Fulltrúi réttvísinnar Flóttamanninum unga brá þegar hann sá lögreglubíl með blikkandi ljós.
Fulltrúi réttvísinnar Flóttamanninum unga brá þegar hann sá lögreglubíl með blikkandi ljós. — 24 stundir/Júlíus
Fimm ára gutta sem ætlaði að kanna heiminn og klifraði þess vegna yfir grindverk við leikskólann sinn á dögunum brá eiginlega meira þegar hann sá fulltrúa réttvísinnar á staðnum sem var á lögreglubíl með viðvörunarljós í gangi, heldur en við fallið á...
Fimm ára gutta sem ætlaði að kanna heiminn og klifraði þess vegna yfir grindverk við leikskólann sinn á dögunum brá eiginlega meira þegar hann sá fulltrúa réttvísinnar á staðnum sem var á lögreglubíl með viðvörunarljós í gangi, heldur en við fallið á gangstéttina sem var þó nokkuð, að því er Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, blaðafulltrúi hjá lögregluembætti höfuðborgarsvæðisins greinir frá.

Lögreglumaður var við almennt eftirlit á svæðinu, sá til snáðans og kom honum strax til aðstoðar.

Tveir félagar kappans, sem bar sig vel eftir fallið, voru hinum megin grindverksins í skjóli af trjágróðri og fylgdust þaðan með atburðarásinni. Mögulega hafa þeir ætlað að fylgja á eftir hefði flóttatilraunin tekist vel hjá þeim sem klifraði yfir.

Vel var farið yfir málið á leikskólanum og verður niðurstaðan væntanlega sú að þremenningunum verður hér eftir ekki hleypt út á undan öðrum börnum en það hafði víst gerst í þessu tilviki, að sögn Gunnars.

Sá sem var gómaður á flóttanum hefur orð á sér fyrir að príla. Hann mun þurfa að bíða eftir að skoða heiminn.

ingibjorg@24stundir.is