BRESKA blaðið Daily Telegraph segir í grein í blaðinu í gær að efnahagsástandið á Íslandi geti haft áhrif á lönd eins og Tyrkland, Eystrasaltsríkin, Balkanríkin, Ungverjaland og hugsanlega Suður-Afríku.
BRESKA blaðið Daily Telegraph segir í grein í blaðinu í gær að efnahagsástandið á Íslandi geti haft áhrif á lönd eins og Tyrkland, Eystrasaltsríkin, Balkanríkin, Ungverjaland og hugsanlega Suður-Afríku.

Segir blaðið, að allt séu þetta lönd, sem lifi langt um efni fram og hafi stoppað í fjármálagöt með ódýru lánsfjármagni. Brothætt hagkerfi Íslands eigi að vera öðrum löndum víti til varnaðar en greint er frá hækkun stýrivaxta Seðlabankans í 15%, sem hafi verið gerð til að stöðva gengisfall krónunnar. Jafnframt er bent á að eignasafn íslensku bankanna sé á við áttfalda framleiðslu landsins og það sé heimsmet. Segir í grein blaðsins að nú hafi verið skrúfað fyrir ódýra fjármagnið og skuldatryggingaálag bankanna sé komið í álíka hæðir og hjá Bear Stearn fjárfestingabankanum áður en honum var bjargað af bandaríska seðlabankanum. Þetta veki upp þá spurningu hvort íslenska ríkið sé nógu öflugt til að verja bankana ef allt fari á versta veg.

Jafnframt segir að Ísland sé annað og meira en norrænn vogunarsjóður sem þykist vera land. Það sé líka fyrsta skuldsetta ríkið sem verði fyrir barðinu á fjárfestaflótta og það kveiki viðvörunarljós annars staðar.