[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrátt fyrir veðrabrigðin í efnahagslífinu að undanförnu halda vélarnar áfram að mala og hjólin að rúlla, næstum því eins og ekkert hafi í skorist enn sem komið er.
Þrátt fyrir veðrabrigðin í efnahagslífinu að undanförnu halda vélarnar áfram að mala og hjólin að rúlla, næstum því eins og ekkert hafi í skorist enn sem komið er. Þær koma víða við í daglegu lífi okkar, stórar sem smáar – raunar gerum við nánast ekki handtak án þeirra. Þær eru þarfasti þjónninn og við erum þurfalingarnir. Við getum líka orðað það þannig að það gerist ekki neitt án þeirra, hvort sem það er að gefa einfalda skipun um aðgerð í gegnum tölvuhugbúnað á skrifstofu, koma sér á milli staða með vélarafli í lofti, láði eða legi, grafa göng undir sjó eða gegnum fjöll eða byggja skýjakljúfa. Þær geta svo sannarlega fært fjöll ef því væri að skipta – ekkert virðist þeim ómögulegt.

Við lifum á öld vélanna og þær láta hjólin rúlla í iðnaðarsamfélaginu. Ef þær hætta að mala, verður oftast uppi fótur og fit, jafnvel afturhvarf til tíma sem við þekkjum aðeins af afspurn eins og rafmagnsleysi. Við erum háð vélarmalinu, allt niður í smæstu athafnir daglegs lífs þegar við hlustum á spilastokkinn okkar, háð borvélinni þegar við hengjum upp myndir af fjölskyldunni, gröfunni þegar við gröfum grunninn að framtíðarheimilinu og öllum stórvirku vinnuvélunum þegar við nýtum auðlindir okkar á skynsamlegan hátt í þeim tilgangi að bæta lífskjör samfélagsins. Þess vegna viljum við heyra vélarnar mala og hjólin rúlla og vonum að það verði líka til þess að knýja efnahagslífið.