Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar: „Stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (ÞK) fagnar niðurstöðu stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á starfsemi ÞK, enda telur Ríkisendurskoðun...
Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar:

„Stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (ÞK) fagnar niðurstöðu stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á starfsemi ÞK, enda telur Ríkisendurskoðun í öllum tilfellum ljóst að ÞK hafi staðið eðlilega að sölu eigna á Keflavíkurflugvelli.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfestir að ÞK hafi haft fullt umboð til sölu og umsýslu eigna íslenska ríkisins á Keflavíkurflugvelli, án aðkomu Ríkiskaupa. Þróunarfélaginu bar því ekki skylda til þess að bjóða eignirnar út.

Ríkisendurskoðun telur hagsmuna ríkisins hafa verið gætt við sölu eigna á svæðinu. Hæstu tilboðum var nánast undantekningarlaust tekið. Í þeim tilvikum sem hæsta tilboði var ekki tekið var það gert með heildarhagsmuni svæðisins að leiðarljósi.

Þróunarfélagið telur að hagsmunum ríkisins hafi verið gætt með samningum um breytingar á raflögnum á svæðinu. Kaupendur fasteigna á Keflavíkurflugvelli yfirtóku eignirnar í því ástandi sem þær voru við undirritun kaupsamnings. Veittur var eðlilegur afsláttur af kaupverði vegna lögbundinna skuldbindinga vegna raflagna.

Stjórn ÞK undirstrikar að hún óskaði eftir því að Kjartan Þ. Eiríksson, framkvæmdastjóri félagsins, fengi sæti í stjórn Keilis. Það var gert til þess að tryggja hagsmuni ÞK með tilliti til eignarhluta þess í Keili og vegna hlutverks Keilis við þróun og uppbyggingu svæðisins.

Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við umboð sem stjórn ÞK gaf framkvæmdastjóra félagsins. Þetta telur stjórn Þróunarfélagsins á misskilningi byggt. Í umboði stjórnarinnar til framkvæmdastjórans felst heimild til þess að ganga skriflega frá samningum sem stjórn félagsins hefur samþykkt. Að auki felst í umboðinu heimild til að ganga frá skipulagsskjölum eigna á umráðasvæði félagsins. Í umboðinu er á engan hátt verið að framselja framkvæmdastjóra félagsins vald stjórnar, enda er samþykki stjórnar félagsins til grundvallar öllum viðskiptum félagsins.

Stjórn Þróunarfélagsins stendur á bak við allar ákvarðanir félagsins og Kjartan nýtur fulls trausts stjórnar ÞK, enda hefur hann unnið verk sitt af áberandi dugnaði og mikilli samviskusemi.

Þegar ÞK tók til starfa fyrir einu og hálfu ári var verðmæti eigna ríkisins á Keflavíkurflugvelli metið á 4 til 5 milljarða króna, samkvæmt samningi ríkisins við bandarísk stjórnvöld. Nú er það metið á þriðja tug milljarða króna vegna vel heppnaðrar stefnumörkunar Þróunarfélagsins. Búið er að selja um 70% fasteignanna.

Á svæðinu búa nú um 1200 Íslendingar. Fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli iðar nú af lífi og fjöldi fyrirtækja, þar með talið öflugt netþjónabú, óskar eftir því starfa á svæðinu.“