Helgi Forsprakkinn, Helgi Þórsson, á góðri stundu á sviði með félögum sínum, Hljóðfæraleikurunum, í sveitinni sem við hann er kennd.
Helgi Forsprakkinn, Helgi Þórsson, á góðri stundu á sviði með félögum sínum, Hljóðfæraleikurunum, í sveitinni sem við hann er kennd.
HELGI og Hljóðfæraleikararnir bjóða í dans í kvöld á Græna hattinum á Akureyri, í tilefni 20 ára starfsafmælis hljómsveitarinnar. Þetta verður fyrsti viðburðurinn í röð ýmissa skemmtana sem staðið verður fyrir á árinu, en á döfinni eru t.a.m.
HELGI og Hljóðfæraleikararnir bjóða í dans í kvöld á Græna hattinum á Akureyri, í tilefni 20 ára starfsafmælis hljómsveitarinnar. Þetta verður fyrsti viðburðurinn í röð ýmissa skemmtana sem staðið verður fyrir á árinu, en á döfinni eru t.a.m. bókaútgáfa, bolaprentanir og nýr diskur til að gleðjast yfir þessum merka áfanga.

„Já, þetta er alveg dagsatt,“ segir Helgi Þórsson forsprakki hljómsveitarinnar. „Við erum víst orðnir þetta gamlir. En látum samt hvergi á sjá og höfum hreinlega aldrei verið ferskari. Við erum reyndar engan veginn sambærilegir við klisjuna um rauðvínið, hún endist illa og verður verri og verri eftir því sem hún er endurtekin oftar. Við erum aftur á móti ferskir eins og nýbruggað rabbarbaravín og komum sterkir undan vetrinum, albúnir í nýja vertíð í rokkinu.“

Helgi lofar góðri skemmtun í kvöld og segir að áhersla verði lögð á gamla smelli í bland við sjaldheyrðari lög. „Já, við ætlum nú að bjóða okkar yndislega múgi og margmenninu upp á nýtt lag, en reiknum annars fastlega með að spila lögin sem lifað hafa lengst á tónleikum. Svo pússum við rykið af nokkrum gömlum perlum líka. Þetta verður alveg himnesk kvöldstund, reikningsskil fyrir 20 dásamleg ár.“

Upphafið má rekja til hljómsveitar í Hrafnagilsskóla; hún hét því aggressíva nafni Attack og meðlimirnir voru Atli Rúnarsson trommari, gítarleikarinn Brynjólfur Brynjólfsson, Bobbi, og bassaleikarinn Beggi, Bergsveinn Þórsson, sem allir eru enn að. „Þá vantaði söngvara. Höfðu heyrt ógurleg org í mér þegar ég gerði tilraun með það hve hátt ég gæti öskrað, fengu mig í prufu og ég var ráðinn,“ segir Helgi. Þegar þarna var komið hét sveitin reyndar Múspellssynir. Nafnið sótt í Snorra Eddu. „En það voru vandaræði með nafnið; menn spurðu Mús hvað? Það gekk ekki. Á þessum tíma hétu hljómsveitir gjarnan ... og eitthvað; Langi Seli og skuggarnir, Adam and The Ants. Þetta var okkar svar við því; Helgi og Hljóðfæraleikararnir.

Hljómsveitin fór hraustlega af stað, segir Helgi, síðan dormaði hún um tíma, „en við höfum samt verið með tónleika og alls kyns uppákomur á hverju ári, misjafnlega margar þó. En síðustu 10 ár höfum við spilað mikið.“

Sveitarmennirnir koma hver úr sinni tónlistaráttinni þannig að úr verður einhvers konar popprokk-grautur, að sögn Helga. Þeim finnst gaman að spila hart rokk „en stundum erum við þverflautur og getum verið á blíðu nótunum.“

Textarnir eru alltaf frumsamdir og Helgi og félagar hans semja stöðugt nýtt efni. „Sköpunin á sinn þátt í því að hljómsveitin lifir,“ sagði hann. „Þetta hefur aldrei snúist um bissness – bara gleði.“