Vilhjálmur Vilhjálmsson, einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar, lést á þessum degi fyrir 30 árum, langt fyrir aldur fram. Í minningu hans verður efnt til tónleika í Salnum í Kópavogi í kvöld.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar, lést á þessum degi fyrir 30 árum, langt fyrir aldur fram. Í minningu hans verður efnt til tónleika í Salnum í Kópavogi í kvöld. Aukatónleikar verða á laugardag og á sunnudag og er uppselt á alla tónleikana þannig að ljóst er að tónlist Vilhjálms lifir enn með þjóðinni.

„Vilhjálmur snerti streng í hjarta okkar allra með sínum flutningi. Þessi flutningur hans lifir vel og virðist ná til fólks á öllum aldri,“ segir Grétar Örvarsson, tónlistarmaður sem stendur að tónleikunum ásamt fleirum.

Söngvararnir Stefán Hilmarsson, Pálmi Gunnarsson, Friðrik Ómar og Guðrún Gunnarsdóttir spreyta sig á lögum Vilhjálms og njóta fulltingis hljómsveitar, strengjasveitar og kórs. Ásgeir Tómasson flytur minningarorð en annars segir Grétar að lögin muni tala sínu máli. „Við höldum okkur alveg við upprunalegar útsetningar laganna. Ég held líka að þannig vilji fólk heyra þau,“ segir Grétar Örvarsson að lokum.

Ákveðið hefur verið að halda fleiri aukatónleika næstu helgi vegna mikils áhuga og verða þeir nánar auglýstir síðar.