Atvinnubílstjórar lokuðu Ártúnsbrekku um stundarsakir á fjórða tímanum í gær og á augabragði mynduðust miklar bílaraðir. Áhrifanna af þessari lokun gætti allt niður í miðbæ Reykjavíkur.
Atvinnubílstjórar lokuðu Ártúnsbrekku um stundarsakir á fjórða tímanum í gær og á augabragði mynduðust miklar bílaraðir. Áhrifanna af þessari lokun gætti allt niður í miðbæ Reykjavíkur. Ætlun bílstjóranna var að mótmæla háu eldsneytisverði og aðgerðaleysi stjórnvalda. Þessi aðferð til að mótmæla nær ekki nokkurri átt. Bílstjórarnir lokuðu einni af helstu samgönguæðum borgarinnar fyrirvaralaust og tókst með því að skapa stórhættu, þótt það hafi eflaust ekki verið ætlunin.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, sagði í samtali við mbl.is í gær að það væri háalvarlegt mál þegar helstu samgönguæðum borgarinnar væri lokað með þessum hætti. Jón Viðar Matthíasson sagði að síðast þegar mótmælt hefði verið með þessum hætti hefði slökkviliðið fengið að vita af því með góðum fyrirvara, og slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn getað gert viðeigandi ráðstafanir.

„Hér er farið út í aðgerðir sem þeir láta okkur ekkert vita um. Okkar viðbragðskerfi, bæði hvað varðar sjúkraflutning og slökkvistarf, byggist á því að þær flæðilínur sem við notum dagsdaglega séu greiðar,“ segir Jón Viðar.

Það er skiljanlegt að atvinnubílstjórar finni fyrir háu eldsneytisverði. Það gera allir bílstjórar – líka þeir sem sátu fastir í umferðinni í gær án þess að eiga að neinu leyti sök á háu eldsneytisverði. En það eru til aðrar leiðir til að mótmæla en skapa stórhættu.

Ástandið sem skapaðist vegna mótmælanna vekur hins vegar spurningar um almennt öryggi þegar helstu umferðaræðar borgarinnar lokast. Nokkrum sinnum hefur það gerst að slys og óhöpp hafa teppt helstu umferðaræðar borgarinnar, þar á meðal Ártúnsbrekkuna. Slíkir atburðir gera ekki boð á undan sér og því er full ástæða til að velta fyrir sér hvort ekki þurfi að endurskoða þessi umferðarmál. Það kann að einhverju leyti að gerast með tilkomu Sundabrautar, en dugar það til? Eins og Jón Viðar Matthíasson segir byggjast viðbragðskerfi fyrir sjúkraflutninga og slökkvistarf á því að helstu samgönguleiðir séu opnar.

Það er hins vegar undarlegt að sjá að atvinnubílstjóri, sem vitnað er í á forsíðu Morgunblaðsins í dag, telur ummæli slökkviliðsstjóra hræðsluáróður. Jafnframt boðar forsvarsmaður bílstjóranna frekari lokanir og segir að hvorki slökkviliðsstjóri né lögregla verði látin vita með fyrirvara. Það var lán að ekkert skyldi út af bera meðan mótmælin stóðu yfir og umferð stöðvaðist þannig að margra kílómetra bílaraðir mynduðust.

Atvinnubílstjórar geta mótmælt háu eldsneytisverði eins og þeim sýnist, en það er ólíklegt að þeir vinni sér mikla samúð ef þeir ætla að halda uppteknum hætti og loka helstu umferðaræðum höfuðborgarsvæðisins.