Mygla getur verið hættuleg heilsunni.
Mygla getur verið hættuleg heilsunni.
Þóra Kristín Þórsdóttir thorakristin@24stundir.is „Ég veit um 5 til 6 tilfelli síðan í haust,“ segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sem rekur fyrirtækið Hús og heilsu, aðspurð um hve mörg heimili hafa eyðilagst af myglu í vetur.
Þóra Kristín Þórsdóttir

thorakristin@24stundir.is

„Ég veit um 5 til 6 tilfelli síðan í haust,“ segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sem rekur fyrirtækið Hús og heilsu, aðspurð um hve mörg heimili hafa eyðilagst af myglu í vetur. Hún bendir þó á að um algjör undantekningartilfelli sé að ræða og í flestum tilfellum sé auðvelt að losna við sveppinn.

Raki og lélegt loftstreymi

„Margar tegundir eru til af myglusveppum og ekki allar eitraðar. Flestar tegundir eru dökkar og sjást því vel þegar þær eru nokkuð vaxnar,“ segir Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur hjá Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hún segir yfirleitt vera um að ræða fleiri en eina tegund komi sveppurinn upp í híbýlum fólks, auk þess sem bakteríur og skordýr geti fylgt með.

„Í öllu lofti eru einhver gró myglusveppa. Þau geta ekki spírað án vatns og spíra því ekki innanhúss nema mikill raki sé til staðar og loftstreymi lítið. Komi sveppur upp er því mjög mikilvægt að koma í veg fyrir að sveppirnir nái í vatn og auka loftstreymi. Að auki þarf að hreinsa hús og búslóð vel og sótthreinsa það sem hægt er,“ að sögn Guðríðar Gyðu.

Einkennin margvísleg

Misjafnt er hversu vel fólk þolir að búa í mygluðu húsnæði. Þeir sem veikjast mikið geta myndað með sér óþol gagnvart sveppunum og verða því fyrir varanlegum skaða.

„Fyrstu einkennin geta oft verið svipuð og hjá fólki með frjókornaofnæmi, þ.e. nefrennsli og bólgur í kinn- og ennisholum, en annars geta þau verið margvísleg, t.d. sjóntruflanir, skert jafnvægi og raddleysi. Þess vegna getur oft verið erfitt að greina að þau stafi af myglusveppum,“ segir Guðríður Gyða. Til að skera úr um það bendir hún á að fólk geti prófað að fara að heiman í nokkra daga og athuga hvort einkennin batni. Snarversni þau við heimkomuna er líklegt að veikindin séu tengd húsnæðinu.

Í hnotskurn
Var stofnað til að vekja fólk til umhugsunar um hættuna sem stafar af því að búa í sýktu húsnæði. Fyrirtækið tekur sýni, gefur leiðbeiningar og bendir fólki á læknisfræðileg úrræði. Heimasíðan er www.husogheilsa.is.