HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness vísaði í gær frá dómi máli Samtaka myndrétthafa á Íslandi, Framleiðendafélagsins-SÍK, Samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar og Félags hljómplötuframleiðenda á hendur Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni.
HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness vísaði í gær frá dómi máli Samtaka myndrétthafa á Íslandi, Framleiðendafélagsins-SÍK, Samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar og Félags hljómplötuframleiðenda á hendur Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni. Taldi fjölskipaður héraðsdómur málið vanreifað og því óhjákvæmilegt að vísa því sjálfkrafa frá dómi. Lögbannskröfu á hendur Istorrent var hins vegar ekki hnekkt. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun málinu verða áfrýjað til Hæstaréttar, af hálfu stefnenda.

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að lögmaður Istorrent og Svavars hafi við munnlegan málflutning vísað til laga um rafræn viðskipti (30/2002) og því haldið fram að án sérstakrar skýringar stæðu lögin í vegi fyrir því að skjólstæðingur sinn væri ábyrgur fyrir deilingu á höfundarvörðu efni – sem málið gengur út á. „Af hálfu aðila máls þessa hefur að öðru leyti ekki verið reifað hvaða þýðingu lög nr. 30/2002 hafa fyrir úrlausn þess,“ segir m.a. í dómnum.

Eru því næst einstök atriði laganna reifuð og komist að þeirri niðurstöðu að það geti fallið undir hugtakið rafræn þjónusta þegar í atvinnustarfsemi er veitt þjónusta sem felur í sér upplýsinga- eða aðgangsþjónustu á netinu. Þar sem ekki var farið yfir þýðingu laganna fyrir dómi taldist það vanreifað.