Sléttuvegur Verið er að vinnna að framkvæmdum við gatnagerð í nýju íbúahverfi við Sléttuveg í Fossvogsdalnum
Sléttuvegur Verið er að vinnna að framkvæmdum við gatnagerð í nýju íbúahverfi við Sléttuveg í Fossvogsdalnum
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur valaosk@gmail.com Bubbi söng að sumarið væri tíminn og svo sannarlega er það rétt. Sumarið er tími til margs, m.a. tími gatna- og umferðarframkvæmda á Íslandi.
Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur

valaosk@gmail.com

Bubbi söng að sumarið væri tíminn og svo sannarlega er það rétt. Sumarið er tími til margs, m.a. tími gatna- og umferðarframkvæmda á Íslandi. Þá er veðráttan yfirleitt til friðs og hindrar ekki störf á götum landsins.

Ótal gatna- og umferðarframkvæmdir eru á döfinni hjá framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar, nýframkvæmdir, endurnýjanir, viðhald sem og áframhald fyrri framkvæmda. Árið 2008 er áætlað að nýframkvæmdir nemi 7,2 milljörðum króna. Að sögn Kristjáns Helgasonar, upplýsingafulltrúa hjá framkvæmda- og eignasviði, námu nýframkvæmdir gatna í fyrra 2,7 milljörðum króna þó svo að áætlunin hafi hljóðað upp á 3,7 milljarða. Hækkunin á áætluðum framkvæmdum milli ára nemur því tæplega 100%.

Ekki er rask í umferðinni vegna nýframkvæmda fyrirsjáanlegt en líkt og fyrri sumur má hins vegar gera ráð fyrir umferðartöfum vegna malbiksviðgerða.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir sjö ný verkefni sem verktakar á vegum Reykjavíkurborgar ráðast í nú á vor- og sumarmánuðum.

Strætóumbætur við Miklubraut

Unnið er að undirbúningi sérstakrar akreinar fyrir almenningsvagna og leigubifreiðar á Miklubraut þegar ekið er í vesturátt frá mislægum gatnamótum við Réttarholtsveg að göngubrú við Kringluna. Þar mun akreinin tengjast núverandi strætórein, sem nær niður að gatnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Vegagerðin deilir kostnaðinum við gerð strætóakreinanna, þar sem brautin er skilgreind sem þjóðvegur.

Samhliða þessum framkvæmdum verður gönguleiðum yfir Miklubraut áfangaskipt við tvenn gatnamót á þessari leið, m.a. til þess að auka öryggi gangandi vegfarenda. Um er að ræða gatnamót Miklubrautar við Grensásveg og Háaleitisbraut, en áfangaskiptar gangbrautir eru nú í notkun á gatnamótum við Kringlumýrarbraut.

Kristján segir þessar aðgerðir vera lið í þeirri viðleitni borgarinnar að auka vægi almenningssamgangna þar. Sérstakar strætóreinar flýti mjög fyrir ferðum vagnanna, sérstaklega á álagstímum í upphafi og lok vinnudags. Með þessu mun samkeppnisstaða gagnvart einkabílnum styrkjast og fólk komi frekar til með að nota strætó til og frá vinnu. Þegar til lengri tíma er litið dregur þetta úr vaxandi álagi á gatnakerfi borgarinnar segir Kristján.

Skólavörðustígur

Nú þegar eru hafnar endurbætur á götum og gönguleiðum á Skólavörðustíg, nánar tiltekið á milli Týsgötu og Njarðargötu. Áætluð lok framkvæmda eru 31. júlí næstkomandi. Kostnaðaráætlun framkvæmdanna hljóðar upp á 140 milljónir króna en verkefnið felst í endurnýjun lagna veitufyrirtækja, jarðvegsskiptum, snjóbræðslu og yfirborðsfrágangi.

Sléttuvegur – nýtt íbúðahverfi

Verið er að vinna að framkvæmdum við gatnagerð í nýju íbúðahverfi við Sléttuveg í Fossvogsdalnum. Meðal þess sem unnið er að er nýbygging gatna, stétta, bílastæða og stíga ásamt hljóðmönum og lögnum veitufyrirtækja. Áætlað er að framkvæmdum ljúki 1. september næstkomandi og heildarkostnaður vegna verksins er áætlaður 300 milljónir króna.

Bústaðavegur og Snorrabraut

Í samstarfi við Vegagerðina vinnur Reykjavíkurborg nú áfram að uppsetningu á miðlægri stýringu umferðarljósa, en lokið var við uppsetningu á umferðatölvu árið 2007 ásamt tengingu alls 37 umferðaljósagatnamóta við hana.

Í ár verða umferðarljós við Bústaðaveg og Snorrabraut tengd við kerfið en útboð í verkið fer fram um miðjan apríl og gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið um miðjan október. Búast má við að einstök umferðarljós verði óvirk á þessari leið í sumar en þá einungis í stuttan tíma (1-3 daga) hverju sinni.

Til framtíðar býður nýja kerfið upp á miðlæga stýringu umferðarljósa og gagnasöfnun (t.d. umferðartalningu) ásamt sjálfvirkri eftirlits- og bilanavakt. Frekari viðbætur opna möguleika á sjálfvirkri stillingu umferðarljósa með tilliti til umferðar.

Háskólinn í Reykjavík

Gatnaframkvæmdir vegna nýs háskólasvæðis Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni fara á fullt í sumar. Framkvæmdir á nýbyggingum eru komnar vel í gang en samkvæmt heimasíðu Háskólans í Reykjavík er gert ráð fyrir að fyrsti áfangi byggingarinnar verði tekinn í notkun í ágúst 2009. Gatnaframkvæmdirnar eru hins vegar á vegum Reykjavíkurborgar en áætlaður kostnaður við þær eru 300 milljónir og áætluð verklok eru síðla haust á þessu ári.

Umferðaröryggismál

Áframhaldandi vinna við uppbyggingu á svokölluðum 30 km hverfum, með áherslu á aðgerðir innan þeirra, er einnig á dagskrá í sumar hjá Reykjavíkurborg. Þau hverfi sem unnið verður að í ár eru m.a. Norðlingaholt, Skuggahverfið, Kvosin og Fellsmúli.

Áætlun um endurbætur á gönguleiðum skólabarna og aldraðra hljóðar upp á 35 milljónir en síðastliðin sex ár hefur 25 milljónum króna verið varið árlega í þennan málaflokk. Meðal þeirra staða þar sem gerðar verða úrbætur á gönguleiðum skólabarna má nefna: Steinlagðar hraðahindranir í Engihlíð, við Flúðasel, Háagerði og Laufengi. Einnig má nefna upphitaða gönguleið aldraðra frá Grund meðfram Hringbraut og niður á Tjarnargötu. Þá verða 50 milljónir lagðar í endurbætur á hinum ýmsu vástöðum í gatnakerfi borgarinnar.

Stekkjarbrekkur

Unnið er að breikkun gatna vegna aðkomu að nýju verslunarhúsnæði við Stekkjarbrekkur, vestan Vesturlandsvegar. Að verkinu standa Framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar, Orkuveita Reykjavíkur, Gagnaveita Reykjavíkur ehf. og Míla ehf. Í verkinu felst allt það sem þarf að vinna við gatnagerð en einnig verður gerð settjörn á svæðinu. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 120 milljónir og eru verklok áætluð 1. ágúst næstkomandi.