Hjörleifur og Egill „Ég hef mikinn áhuga að fara lengra með þessar hugmyndir,“ segir Hjörleifur.
Hjörleifur og Egill „Ég hef mikinn áhuga að fara lengra með þessar hugmyndir,“ segir Hjörleifur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is ÞEIR félagar, Egill og Hjörleifur, hafa búið í Berlín lengi vel en þetta er í fyrsta skipti sem um verulega samvinnu þeirra á milli er að ræða.
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

ÞEIR félagar, Egill og Hjörleifur, hafa búið í Berlín lengi vel en þetta er í fyrsta skipti sem um verulega samvinnu þeirra á milli er að ræða. Egill hefur fyrir löngu skapað sér nafn sem einn framsæknasti listamaður landsins og Hjörleifur hefur nú stýrt slagverkshópnum Percusemble Berlin í 11 ár en hópurinn hefur einbeitt sér að flutningi á nútímatónlist. Samvinnuverkefni Egils og Hjörleifs kallast Inselhopping eða Eyjastökk og verður flutt á Listahátíð, mánudaginn 19. maí.

Teygt og togað

Egill rifjar upp að Hjörleifur hafi tekið þátt í verkefni með honum fyrir löngu síðan en þar hafi ekki verið um náið samstarf að ræða. Hjörleifur segir að Eyjastökkið hafi hins vegar verið að gerjast hjá þeim í nokkur ár og þeir hafi rætt það mikið sín á milli. „Ég lagði þetta síðan fyrir Þórunni Sigurðardóttur hjá Listahátíð og henni leist vel á. Við fórum síðan í að fjármagna verkið og fluttum það fyrst úti í Berlín síðasta haust.“

Eyjastökk gengur þannig fyrir sig að flutt eru verk eftir átta tónskáld frá Írlandi, Berlín og Íslandi sem skrifuðu verkin sérstaklega fyrir þetta verkefni. Egill sér svo um að vinna með umhverfi tónlistarflutningsins og gerir tilraun með að teygja og toga viðteknar hugmyndir um hvernig flutningur á tónlistarverkum gengur fyrir sig. Egill nýtir sér þannig t.d. vídeótækni en skrifar auk þess leiðbeiningar fyrir tónlistarmennina, hvernig þeim ber að athafna sig við flutninginn. „Ég bý þannig í raun til „score“ eða nótur sem fella sig að flutningnum. Sá partur er jafn mikill hluti af tónlistinni og það sem þú heyrir, þetta er ekki viðbót heldur samþættist öllu ferlinu.“

Mikið flug

Hjörleifur segir að þeir félagar hafi farið á mikið flug við þessa vinnu og möguleikarnir til nýbreytni á þessu sviði séu svo gott sem óþrjótandi. „Ég hef mikinn áhuga á að fara lengra með þessar hugmyndir, ég er farinn að finna mig ríkulega í svona „performance art“ eða gjörningum og vinna á einhverjum óljósum mörkum listgreina. “

Á efnisskránni eru verk eftir írska tónskáldið Ed Bennett, Berlínartónskáldin Jeremy Woodruff og Helmut Zapf og íslensku tónskáldin Úlfar Haraldsson, Atla Heimi Sveinsson og Pál Ívan Pálsson. Í verkum Atla Heimis og Helmuts Zapf leikur Freyja Gunnlaugsdóttir einleik á klarínettu en hún er, eins og strákarnir, búsett í Berlín.