónssyni og fluttu þau í Nökkvavoginn. Lilla fæddist '59, ég '60 og Solla '61. Svenni bróðir minn var mikill töffari, hann var ekki auðveldasta barnið hennar mömmu. Pabbi tók litla töffaranum vel og ól hann upp sem sinn son. Pabbi dó '68. Hafði það mikil áhrif á okkur öll, ekki síst Svenna.

Svenni fluttist til Noregs fyrir rúmum 20 árum og kynntist Vaidu sinni þar, hún er frá Litháen, þau eiga einn son, Samúel f. '99, fluttu þau með hann ungan til Vilinius.

Svenni var rafmagnsverkfræðingur og vann á borpöllunum í Norðursjó í mörg ár. Samúel átti hug hans allan, þeir voru miklir vinir og töluðu alltaf saman á íslensku.

Svenni var norskur ríkisborgari og einn af stofnendum Noregsfélagsins í Litháen og formaður þess í nokkur ár. Hann barðist fyrir því að koma á legg heimili fyrir munaðarlaus börn í Litháen en á því var mikil þörf. Hans er sárt saknað af skjólstæðingum sínum. Hann var mikill Íslendingur og oftar en ekki kom bréf: Hvernig gerir maður flatkökur (eins og amma gerði eða slátur og rúgbrauð)? Hvernig heldurðu að rúgmjöl sé á ensku? Þú hlýtur að vita þetta, sveitakonan. Hann elskaði Íslenskan mat og allt sem viðkom Íslandi. Hann vildi fylgjast með börnunum okkar og var alltaf að biðja um fréttir og myndir. Það er ekki nema rúmt ár síðan við jörðuðum Kidda stjúpa okkar. Er Svenni búinn að hafa miklar áhyggjur af mömmu síðastliðið ár.

Hann og mamma voru oft daglega í símasambandi, þau voru mjög tengd. Kom það vel í ljós þegar við fórum, systkinin og mamma, á afmælisdegi Jóns og mömmu til Vilnius síðastliðið haust að heimsækja Svenna og fjölskyldu hans. Ekki veit ég hver kom okkur öllum saman þangað, en sá tími sem við áttum þar saman er okkur öllum ógleymanlegur og mjög dýrmætur.

Engan óraði fyrir að þetta væri okkar síðasta knús.

Ekki veit ég hvernig mamma kemst í gegnum þessa daga, en við reynum að styðja hana og styrkja eins og við getum.

Það voru þung sporin sem Jón stóri bróðir okkar fór þegar hann fór að sækja litla bróður sinn fyrir fáum dögum. Komu þeir saman heim bræðurnir. Er það trú mín, Vaidu og okkra allra að hann hefði viljað vera jarðsettur hér á Íslandi. Íslendingurinn hann Svenni bróðir minn.

Elsku besti Svenni minn, takk fyrir allt. Kveðjuorðin á flugvellinum í Vilníus eru mér oft í huga þegar þú kreistir mig svo fast og sagðir: Bless, elsku besta miðsystir mín, sú rólegasta en örugglega sú ákveðnasta.

Við söknum þín líka mjög, mjög mikið.

Þín systir

Valdís.

mbl.is/minningar

Þegar ég sest niður til að minnast Svenna kemur fyrst upp í hugann þegar hann kom í sveit að Kálfhóli á Skeiðum til foreldra minna. Þangað komu margir krakkar til dvalar sumarlangt og ekki voru þessir vinnumenn eða konur öll há í loftinu.

Svenni kom þegar hann var 6 ára, og tók strax til hendinni við sveitastörfin. Ég hugsa það oft núna hvað Svenni var duglegur að moka flórinn og fara með kýrnar og svo ná í þær líka, en auðvitað hjálpuðumst við að við þessi störf, enda öll góðir vinir og mikill tími var líka til að leika sér eins og gengur.

Ekki slitnuðu tengslin við Svenna þó við eltumst, því hann varð mágur minn síðar er ég og Jón bróðir hans giftumst. Við Jón fluttumst til Noregs og bjó hann þá hjá okkur um tíma.

Svenni var alltaf hlýr og góður strákur. Vil ég með þessum fátæklegu orðum þakka Svenna fyrir samfylgdina.

Elsku Vaida, Samúel, Fanný, Már og systkini, öllum votta ég ykkur samúð mína. Megi guð gefa ykkur styrk.

Með kveðju,

Guðrún Auðuns.

Svenni frændi minn er látinn og mikið ofboðslega er það sárt.

Hann sem var svo fallegur og duglegur, mikill húmoristi og góðhjartaður.

Ég hef alla tíð hugsað til Svenna frænda með stjörnur í augunum. Ég hugsa til þess þegar hann fór með mig á rúntinn á svakalega flotta mótorhjólinu sínu. Ferð sem ég man svo vel eftir og í sumar rifjuðum við Svenni upp þessar stundir, þá var hann fljótur að ná í tölvuna sína og sýna mér myndir af nýja mótorhjólinu sínu, þær voru ófáar, skal ég segja ykkur. Hann var svo mikill töffari og svo lífsglaður. Hann var svo hamingjusamur í sumar að vera kominn heim í frí, vera í kringum Fanný ömmu og systkini sín. Ég fann að hann langaði svo að koma heim. Nú er hann kominn heim en í annarri mynd.

Það eru ekki sanngjörn spilin sem Samúel 8 ára fær upp í hendurnar, hann sem sá ekki sólina fyrir pabba sínum og eyddi með honum öllum sínum stundum. Svenni skipulagði allan sinn tíma í kringum Samúel og var honum svo góður faðir. Nú er sá tími liðinn. Nú eigum við sem eftir erum minningarnar, þær eru góðar og dýrmætar. Þegar ég hugsa til Svenna mun ég hugsa til hans sitjandi á sínum flotta mótorfák, glottandi út í annað.

Fanný Guðbjörg Jónsdóttir.