Tyrfið Söluskilmálar eru ekki það sama og ábyrgðarskilmálar þótt ábyrgðarskilmálar kunni að vera felldir inn í þá.
Tyrfið Söluskilmálar eru ekki það sama og ábyrgðarskilmálar þótt ábyrgðarskilmálar kunni að vera felldir inn í þá. — Morgunblaðið/Júlíus
Eftir Leó M. Jónsson leoemm@simnet.is Það mun heyra til undantekninga lesi einhver ábyrgðarskilmála áður en bíll er keyptur.
Eftir Leó M. Jónsson

leoemm@simnet.is

Það mun heyra til undantekninga lesi einhver ábyrgðarskilmála áður en bíll er keyptur. Það er ekki fyrr einhver vandræði steðja að, stundum með óþarfa þvargi og leiðindum, að farið er að skoða ábyrgðarskilmála sem geta verið mismunandi eftir tegund bíls eða tækis. Listinn yfir það sem er undanþegið ábyrgð framleiðanda er oft lengsti hluti textans; slithlutir svo sem stýrisliðir, demparar, bremsudiskar, bremsuklossar/borðar, kúplingsdiskur, kúplingspressa, pústkerfi, reimar, perur, dekk, vökvar o.fl. Þar með er ekki sagt að gallar geti ekki komið fram í hlutum sem undanþegnir eru ábyrgð en þá eru þeir oftast bættir að frumkvæði framleiðanda, annað hvort sem liður í þjónustuskoðun eða með innköllun bíla.

Undantekning frá reglunni

Söluskilmálar eru ekki það sama og ábyrgðarskilmálar þótt ábyrgðarskilmálar kunni að vera felldir inn í þá. Söluskilmálar kveða m.a. á um hvaða samningar, hvers konar og til hve langs tíma skuli gilda á milli seljanda og kaupanda; hvernig skuli fara með ágreiningsmál og hvert varnarþingið skuli vera. Nú tíðkast hjá öllum vel skipulögðum fyrirtækjum, t.d. stærri verktökum, að kynna sér sölu- og ábyrgðarskilmála ítarlega áður en kaup eru ákveðin. Þegar um meiriháttar tækjakaup er að ræða er nokkuð algengt að þess sé jafnframt krafist að skilmálar séu þýddir á íslensku. Ein ástæðan fyrir þessari breytingu er fjölgun stjórnenda sem hafa lært verkefnastjórnun (project management).

Án þess að fara út í langt mál skal þetta skýrt með dæmi: Fyrirtæki ákveður að kaupa nýja dísilknúna varaaflstöð af erlendu fyrirtæki. Liður í sölu- og ábyrgðarskilmálum er að þrír sérfræðingar frá framleiðanda komi til þess að setja rafstöðina upp, gangsetja hana, prófa og taka út. Afhending/viðtaka telst ekki hafa farið fram fyrr en báðir aðilar hafa samþykkt að rafstöðin skili umsömdum afköstum o.fl.

Í samningnum (smáa letrið) er nákvæmlega tilgreint hvaða aðstæður skuli vera á uppsetningarstað, hvaða hjálpartæki kaupandi skuli hafa til reiðu og hvað megi reikna með að uppsetning og uppkeyrsla taki langan tíma miðað við að öllum skilyrðum sé fullnægt.

Komi sérfræðingar erlendis frá til að setja búnaðinn upp er reglan yfirleitt sú að kaupandi greiðir ferða- og uppihaldskostnað þeirra sérstaklega samkvæmt reikningi (þ. á m. dagpeninga, ákveðna upphæð sem tekin er fram í söluskilmálum/samningi). Í þessu ákveðna dæmi hafði, vegna skorts á verkefnastjórnun, láðst að lúslesa samþykkta söluskilmála til að undirbúa verkið í tíma. „Smáa letrið“ innihélt bálk þar tekið var sérstaklega fram að sérfræðingar seljanda ynnu ekki undirbúningsvinnu sem fæli í sér meðhöndlun asbests. Þetta hafði verkstjórnendum sést yfir. Einangrunarskilrúm, klætt asbesti, sem hafði fylgt eldri rafstöð stóð uppi og teppti rými nýja búnaðarins. Leita þurfti uppi verktaka með sérstakt leyfi og búnað til að rífa niður, fjarlægja og farga asbesti undir sérstöku eftirliti heilbrigðisfulltrúa. Það verk tafði uppsetninguna um tæpa viku og tvöfaldaði kostnað kaupandans af uppsetningunni.

Gildi þjónustuskoðana gagnvart ábyrgð

Þjónustuskoðanir eru fyrst og fremst fyrirbyggjandi eftirlit og mörg bíla- og vinnuvélaumboð nota þjónustuskoðanir til að skipta um ákveðna hluti að beiðni framleiðanda án þess að eiganda eða umráðamanni sé tilkynnt um það sérstaklega. Af þeim ástæðum er þjónustuskoðun hjá umboði eða löggiltu verkstæði, þ.e. verkstæði sem rekið er á ábyrgð iðnmeistara, forsenda þess að ábyrgð sé gild þann tíma sem hún á að gilda. Löggilt bílaverkstæði, t.d. úti á landi, sem tekur að sér ábyrgðarskoðun á rétt á því að fá þær tæknilegu upplýsingar hjá viðkomandi bílaumboði sem þarf til að framkvæma skoðunina hvort sem það er samningsbundið umboðinu eða ekki. Verkstæðinu er heimilt að nota rekstrarvörur á almennum markaði, svo sem síur, reimar, slithluti og bremsubúnað án þess að það hafi áhrif á ábyrgð framleiðanda 1). Beri viðkomandi umboð hins vegar brigður á gæði slíkra hluta verður það að færa sönnur fyrir því sjálft og greiða þann kostnað sem slíkri rannsókn fylgir. Við þjónustu á ábyrgðartíma er heimilt að nota aðrar tegundir smurolíu (með sama seigjusvið), kælivökva og glussa en þær sem framleiðandi bíls eða viðkomandi umboð mælir með ef þau efni standast þá alþjóðlegu gæðastaðla sem framleiðandi bíls gefur upp í handbók bílsins).

Hvað telst galli?

Bíll sem bilar á ábyrgðartíma þannig að hann verður ónothæfur og ekki verður séð að bilunin stafi af rangri meðferð, mistökum eiganda eða skemmdarverkum, telst gallaður og það er seljanda að bæta úr því – eða það skyldi maður ætla. En „smáa letrið'' getur sett strik í reikninginn. Sumir bílaframleiðendur, sem bjóða (með venjulegri leturstærð) 3ja ára verksmiðjuábyrgð eða 100 þús. km. akstur, hvort sem kemur fyrr, geta haft ýmsa fyrirvara varðandi galla, – oftast með smærra letri. Hafi samsvarandi galli ekki fundist í öðrum sams konar bíl, t.d. fyrstu 6 mánuði frá því sala bílsins hófst, áskilja sumir bílaframleiðendur, t.d. sumir bandarískir, sér rétt til að neita bótum því viðkomandi galli sé ekki á lista yfir viðurkennda galla, þ.e. galla sem komið hafi fram í öðrum bílum sömu gerðar. Í slíku tilviki, sem mun vera fremur sjaldgæft, ber kaupandanum, samkvæmt sölu- og ábyrgðarskilmála sem hann hefur samþykkt (oftast án þess að lesa) að sanna á sinn kostnað að um framleiðslugalla sé að ræða. Þetta ákvæði mun eiga að vernda framleiðanda gegn skemmdarverkum. Þriggja ára ábyrgðin getur því reynst vera 6 mánuðir eða 2 ár samkvæmt íslenskum lögum um lausakaup (sé hafnaðri kröfu áfrýjað til sérstakrar kærunefndar) eða kaupandinn treysti sér í dýr málaferli fáist krafan ekki samþykkt.

Hvað er innifalið í ábyrgð?

Verksmiðjuábyrgð, t.d. bíls, kann að vera þess eðlis að bíleigandi skuli bera allan kostnað af flutningi bilaðs bíls á verkstæði á ábyrgðartímanum. Hafi bíl verið ekið 80 þús. km. á innan við 3 árum þegar galli kemur í ljós getur „smáa letrið“ sagt að framleiðanda beri einungis að bæta um 20% af verði nýs hlutar í stað þess gallaða. Í öðrum tilvikum getur smáa letrið kveðið á um að framleiðanda/umboði beri einungis að bæta gallaðan hlut á ábyrgðartíma en bíleigandinn skuli bera kostnað við úr- og ísetningu hlutarins. En bílakaupendum til happs er þekking á þessum ábyrgðarmálum (claim-management) mismunandi mikil hjá bílaumboðum.

Ákveðin umboð eru með hagstæðari ábyrgðarskilmála en önnur. Þá er um að ræða þjónustu sem þau veita á eigin kostnað. Í ábyrgðarskilmála kann að vera ómögulegt að finna stafkrók um lánsbíl á meðan á ábyrgðarviðgerð stendur. Engu að síður lána sum umboð bíla endurgjaldslaust á meðan ábyrgðarviðgerð fer fram þótt kaupandinn eigi ekki rétt á slíkri þjónustu samkvæmt ábyrgðarskilmálum. Þjónusta þeirra umboða er einfaldlega betri en annarra.

Íslensk lög um ábyrgð á vörum og þjónustu

Lög nr. 50 sem upphaflega voru samþykkt á Alþingi 16. maí 2000 og nefnast „Lög um lausafjárkaup“ er heilmikill bálkur (99 greinar – 9 síðna 2ja dálka A4-skjal). Sé leitað gaumgæfilega má finna í næst aftasta atriði 32. greinar að kvörtun teljist ekki gild nema hún sé lögð fram innan 2ja ára frá viðtöku selds hlutar. Varðandi viðgerðir/þjónustu gilda lög nr. 42, upphaflega samþykkt á Alþingi 16. maí 2000 og nefnast „Lög um þjónustukaup.“ Í þeim má finna í næst aftasta atriði 17. greinar sömu setningu um 2ja ára gildistíma kvörtunar. Sérstök kærunefnd tekur kvartanir til umfjöllunar en hún er til húsa hjá Neytendastofu. 15. kafli laga um lausfjárkaup nefnist „Sérreglur um alþjóðleg kaup“ og í 88.gr. þeirra er vísað í samning Sameinuðu þjóðanna frá 1980 um alþjóðleg lausafjárkaup. Því má gera ráð fyrir að 2ja ára ábyrgð samkvæmt íslensku „Kaupalögunum“ gildi ekki fortakslaust þegar um er að ræða kaup á tækjum og búnaði fyrirtækja erlendis frá. Því meiri þýðingu hefur „smáa letrið“ eins og verkefnastjórar vita.

1) EU Commission: Block Exemption Regulation 1400/2002