Kór Langholtskirkju flutti verk eftir Edward Elgar, Trond Kverno, June Nixon, W. A. Mozart og J. S. Bach auk verka eftir íslenska höfunda. Rými kirkjunnar var skreytt myndverkum sem tengjast föstunni. Kóreógrafía: Aðalheiður Halldórsdóttir.

Kór Langholtskirkju flutti verk eftir Edward Elgar, Trond Kverno, June Nixon, W. A. Mozart og J. S. Bach auk verka eftir íslenska höfunda. Rými kirkjunnar var skreytt myndverkum sem tengjast föstunni. Kóreógrafía: Aðalheiður Halldórsdóttir. Upplesarar: Hjörtur Pálsson og Gunnar Stefánsson. Orgelleikur: Lára Bryndís Eggertsdóttir. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Stjórnandi: Jón Stefánsson. Föstudagurinn langi.

ÉG var ekki alveg viss um hvort ég væri á tónleikum í Langholtskirkju að kvöldi föstudagsins langa.

Jú, vissulega var Kór Langholtskirkju að syngja kunnuglega tónlist og vissulega var Jón Stefánsson að stjórna. En allt yfirbragð tónleikanna minnti meira á helgiathöfn; kórfélagar hreyfðu sig um kirkjuna á óvanalega markvissan hátt og meira að segja mynduðu kross í lok tónleikanna. Sjálf tónlistin hafði líka á sér hugleiðslukenndan blæ og upplestur þeirra Gunnars Stefánssonar og Hjartar Pálssonar á ljóðum á borð við Á föstudaginn langa eftir Davíð Stefánsson og Í styrjöldinni eftir Hannes Pétursson undirstrikaði þetta andrúmsloft íhugunar. Og dauf lýsingin í kirkjunni, auk myndverka sem tengjast föstunni, jók enn á stemninguna.

Í sjálfu sér var þessi uppákoma prýðilega heppnuð. Kórinn söng sérlega fallega og þeir örfáu tæknilegu vankantar sem voru greinanlegir gerðu lítið til því túlkunin var svo hástemmd og innileg. Orgelleikur Láru Bryndísar Eggertsdóttur var líka framúrskarandi, hreyfingar kórsins voru fumlausar og fullar af merkingu og lýsingin var notaleg. Þarna var frábært tækifæri til að sita í kyrrð og ró og hugleiða krossfestinguna.

Eða hvað? Þátttakendur stilltu sér upp í lokin til að taka á móti lófataki, sem kom verulega á óvart. Það var nánast eins og að fara í jarðarför þar sem klappað væri fyrir prestinum á eftir.

Nú veit ég vel að þessir tónleikar voru hugsaðir sem eins konar listaflétta, þ.e. ekki aðeins tónleikar heldur listupplifun þar sem nokkur listform voru fléttuð saman. Og auðvitað er sjálfsagt að hylla listafólkið á eftir slíkum gjörningi.

Málið var hins vegar að listafléttan hafði á sér svo sterkan blæ helgiathafnar að erfitt var að líta á hana eingöngu sem listviðburð. Ég er því á þeirri skoðun að betur hefði farið á því að biðja tónleikagesti um að klappa ekki í lokin, líkt og gert er í Skálholtskirkju. Það hefði gert upplifunina fullkomna. Tónlistin hefði bara endað í þögn og fólk hefði getað haft kyrrðarstund í nokkur augnablik á eftir. Þögnin hefði orðið hluti af listafléttunni.

Lófatakið þarna um kvöldið var líka furðulega dræmt, nánast vandræðalegt. Sennilega vildu fleiri sitja í kyrrð og ró en bara ég.

Jónas Sen