VIÐ lærðum það samviskusamlega í skóla að fyrstu hljóðritunina hefði Thomas Alva Edison gert, árið 1877, og að það sem var hljóðritað var lagið Mæja átti lítið lamb .
VIÐ lærðum það samviskusamlega í skóla að fyrstu hljóðritunina hefði Thomas Alva Edison gert, árið 1877, og að það sem var hljóðritað var lagið Mæja átti lítið lamb .

Nú hafa amerískir hljóðsagnfræðingar fundið hljóðritun í Frakklandi þar sem mannsrödd syngur annað lag: Glettinn máninn gægist eða Au clair de la lune eins og það heitir á móðurmáli syngjandans og hljóðritandans. Hljóðritun Frakkans er 17 árum eldri en hljóðritun Edisons og vísindamenn segja hana ótvírætt elstu hljóðritun mannsraddarinnar sem nú er vitað um. Hún varir í um tíu sekúndur og var gerð 9. apríl 1860. Upptakan var gerð á græju sem kölluð var fónátógraf en hún ritaði hljóðin sjónrænt og ekki var hægt að spila þau aftur. Vísindamönnunum sem fundu upptökuna tókst hins vegar að afrita upptökuna og spila og kom þá lagstúfurinn í ljós. Yfirfærslan á hljóðrituninni var unnin í Lawrence Berkeley-rannsóknarstofunum í Berkeley í Kaliforníu

„Þetta er sögulegur fundur,“ hefur New York Times eftir Samuel Brylawski, fyrrum yfirmanni hljóðdeildar þingbókasafnsins í Washington. Höfundur fónátógrafsins hét Édouard-Léon Scott de Martinville og var prentsmiður og grúskari í París. Þegar hann lést var hann sannfærður um að Edison yrði ranglega eignaður heiðurinn af fyrstu hljóðritun mannsraddarinnar. Hljóðritunin verður frumflutt opinberlega á ráðstefnu hljóðritanasérfræðinga í Stanford-háskóla í Kaliforníu í dag.