Gúmmívinnslan á Akureyri tók nýverið yfir allan rekstur ALORKU í Reykjavík. Gúmmívinnslan er rótgróið fyrirtæki og hefur starfað frá árinu 1982.
Gúmmívinnslan á Akureyri tók nýverið yfir allan rekstur ALORKU í Reykjavík. Gúmmívinnslan er rótgróið fyrirtæki og hefur starfað frá árinu 1982.

Í fréttatilkynningu frá nýsameinuðu félagi segir að Alorka sé ört vaxandi fyrirtæki í sölu á hjólbörðum og flutningatækjum. Í kjölfar sameiningarinnar var ákveðið að öll hjólbarðasala og hjólbarðaþjónusta félagsins færi fram undir nafni og vörumerki Alorku frá og með 14. mars 2008.

Í fréttatilkynningunni segir að með þessum breytingum verði til eitt öflugasta félag landsins á sínu sviði. Alorka er með starfsstöðvar á Akureyri og í Reykjavík og býður breiða vörulínu af hjólbörðum fyrir flestar gerðir farartækja, allt frá fólksbílum og mótorhjólum upp í stærstu gerðir vinnuvéla. Alorka býður einnig breiða línu af flutningavögnum og flutningakössum fyrir stærri flutningabíla.

„Við erum sannfærðir um að þessar breytingar geri okkur kleift að veita enn betri þjónustu og meira vöruúrval á samkeppnishæfu verði,“ segir Ómar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Alorku. „Í samrunanum sáum við einstakt tækifæri til að koma fram undir einu sterku vörumerki á hjólbarðamarkaðnum. Fyrirtækið þjónustar viðskiptavini um allt land og við sjáum einnig fram á að bæði vörur og þjónusta mui ná yfir margt annað en hjólbarða, þó sá þáttur verði áfram kjölfestan í starfseminni.

ALORKA er með hjólbarðaverkstæði að Réttarhvammi á Akureyri og í Tangarhöfða, Reykjavík, og hafa þau á að skipa traustum fagmönnum með mikla reynslu.

Rekstur Gúmmívinnslunnar hf. verður hér eftir fyrst og fremst á sviði framleiðslu á sóluðum hjólbörðum og ýmsum vörum úr endurunnu gúmmíi. Gúmmívinnslan er eina fyrirtækið hérlendis sem hefur með höndum sólningu á hjólbörðum og endurvinnslu á vörum úr afgangsefni sem fellur til við þá framleiðslu.

Kristján Jónsson, framkvæmdastjóri Gúmmívinnslunnar segir að Gúmmívinnslan muni nú einbeita sér að framleiðslu á hágæða sóluðum hjólbörðum fyrir vörubíla og öðrum vörum úr úrgangsgúmmíi. „Fyrirtækið mun halda áfram að fylgja umhverfisstefnu sinni sem hefur verið í gildi síðan 1992 en samkvæmt henni miðar reksturinn að því að nýta til fullnustu þau efni sem falla til við aðra starfsemi félagsins. Tengslin milli Gúmmívinnslunnar og ALORKU setja fyrirtækin í sérflokk varðandi möguleikana á að lágmarka þá umhverfismengun sem hlýst af notkun hjólbarða.