[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húsbíllinn býður upp á mikið ferðafrelsi með því að sameina ferðamáta og gistingu. Þormóður Dagsson prufukeyrði á dögunum þýska lúxushúsbílinn James Cook Sprinter Wesfalia.
Núna þegar loksins er farið að glitta í vor og bjartari tíð eru eflaust einhverjir farnir að huga að ferðalögum yfir sumartímann. Hvert skal haldið, hvernig skal farið og hvar á að gista? Ótal margt mælir með ferðalögum innanlands og fyrir þá sem leggja mikið upp úr ferðafrelsi þá ætti húsbíllinn að vera ákjósanlegur kostur. Hann sameinar bæði ferðamáta og gistingu og getur borið ferðalanginn nánast hvert á land sem er.

Samkvæmt tölum Umferðarstofu eru sífellt fleiri Íslendingar farnir að nota húsbílinn en nú eru skráðir 2334 slíkir bílar á landinu sem eru tæplega 300 fleiri bílar en voru skráðir í ársbyrjun 2007. Af þeim eru húsbílar Ford flestir en fast á hæla þeirra sækja húsbílar Mercedes-Benz. Ný hönnun húsbíls, byggð á grunni Mercedes Benz Sprinter frá Daimler Chrysler kenndur við James Cook og Westfalia, var nýverið kynnt en um er að ræða eins konar lúxus-hótelherbergi á hjólum. Af þessum bíl bjóðast tvær útfærslur, „Classic“ og „Compact“ og felst munurinn einkum í hæð og fjölda svefnplássa.

Þarfir ferðamannsins

Undirritaður prófaði fyrrnefndu útfærsluna en hún geymir sætispláss fyrir fjóra og jafn mörg svefnpláss. Annars vegar er það tvíbreitt rúm (240x150 cm), sem dregið er út á sleðum fyrir ofan stýrishús, og hins vegar tvíbreitt rúm (200x130 cm) sem leggst yfir farþega- og bílstjórasæti. Og þegar svefnplássin eru ekki í notkun má hæglega ganga frá þeim svo lítið fari fyrir. Þá er hægt að nýta sætin og koma fyrir borði og verður þá til sæmileg setustofa.

„Classic“ útfærslan er mjög há, 3,2 m á hæð, og þar af leiðandi er mikið pláss í bílnum og rúmt um farþega. Mikið er um hvers kyns hirslur og skápapláss og svo geymir bíllinn 62 lítra ísskáp með frystihólfi sem lítið fer fyrir. Og þá erum við komin inn í eldhúshornið en þar er prýðilegar aðstæður til matargerðar með vaski, gashellum, nægu skápaplássi til að geyma hráefnið og svo er meir að segja löng kryddhilla fyrir ofan vaskinn. Það má því halda góða matarveislu í bílnum og ef veiðifólk er í fararhópnum þá eru kjöraðstæður til að matreiða aflann.

James Cook húsbíllinn er hannaður til að mæta helstu þörfum ferðamannsins en auk þess að geta fullnægt sælkeranum og boðið honum upp á væran blund þá er þarna líka salernisaðstæða og sturta. Og ef gott veður og skjól bjóðast þá er hægt að draga sturtuhausinn út fyrir bílinn og viðkomandi getur þrifið sig undir berum himni. Talsvert er af innstungum þannig að það mætti stinga sjónvarpi í samband eða annars konar afþreyingu. Öllu er vel komið fyrir og nánast hver einasti flötur nýttur.

Það ætti því að vera hægt að komast í snertingu við náttúru landsins án þess þó að þurfa að fórna helstu lífsgæðum siðmenningarinnar.

Fjölskylduferð

Prufubíllinn er búinn þriggja lítra, sex sýlindra dísilvél sem býður upp á 184 hestöfl við 3800 snúninga og því sæmilega aflmikill. Hann er afturhjóladifinn, með fimm hraða sjálfskiptingu, búinn ESP stöðugleikakerfi, spólvörn og ABS-bremsuvörn. Þá eru einnig líknarbelgir fyrir ökumann og farþega í framsæti.

Það fer vel um ökumann í bílstjórasætinu enda mikilvægt fyrir ferðalanginn að geta ekið langar vegalengdir án óþæginda. Fyrir ofan framrúðuna er skjár sem sýnir allar helstu upplýsingar um starfsemi ökutækisins eins og vatnsstöðu, rafmagnshleðslu, hitastig, upplýsingar um ískáp og fleira.

James Cook Sprinterinn er vel hannaður húsbíll sem mætir helstu þörfum ferðamannins og ætti að henta prýðilega í fjölskylduferðalög um landið.

James Cook Sprinter Westfalia

Vél: 318 CDI, sex sýlindra dísilvél

Aflgeta: 184 hestöfl við 3800 snúninga

Drif: Afturhjóladrif

Gírskipting: Fimm hraða sjálfskipting

Lengd: 5910 mm

Breidd: 1993 mm

Hæð: 3200 mm

Hjólhaf: 3665 mm

Eigin þyngd: 3140 kg

Eyðsla: 9,5 l/100km í utanbæjarakstri, 12 l/100km í innanbæjarakstri

Verð: 14.900.000 (miðað við núverandi gengi evrunnar)

Umboð: Askja