David Robertson
David Robertson
SINFÓNÍUHLJÓMSVEITIN í Saint Louis í Bandaríkjunum, ein virtasta hljómsveit þar vestra, hefur stofnað til útgáfuraðar sem einungis verður fáanleg á netinu og verður ekki gefin út á plötum.
SINFÓNÍUHLJÓMSVEITIN í Saint Louis í Bandaríkjunum, ein virtasta hljómsveit þar vestra, hefur stofnað til útgáfuraðar sem einungis verður fáanleg á netinu og verður ekki gefin út á plötum. Fyrsta verkið í útgáfuröðinni er hljóðritun af tónleikum hljómsveitarinnar á heimavelli sínum, Powell-salnum í Saint Louis, þar sem hljómsveitin leikur Harmonielehre, 40 mínútna stórverk eftir John Adams. Verkið var samið 1985 og lýsti tónskáldið því sem hjónabandi mínimalískrar músíkframvindu og tjáningarríkrar síðrómantískrar hljómaveraldar (e. late Romanticism). „Skuggar Mahlers, Sibeliusar, Debussys og hins unga Schönbergs eru alls staðar á vappi í þessu sérkennilega verki,“ segir hljómsveitarstjórinn David Robertson í samtali við tímaritið Gramophone.

Næsta verk sem kemur út í netútgáfu Saint Louis sinfóníuhljómsveitarinnar eru Sinfónía í C eftir Stravinskíj, og kemur hún út í september.

Hljómsveitin á í samvinnu um útgáfuna við IODA, stærsta dreifanda stafrænnar tónlistar í veröldinni í dag, en verkið fæst á vefnum bæði á amazon.com og á iTunes.

Sinfóníuhljómsveitin í Saint Louis á sér mikla frægðarsögu í plötuútgáfu, frá þeim árum er Leonard Slatkin var við stjórnvölinn þar og gaf út hjá RCA. Nokkurt hlé hefur verið á útgáfum sveitarinnar á síðustu árum, en með netútgáfunni er tekið til óspilltra málanna á nýjan leik.