Guðný Ingibjörg Bjarnadóttir fæddist á Skeiðflöt í Sandgerði 21. apríl 1927. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 17. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jónína Guðmundsdóttir, f. 1886, d. 1959 og Bjarni Jónsson, f. 1886, d. 1963. Systkini Ingibjargar eru Þóra Sigríður, f. 1921, Guðlaug Guðmunda, f. 1922, d. 1976, Sigrún, f. 1924, Helga Guðríður, f. 1927, d. 1991 og Sigursveinn Guðmann, f. 1928. Hálfsystir sammæðra er Þórunn Ólafía Benediksdóttir, f. 1912, d. 1964.

Ingibjörg giftist 26. nóvember 1949 Ásmundi Björnssyni, f. á Eskifirði 27. júlí 1924, d. 10. október 2007. Foreldrar hans voru Kristín Elsabet Ásmundsdóttir, f. 1898, d. 1973 og Björn Ingimar Tómas Jónasson, f. 1901, d. 1971. Börn Ingibjargar og Ásmundar eru: 1) Jón, f. 1950, búsettur í Sandgerði, kvæntur Helgu Karlsdóttur, börn þeirra eru a) Anna Björg, gift Guðmundi Vali Oddssyni, dætur þeirra Helga Valborg og Vala Katrín og b) Ásmundur, sambýliskona Ingibjörg Davíðsdóttir, sonur hennar er Davíð Þór. 2) Kristín, f. 1956, búsett í Vestmannaeyjum, gift Jóni Árna Ólafssyni, börn þeirra eru a) Ingibjörg Guðlaug, gift Jóni Garðari Steingrímssyni, b) Ingibjörn Þórarinn og c) Kristín Rannveig, 3) Ragnheiður Einarína, f. 1967, búsett í Hafnarfirði, gift Magnúsi Árnasyni, börn þeirra eru Lilja Björg, Arnar Helgi, Ásdís Inga og Magnús Fannar.

Ingibjörg og Ásmundur byggðu sér heimili að Vallargötu 7 í Sandgerði, þar sem þau bjuggu allan sinn búskap. Ingibjörg verður jarðsungin frá Safnaðarheimilinu í Sandgerði í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Í dag verður tengdamóðir mín Ingibjörg Bjarnadóttir, eða Imba eins og hún var alltaf kölluð, jarðsungin einungis um 5 mánuðum á eftir Ása, tengdaföður mínum. Ég skrifaði fáein minningarorð þegar tengdafaðir minn lést og svo samrýnd voru þau hjón að það liggur við að hægt væri að nota þá grein um Imbu líka enda oftar en ekki bæði nefnd á nafn í einu.

Það er margs að minnast þegar þeirra heiðurshjóna er minnst, en upp úr standa sennilega allar heimsóknirnar á Vallargötuna í Sandgerði og er ótrúlegt til þess að vita að eiga ekki eftir að setjast með þeim við eldhúsborðið. Alltaf var tekið á móti manni með kostum og kynjum og þó það væri verið að mæta í hádegismat á síðustu stundu var ekki annað tekið í mál en fá sér kaffisopa fyrst og helst eitthvað meðlæti með.

Það sem helst einkenndi tengdamóður mína var umhyggjan fyrir öðrum og þó að heilsan væri farin að gefa sig síðustu árin bar hún sig ávallt vel og vildi frekar vita hvernig aðrir hefðu það. Þá var hún ávallt skapgóð með afbrigðum og man ég ekki eftir að hún hafi nokkru sinni skipt skapi, helst þá þegar verið var að vinna í garðinum, sem var hennar ær og kýr, að hún lét í ljós smáóþolinmæði ef verkið gekk fullhægt fyrir sig.

Á kveðjustund vil ég þakka Imbu fyrir allt það sem hún gerði fyrir mig og mína fjölskyldu og þá sérstaklega umhyggju hennar gagnvart barnabörnunum. Alltaf voru þau ofarlega í hennar huga og helst vildi hún fá fréttir strax ef eitthvað var um að vera í þeirra lífi, s.s. próf eða kappleikir, og alveg var sama hvernig gekk, hún sá alltaf það jákvæða og var óspör að hrósa þeim. Hún var ekki sú amma sem sífellt var að gauka sætindum að barnabörnunum, afi sá meira um þá hlið, en passaði frekar upp á þau borðuðu matinn sinn og var aldrei ánægðari en þegar búið var að klára af diskinum. Og þá sá hún oftar en ekki um að þau ættu húfur og vettlinga enda prjónaði hún mikið sjálf á árum áður.

Nú hefur hann Ási tengdafaðir minn aftur endurheimt hana Imbu sína eftir skamman aðskilnað og hefur örugglega tekið vel á móti henni. En eftir sitjum við hin og yljum okkur við allar góðu minningarnar um heiðurshjónin Imbu og Ása. Imba, tengdamóðir mín, var trúuð kona og því við hæfi að segja að lokum;

Guð blessi minningu Imbu og Ása.

Magnús Árnason.

Mig langar að minnast ömmu minnar í Sandgerði með nokkrum orðum. Ég fyllist þakklæti þegar ég lít til baka og rifja upp minningar tengdar ömmu. Ég hef ávallt verið stolt að bera nafnið hennar ömmu því að ekki er leiðum að líkjast. Hún amma mín var ein besta manneskja sem ég hef hitt. Manngæskan og hlýjan streymdi frá henni.

Það var alltaf svo gott að koma á Vallargötuna til hennar og afa. Mínar dýrmætustu minningar tengdar ömmu og afa eru þegar ég sat hjá þeim í eldhúsinu og amma eldaði handa mér kakósúpu, sem var besta kakósúpa sem hægt var að fá og afi muldi tvíböku út á fyrir mig. Þetta er ein af mörgum dýrmætum minningum sem ég mun ávallt varðveita.

Amma var alltaf svo stolt af okkur barnabörnunum og hrósaði okkur ávallt fyrir allt sem við gerðum. Það voru mikil forréttindi að eiga hana sem ömmu. Það er erfitt að hugsa til þess að ég hitti ekki ömmu aftur og fái að faðma hana.

En ég veit að hún er núna með afa sem hún þráði svo að hitta aftur. Og þau munu fylgjast með okkur áfram í lífinu eins og þau hafa alltaf gert.

Ég vil kveðja ömmu með bæninni sem hún kenndi mér þegar ég var lítil.

Vertu, guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

(Hallgrímur Pétursson.)

Guð og lukkan veri með þér amma mín.

Þín nafna og ömmustelpa,

Ingibjörg Guðlaug.

Elsku amma mín er nú búin að kveðja þennan heim. Amma í Sandgerði var frábær kona sem vildi öllum vel. Alltaf þegar við komum til ömmu og afa áttu þau eitthvað gotterí og voru þau ófá skiptin sem maður kom til þeirra og fékk heitar pönnukökur sem amma var best í að gera. Þegar ég var lítil kenndi hún mér faðirvorið og aðrar góðar bænir og var hún svo þolinmóð enda hafði hún alltaf tíma fyrir okkur barnabörnin.

Síðasta sem amma sagði alltaf við mann þegar maður fór frá henni eða talaði við hana í símann voru þessi fallegu orð ,,Guð og lukkan veri með þér“ og verða þau í huga mér alla ævi. Núna er hún amma mín komin á betri stað til hans afa.

Vertu, guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

(Hallgrímur Pétursson.)

Guð blessi þig, elsku amma mín.

Þín ömmustelpa,

Kristín Rannveig.

Elsku amma mín, það er ótrúlegt að hugsa um það að þú skulir vera farin og komir ekki aftur. Það virðist vera svo stutt síðan þú og afi komuð til okkar í Hafnarfjörðinn með fullt að góðgæti úr bakaríinu. Ég kem til með að sakna þín mikið en veit að ég get alltaf hugsað um allar þær góðu stundir sem ég átti með þér. Þú beiðst alltaf spennt eftir að vita hvernig okkur systkinunum hefði gengið í prófum og vildir alltaf vita hvernig okkur gengi í skólanum. Þegar við komum í heimsókn á Vallargötuna og þú varst að baka pönnukökur eða elda læri handa okkur. Mest fannst mér samt gaman þegar þú varst að reyna að kenna mér að prjóna og sauma. Ég veit að þú ert ánægð núna af því að þú ert með afa sem þú hefur saknað mikið. Það sem þú hefur gefið okkur gleymist aldrei og þú munt aldrei fara úr hjörtum okkar. Þín

Lilja Björg.

Ekki eru nema fimm mánuðir síðan við kvöddum Ásmund mág minn og í dag fylgjum við Ingibjörgu ekkju hans til grafar. Leiðir okkar lágu saman í tæpa fjóra áratugi frá því að ég kom í fyrstu heimsóknina á Vallargötuna með Olgu yngstu systur Ása. Ekkert hefur skyggt á samband okkar síðan, það einkenndist af sannri vináttu.

Þau Imba og Ási voru í sjálfu sér ekkert sérstaklega líkar persónur þó þau féllu svo vel saman sem hjón, að nafn annars kemur ekki upp í huga manns án þess að hitt fylgi með. Allir sem komu á heimili þeirra fengu að njóta gestrisni þeirra og oft fannst manni ótrúlegt hvað hægt var að koma miklum veitingum á eldhúsborðið hennar Imbu þó að gesti hafi borið óvænt að garði. Að sjálfsögðu varð maður að þiggja kaffi og með því ef maður kom í heimsókn og húsráðendum fannst nú eiginlega ekki nógu gott ef maður þurfti að fara áður en maður borðaði kvöldmatinn með þeim. Stundum fannst manni Ási mágur minn vera nokkuð tilætlunarsamur við Imbu sína þegar hún var að taka til kaffi; þá kom kannski allt í einu athugasemd frá honum, hvað er þetta Imba, áttu ekki til pönnukökur? Ekki liðu þá margar mínútur þangað til nýbakaðar pönnukökur voru framreiddar.

Ekki get ég neitað því að oft hafði maður lúmskt gaman af þessum samskiptum þeirra hjóna, hvað Ása gat dottið í hug og Imba uppfyllti óskir hans og fannst það alveg eðlilegt. Maður gerði sér líka grein fyrir því að í þessu kom samband þeirra fram í hnotskurn, samband hjóna sem einkenndist af virðingu og væntumþykju. Samband þeirra var svo sterkt að maður gerði sér grein fyrir því að það yrði mjög erfitt fyrir það þeirra sem eftir lifði þegar hitt hyrfi á braut. Það kemur manni því ekki á óvart að ekki skyldu líða nema nokkrir mánuðir á milli andláta þeirra hjóna.

Mér hefur orðið tíðrætt um hversu gott var að heimsækja þau Imbu og Ása, en ekki var síðra að fá þau í heimsókn. Við Olga urðum þeirra ánægju aðnjótandi, sérstaklega meðan við bjuggum austur í Vík að fá reglulega heimsóknir þeirra hjóna. Þau voru alltaf aufúsugestir og ekki síst hjá krökkunum okkar því aðrar eins barnagælur var erfitt að finna eins og þau Imba og Ási voru. Frá þeim fundu allir góðmennskuna og umhyggjuna streyma og ekki þá síst smáfólkið sem dáði þetta frændfólk sitt.

Síðustu árin var aldurinn farinn að setja mark sitt á heilsufar þeirra Imbu og Ása. Nú eru þau bæði farin frá okkur, það er gangur lífsins og ekkert við því að segja. Við sem eftir erum kveðjum nú elskulega konu, Ingibjörgu Bjarnadóttur, sem gaf öllum sem nálægt henni voru mikla hlýju og umhyggju. Vonandi hefur Imba nú hitt Ása sinn aftur og saman fylgjast þau úr fjarlægð með afkomendum sínum.

Börnum Imbu og Ása, þeim Nonna, Stínu og Ragnheiði svo og tengdabörnum og afkomendum þeirra sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þinn svili,

Jón Ingi Einarsson.

Okkur langar með örfáum orðum að minnast okkar elskulegu frænku, Ingibjargar Guðnýjar, eða Imbu eins og við ávallt kölluðum hana.

Við vorum tíðir gestir á heimili Imbu og Ása á uppvaxtarárum okkar og þangað var alltaf notalegt að koma. Við lékum okkur mikið með Ragnheiði og var farið í hina ýmsu leiki á Vallargötu 7. (Það var mikið leikið sér á Vallargötu 7 í snúsnú, fallin spýta, brennó, teygjó, yfir og fleiri góðum leikjum). Okkur fannst Ragnheiður vera svaka heppin að eiga pabba sem átti svona flottan og stóran vörubíl og það var sko spennandi þegar okkur bauðst að fara rúnt í vörubílnum með Ása. Imba var frábær húsmóðir og það var sko alltaf til eitthvað gott í skápunum hjá henni (Imbu).

Imba og Ási voru einstök hjón, það var alltaf gaman að hitta þau og þægilegt að vera í kringum þau, góðmennskan hreinlega skein af þeim. Ási hafði mikið gaman af góðlátlegu sprelli og Imba átti auðvelt með að hlæja dátt. Þau voru líka alltaf áhugasöm um það sem maður var að gera, fylgdust vel með, og eftir að við uxum úr grasi þá fylgdust þau líka með okkar börnum.

Það er mikill söknuður sem maður finnur fyrir að kveðja þau Imbu og Ása. Það var stutt á milli þess að þessi ágætu hjón kvöddu okkur, en með fullri vissu getum við sagt að þau séu nú sameinuð á ný á góðum stað.

Það er erfitt að missa tvo góða einstaklinga með svona stuttu millibili, en svona er víst lífið, við vitum aldrei hver verður næstur. Það er nokkuð víst að þeirra verður sárt saknað á Túngötu 13. Það var svo sérstakt samband á milli þeirra í gegnum árin, þau hugsuðu svo vel hvort um annað. Í öllum þeim veikindum sem þau hafa gengið í gegnum þá hafa þau staðið þétt við bakið hvort á öðru, þau voru sannir vinir.

Maður getur með stolti sagt að maður sé frá Skeiðflatarættinni í Sandgerði. Systkinin frá Skeiðflöt eru einstakar manneskjur sem vekja hjá manni einungis góðar minningar.

Kæra fjölskylda, minningin um Imbu og Ása lifir lengi. Elsku Nonni og Helga, Stína og Jón, Ragnheiður og Maggi og fjölskyldur, við viljum senda ykkur okkar ljúfustu kveðjur.

Kristjana Hildur Gunnarsdóttir og Inga Sigursveinsdóttir (Kiddý og Inga).

Í dag er til moldar borin heiðurskonan og mannvinurinn Guðný Ingibjörg Bjarnadóttir, en hún lést á Sjúkrahúsi Keflavíkur þann 17. mars síðastliðinn. Ekki eru nema rétt rúmir fimm mánuðir liðnir frá láti eiginmanns hennar, Ásmundar Björnssonar, en eftir að hann féll frá má segja að lífslöngun Imbu hafi dvínað til muna, enda ást og umhyggja þeirra hjóna fyrir hvort öðru með eindæmum.

Imbu hef ég þekkt alla tíð og fyrir fáum hef ég borið eins mikla virðingu og henni. Hún var heilsteyptur persónuleiki, prýdd miklum mannkostum sem einkum birtust í einstakri góðmennsku, velvilja og glaðværð ásamt ómældri umhyggju og áhuga á fjölskyldu jafnt sem öðrum samferðamönnum. Hún var hógvær höfðingi heim að sækja og kunni hún þá list að láta fólki líða vel í kringum sig og finnast það vera einhvers virði.

Lífshlaupi Imbu verður ekki gerð skil hér, aðeins skulu færðar fram þakkir fyrir viðkynnin. Börnum Imbu og Ása, tengdabörnum, barnabörnum og öðrum ættingjum og vinum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minning um góða konu mun seint fölna.

Helga Björnsdóttir.