Í fullum herklæðum Ómar Smári Skúlason, markvörður Skautafélags Akureyrar, stendur í ströngu.
Í fullum herklæðum Ómar Smári Skúlason, markvörður Skautafélags Akureyrar, stendur í ströngu. — Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
Í gær fór annar leikurinn í úrslitakeppninni í íshokkí fram á Akureyri. SA og SR áttust þá við og eftir ærlega rassskellingu í fyrsta leiknum komu heimamenn mjög einbeittir til leiks. Þeir höfðu yfirhöndina frá byrjun og gáfu engin færi á sér.

Í gær fór annar leikurinn í úrslitakeppninni í íshokkí fram á Akureyri. SA og SR áttust þá við og eftir ærlega rassskellingu í fyrsta leiknum komu heimamenn mjög einbeittir til leiks. Þeir höfðu yfirhöndina frá byrjun og gáfu engin færi á sér. Vörn þeirra, sem átti í mesta basli í fyrsta leiknum og fékk þá á sig níu mörk, hélt hreinu en markverðir beggja liða voru í hörkuformi. Þrátt fyrir það tókst heimamönnum að skora nokkur mörk en leikurinn endaði 4:0.

Einar Sigtryggsson skrifar

Emil Allengard sem lék fantavel með SR í fyrsta leiknum var borgaralega klæddur í gær og horfði á félaga sína af varamannabekknum. Það munaði um minna því vörn heimamanna gat nú lokað mun betur á aðra leikmenn liðsins. Björn Már Jakobsson, fyrirliði SA, var þó ekki endilega á sama máli. „Við vorum náttúrlega skelfilega lélegir í fyrsta leiknum. Emil er bara ein blá treyja í viðbót, vissulega góður leikmaður en ekkert að fara að klára þetta fyrir þá. Nú eru næstu tveir leikir fyrir sunnan um helgina og við ætlum að klára þetta dæmi sem fyrst, við ætlum bara að jarða þá. Ég vona bara að allir Akureyringar fyrir sunnan mæti rauðklæddir og styðji okkur. Sá stuðningur sem við fengum hérna í kvöld var mjög mikilvægur og nákvæmlega það sem við þurftum. Þessir gaurar, sem kalla sig Vini Sagga og höfðu hvað hæst á pöllunum í kvöld, ættu bara að drífa sig suður að styðja liðið. Ef ekki þá verða þeir bara að hringja í frændfólk sitt og skipa því að mæta í staðinn“ sagði Björn ákveðinn áður enn hann hélt til félaga sinna í svitamettað andrúmsloft búningsklefans.