<h4>Hafnir á Reykjanesi</h4>Á Reykjanesi eru margir skoðunarverðir staðir og ekki langt á milli þeirra. Þessi mynd sýnir einn fallegan stað á Reykjanesi, Hafnir, en þar nálægt er t.d. hægt að skoða fjölbreytt fuglalíf svo aðeins eitt sé nefnt.

Hafnir á Reykjanesi

Á Reykjanesi eru margir skoðunarverðir staðir og ekki langt á milli þeirra. Þessi mynd sýnir einn fallegan stað á Reykjanesi, Hafnir, en þar nálægt er t.d. hægt að skoða fjölbreytt fuglalíf svo aðeins eitt sé nefnt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
101 Hvað? Í SJÓNVARPINU þessa dagana má sjá eftirsóttasta póstnúmer Íslands, 101 Reykjavík, sem hryggðarmynd. Ég bjó þar í níu ár á sínum tíma, í Þingholtunum, rétt við Skólavörðustíginn.

101 Hvað?

Í SJÓNVARPINU þessa dagana má sjá eftirsóttasta póstnúmer Íslands, 101 Reykjavík, sem hryggðarmynd. Ég bjó þar í níu ár á sínum tíma, í Þingholtunum, rétt við Skólavörðustíginn. Það var frábært, 5 mínútna labb í vinnuna og allar búðir sem eitt heimili þurfti á að halda voru á næsta horni eða handan við það. Heimilistæki, rafmagnssnúrur og klær, veggfóður, málning, tau og tölur, pottar og diskar, bækur, músik og ótal matvörubúðir ... að ekki sé minnst á Mokka, sem var nánast miðdepill tilveru fjölda skemmtilegs fólks og það brást aldrei að líta þar inn sér til upplyftingar.

Svo eignaðist ég mann, börn og bíl eins og gengur. Og kött sem lifði í tíu mínútur þegar honum var loks hleypt út í fyrsta sinn. Börnin fengu aldrei að fara út ein. Hvergi sást grasstrá eða blóm út um neinn glugga.

Árin liðu. Á skömmum tíma hurfu flestar búðirnar, það var gengið yfir bílinn minn, jafnvel á takkaskóm. Þegar ég fór að neyðast til að keyra í önnur hverfi eftir nauðsynjum varð ég oft að leggja bílnum óravegu frá þegar ég kom heim og hlaupa svo út um sjöleytið til að sækja hann heim að húsinu. Brátt var ekki lengur hægt að hafa opna glugga götumegin, vegfarendur fleygðu rusli inn eða kýldu fagið úr, brutu rúðuna eða eitthvað. Svo varð ekki hægt að sofa fyrir opnum glugga bakatil fyrir hávaða, öskrum og bílflauti. Morgunloftið angaði af hlandlykt. Eitt kvöldið þegar maðurinn minn kom úr einni langsiglingunni játaði ég uppgjöf fyrir aðstæðunum og vildi flytja. Hann hafði alla sína ævi átt heima í 101 og skildi illa málið. Smáfrí hjá foreldrum mínum fyrir norðan, þar sem var stór garður með grasi og trjám og tveir bráðlifandi kettir, fór langt með að sannfæra hann. Börnin komust í snertingu við náttúrna og vildu helst ekki fara aftur. Úrslitum réð þó að stöðumæli var plantað við útidyrnar hjá okkur og að bóndinn fékk vatnsblöðru í andlitið, inn um stofugluggann, eitt kvöldið þegar hann ætlaði að hafa það huggulegt. Við seldum, fluttum í Garðabæ, höfum hund, kött og páfagauk, nóg af grasi , trjám og frísku lofti. Engir stöðumælar, næg bílastæði og allar búðir sem eitt heimili þarf eru ýmist á staðnum eða handan við aðra hvora hæðina, í Hafnarfirði eða Kópavogi.

Áhyggjulaus húsmóðir.


Svarað í síma 5691100 frá 10-12 og 13-15 | velvakandi@mbl.is