Óvissa Formaður Tollvarðafélags Íslands segir tollverði hafa miklar áhyggjur af fyrirhuguðum skipulagsbreytingum á Suðurnesjum.
Óvissa Formaður Tollvarðafélags Íslands segir tollverði hafa miklar áhyggjur af fyrirhuguðum skipulagsbreytingum á Suðurnesjum. — Ljósmynd/Þorgils Jónsson
ÓTTI og óvissa einkenndi umræður sem fram fóru á fundi tollvarða á Keflavíkurflugvelli í gær, að sögn Guðbjörns Guðbjörnssonar, formanns Tollvarðafélags Íslands.
ÓTTI og óvissa einkenndi umræður sem fram fóru á fundi tollvarða á Keflavíkurflugvelli í gær, að sögn Guðbjörns Guðbjörnssonar, formanns Tollvarðafélags Íslands.

Fundurinn var haldinn til að ræða breytingar á skipulagi lög- og tollgæslu á Suðurnesjum sem dómsmálaráðherra kynnti á dögunum. Þær fela m.a. í sér að sameinað löggæsluembætti Suðurnesja verður leyst upp.

Gæti bitnað á tollgæslu

Guðbjörn segir tollverði samviskusama starfsmenn og muni þeir sinna störfum sínum eftir bestu getu hér eftir sem hingað til en mikil óánægja er með væntanlegar breytingar og hafa tollverðir lýst áhyggjum af að breytingarnar geti m.a. komið niður á lög- og tollgæslu á svæðinu.

Sendu tollverðir á Suðurnesjum frá sér ályktun að fundi loknum þar sem einhliða ákvörðun dómsmálaráðuneytis um upplausn sameinaðs löggæsluembættis Suðurnesja er mótmælt.

Segjast tollverðir ekki geta séð efnislegar eða fjárhagslegar ástæður fyrir ákvörðuninni og óska þess eindregið að hún verði tekin til endurskoðunar.

„Tollverðir óttast þau áhrif, sem ákvörðunin getur haft á þann góða starfsanda og frábæra árangur, sem undanfarin ár hefur einkennt embætti Jóhanns R. Benediktssonar, lögreglu- og tollstjóra,“ segir í yfirlýsingunni. Auk þess er lýst áhyggjum af að góð og áratugalöng samvinna löggæsluaðila á Suðurnesjum muni minnka.

Loks segir í yfirlýsingunni að tollverðir óttist að fíkniefnaeftirlit, tollaeftirlit, eftirlit með innflutningi á vopnum og öðrum ólöglegum varningi auk innheimtu aðflutningsgjalda verði óskilvirkari og versni í kjölfar breytinganna.

Spurður um næstu skref sagði Guðbjörn að tollverðir myndu bíða viðbragða fjármálaráðuneytis en samkvæmt breytingunum verður tollgæsla alfarið á forræði fjármálaráðherra.