Grænmetisætan Natalía Chow Hewlett notar mikið af tófú í sína matargerð sem unnið er úr sojabaunum.
Grænmetisætan Natalía Chow Hewlett notar mikið af tófú í sína matargerð sem unnið er úr sojabaunum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kínverski kórstjórnandinn, organistinn og óperusöngkonan Natalia Chow Hewlett kennir Íslendingum að elda gómsæta grænmetisrétti með kínversku ívafi. Jóhanna Ingvarsdóttir sótti Natalíu heim á Álftanesið.
Tófústeikur, graskerspottréttir, steiktar hrísgrjónanúðlur með grænmeti, baunasúpa, svartur hrísgrjónagrautur og gulrótarsúpa með tófúblöðum er meðal þeirra rétta sem kínverski kórstjórnandinn Natalía Chow Hewlett er að kenna Íslendingum að búa til á vinsælum námskeiðum í kínverskri grænmetismatargerð.

Natalía hefur verið búsett á Íslandi undanfarin sextán ár og starfar sem organisti, óperusöngkona og kórstjórnandi. Hún fæddist í Kanton í Kína, en ólst upp í Hong Kong.

Sjálf hefur Natalía verið grænmetisæta í sjö ár og á þeim tíma hefur hún þróað fjölbreytta grænmetisrétti, sem kitlað geta bragðlaukana. Réttirnir, sem eru bæði hollir og næringaríkir, eru að hluta til unnir úr hráefni, sem Íslendingar þekkja kannski ekki við fyrstu sýn en til er í íslenskum verslunum og þá er upplagt að skella sér á námskeið til Natalíu til að kynnast framandi matarhefðum.

„Mataræðið mitt byggist fyrst og fremst upp á grænmeti og ávöxtum. Ég nota ekki sykur, hvítt kolvetni eða kraft í mína matreiðslu. Við kaupum hvorki kúamólk né aðrar mjólkurvörur að frátöldum osti. Egg kaupum við eingöngu brún eða svokölluð hamingjuegg úr hænum, sem fá að ganga um frjálsar,“ segir Natalía og bætir við að eiginmaðurinn Julian Hewlett hafi eingöngu verið á grænmetisfæði undanfarin 22 ár. „Áður en ég gerðist algjör grænmetisæta hafði ég margoft kosið grænmetisrétti fram yfir kjöt- og fiskrétti. Mér finnst erfitt að tyggja kjöt og get barasta ekki lagt mér feitt kjöt til munns. Og mér er það algjörlega hulin ráðgáta hvernig í ósköpunum þið Íslendingar getið borðað hinn margrómaða íslenska þorramat. Mér líður hins vegar afskaplega vel á grænmetisfæðinu.“

Allt að tíu manns komast á hvert námskeið, sem Natalía heldur í rúmgóðu eldhúsinu heima hjá sér. Námskeiðið stendur yfir eina kvöldstund og þá eru gjarnan eldaðir allt að tíu réttir, sem allir fá að smakka á. Daglegt líf fékk tvær tófú-uppskriftir hjá Natalíu og nú er bara um að gera að prófa sig áfram með hollustuna. Tófú er unnið úr sojabaunum.

Tófústeik með hnetusósu

2 pakkar tófú

2-3 msk fimm krydd (kínverskt krydd, fæst í Asian á Suðurlandsbraut)

1 haus saxaður hvítlaukur

2-3 msk ljós sojasósa

1-2 msk jurtaolía

nokkrir dropar af sesamolíu

Skerið tófú í eins cm þykkar sneiðar. Látið marinerast í fimm krydda blöndunni, hvítlauk og sojasósu, helst yfir nótt.

Penslið tófú með olíu og bakið í ofni í 30 mín. við 180°C eða uns það er orðið brúnað á báðum hliðum. Færið tófústeikina upp á disk, skreytið með gúrkusneiðum og látið nokkra dropa af sesamolíu yfir steikina.

Sósa

2 msk hnetusmjör

1/4 bolli sojamjólk

1 tsk ljós sojasósa

nokkrir dropar af sesamolíu

Hrærið hnetusmjör í mjólkina og hitið blönduna í potti. Lækkið hitann og látið malla uns sósan er orðin þykk. Bragðbætið með sojasósu og sesamolíu. Berið fram með tófústeikinni.

Ma Po tófú

1 pakki mjúkt tófú

20 g þurrkað sojahakk, lagt í sjóðandi vatn

1 rauður chilli

1 msk saxaður engifer

1 msk saxaður hvítlaukur

ferskur kóríander

1-2 tsk soyasósa

nokkrir dropar af sesamolíu

Sósa

1 msk ljós sojasósa

1 tsk chillisósa

1 tsk hunang

2 tsk maísmjöl

2 dl vatn

Skerið tófú í litla teninga. Skerið niður chilli. Sigtið vatnið af sojahakkinu og marínerið sojahakkið í sojasósunni og sesamolíunni.

Hitið pönnu með olíu. Steikið engifer, hvítlauk og chilli. Bætið tófúinu við og steikið vel. Bætið sojahakkinu svo út í.

Blandið því sem fara á í sósuna vel saman og bætið sósunni út í.

Látið malla í smástund uns sósan er orðin þykk. Setjið nokkra dropa af sesamolíu út í. Skreytið með ferskum kóríander. Berið réttinn fram með hrísgrjónum.

join@mbl.is

englakor.googlepages.com