[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í sland er vogunarsjóður, sem þykist vera land. Eða það gætu menn a.m.k. haldið eftir lestur brezku pressunnar í gær.
Í sland er vogunarsjóður, sem þykist vera land. Eða það gætu menn a.m.k. haldið eftir lestur brezku pressunnar í gær. Í langri grein í Financial Times er fjallað um „óvenjulegan söluleiðangur“ forsætisráðherra til New York til að reyna að sannfæra erlenda fjárfesta um að skuldatryggingarálag íslenzku bankanna sé alltof hátt. Blaðið vitnar í sérfræðing, sem sagði víst nýlega að Ísland væri „fyrsta landið sem væri rekið eins og vogunarsjóður“ og bendir á að þótt Geir Haarde þyki bæði álagið og umfjöllunin á markaðnum ósanngjörn, séu margir vestrænir bankar í sams konar ímyndarvanda og Ísland.

A mbrose Evans-Pritchard , einn reyndasti blaðamaður Daily Telegraph, segir í sínu blaði í gær að Ísland sé reyndar „meira en bara norrænn vogunarsjóður, sem þykist vera land. Það er líka fyrsta landið með gríðarlegan viðskiptahalla, sem lætur undan síga fyrir flótta fjárfesta og sendir aðvörunarmerki til margra landa í Austur-Evrópu og við Miðjarðarhafið.“ Þar er átt við að fjárfestar, sem hafa stundað svokölluð vaxtamunarviðskipti, muni leggja á flótta frá gjaldmiðlum ríkja á borð við Tyrkland og Lettland. Evans-Pritchard vitnar í sérfræðing hjá matsfyrirtækinu Fitch, sem bendir á hættuna á „sálfræðilegu smiti“ frá Íslandi, sem breiðist út um álfuna.

F réttastjóri Financial Times, Robert Shrimsley , slær öllu saman upp í stólpagrín í háðsdálkinum Notebook undir fyrirsögninni „Saving Iceland“ og kallar landið „risastóra vogunarsjóðinn undan vesturströnd Noregs“. Shrimsley segir forsætisráðherra hafa farið til Kína að reyna að selja þarlendum fjárfestingarsjóði 20% í kvenfatadeild Debenhams. Seðlabanki Evrópu hafi ákveðið að bjarga Íslandi þótt sjóðurinn starfi utan evrusvæðisins, af ótta við að brunaútsala á Íslandi myndi smita út frá sér til Skandinavíu og alla leið inn í Woolworths. Á móti fái Þýzkaland að innlima Ísland, en Danmörk mótmæli harðlega og vilji neyta forkaupsréttar! olafur@24stundir.is