Guðrún Kvaran fæddist í Reykjavík 15. mars 1921. Hún lést á bráðadeild Landspítalans 15. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru reykvísku hjónin Ólafía Gísladóttir, húsfreyja, f. 13.12. 1897, d. 24.8. 1970 og Vilhjálmur Þorsteinsson, stýrimaður, f. 26.2. 1895, d. 11.2. 1940.

Eiginmaður Guðrúnar var Böðvar Kvaran, f. 17.3. 1919, d. 16.9. 2002, sonur hjónanna Elínborgar Kvaran frá Akranesi, f. 9.4. 1895, d. 3.2. 1974 og Einars E. Kvaran, aðalbókara Útvegsbanka Íslands, f. 9.8. 1892, d. 24.8. 1960. Þau Guðrún og Böðvar giftu sig 21.11. 1942. Þau eignuðust sjö börn og eru sex þeirra á lífi: 1) Guðrún, prófessor og sérfræðingur við Háskóla Íslands, f. 21.7. 1943, gift Jakobi Yngvasyni, prófessor í Vínarborg, f. 23.11. 1945. Börn þeirra eru Böðvar Yngvi, f. 12. 2. 1977, og Steinunn Helga, f. 26.4. 1981. 2) Elínborg Valdís, f. 5.12. 1944, d. í ágúst 1945. 3)Vilhjálmur, dreifingarstjóri hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar, f. 18.6. 1946, kvæntur Helgu Pálu Elíasdóttur, fulltrúa, f. 24.5. 1948. Börn þeirra eru: a) Vilhjálmur f. 8.1. 1971, maki Gerður Pálmarsdóttir, b) Elínborg Valdís f. 16.7. 1975, sambýlismaður Leifur Arnar Kristjánsson, og c) Guðrún, f. 17.1. 1985. 4) Einar, verslunarmaður, f. 9.11. 1947, kona hans Kristín S. Kvaran, verslunarmaður, f. 5.1. 1946, d. 28.10. 2007. Börn þeirra: a) Bertha Guðrún f. 21.7. 1964, sambýlismaður Jón Þ. Ólafsson, b) Ragna Elíza, f. 29.1. 1974, sambýlismaður Egill Erlendsson, og c) Thelma Kristín, f. 19.9. 1984, sambýlismaður Ingvar B. Jónsson. 5) Böðvar, húsgagnasmíðameistari, f. 27.11. 1949, kvæntur Ástu Árnadóttur, deildarstjóra, f. 16.10. 1949. Börn þeirra: a) Árni, f. 30.8. 1970, maki Arndís Lilja Guðmundsdóttir, og b) Guðrún, f. 21.2. 1974, sambýlismaður Örvar Sær Gíslason. 6) Hjörleifur, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, f. 3. 3. 1951, maki 1, Kolbrún Sveinsdóttir, þýðandi, f. 14. 9. 1951, dóttir þeirra Hjördís Ísabella, maki 2, Anna Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarkona umhverfisráðherra, börn hennar Lísa Margrét, f. 3.7. 1987, Eysteinn, f. 14.12. 1990, og Bjarki f. 13.1. 1997. 7) Gísli, múrarameistari, f. 9.12. 1952, kvæntur Önnu Alfreðsdóttur, aðstoðarkonu tannlæknis, f. 26.3. 1951, Börn þeirra: a) Hallgrímur f. 15. 12. 1969, kona hans Margrét Jóna Sigurðardóttir, d. 10. 8. 2006, og b) Valdís f. 18.11. 1975, maki Alfreð Freyr Karlsson. Barnabarnabörn Guðrúnar og Böðvars eru 21.

Guðrún ólst upp í hjarta borgarinnar og æskuheimili hennar var á Laugavegi 38 b. Hún lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands 1948, starfaði um skeið í Útvegsbanka Íslands þar sem leiðir þeirra Böðvar lágu saman. Guðrún og Böðvar bjuggu alla sína hjúskapartíð á Sóleyjargötu 9 og þar voru börn þeirra fædd. Söfnun var sameiginlegt áhugamál þeirra Guðrúnar og Böðvars og á heimili þeirra getur að líta margt fágætra muna frá ferðum þeirra erlendis. Saman söfnuðu þau hjón bókum, blöðum og tímaritum sem þau umgengust af mikilli virðingu. Bókband var einnig sameiginlegt áhugamál þeirra og blaða- og tímaritasafn þeirra var talið eitt hið stærsta í eigu einstaklinga hér á landi, jafnvel miðað við opinber söfn.

Útför Guðrúnar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku mamma,

við viljum þakka þér fyrir alla þær ánægjustundir sem við höfum átt saman. Þú hafðir einstaklega góða nærveru, sýndir öllum sem í kringum þig voru mikla umhyggju og virðingu. Þú varst stórglæsileg kona, ávallt svo fín og vel til höfð – svo eftir var tekið. Það voru ófáar ferðirnar sem við fórum saman til Flórída, en þar leið okkur öllum svo vel. Þín verður sárt saknað.

Elsku mamma og tengdamamma, takk fyrir allt sem þú varst okkur og börnum okkar. Minning þín mun lifa með okkur um ókomin ár.

Ég veit, að þú ert þar og hér,

hjá þjóðum himins, fast hjá mér,

ég veit þitt ómar ástarmál

og innst í minni veiku sál.

(E.H. Kvaran.)

Hvíl þú í friði,

Böðvar og Ásta.

Mig langar í örfáum orðum að kveðja, tengdamóður mína Guðrúnu Kvaran (Lillu), sem á 87. afmælisdaginn sinn hinn 15. marz sl., fallegum og sólríkum degi, með vorangan í lofti, kvaddi þennan heim. Ekki óraði okkur svilkonurnar og syni hennar, sem ætluðum að heimsækja hana á Landspítalann á afmælisdaginn, en þar hafði hún, eftir að hafa kennt sér meins aðfaranótt laugardags, verið lögð inn til rannsóknar, en hún dvaldi á Hjúkrunarheimilinu Eir, að örlögin myndu grípa svo snöggt í taumana. Hún hafði hlakkað svo til að koma í afmælisveisluna sína á laugardeginum, sem hafði verið undirbúin, og fermingu langömmubarns á sunnudag, en tengdamóður minni hafði verið ætlað öllu lengra ferðalag en það sem undirbúið hafði verið.

Ég kynntist Lillu fyrir hartnær 40 árum, er ég ung og feimin stúlka, kom með eiginmanni mínum, Vilhjálmi á æskuheimilið hans Sóleyjargötu 9 (,,Sóló“), þar tók á móti mér, grannvaxin og fíngerð kona, með glettnislegt bros og djúpu spékoppana sína, og bauð mig svo hjartanlega velkomna, að mér hvarf strax öll feimni. Hún afsakaði sig og sagðist vera að ,,breyta“. Lilla naut þess að fegra í kringum sig, af einskærri næmi og smekkvísi gerði hún hinar ótrúlegustu breytingar á ,,Sóló“. Hún var einstaklega handlagin og hafði næmt auga fyrir listmunum og handverki, eins og þeirra fallega heimili ber vitni um. ,,Sóló“ var mikið menningarheimili, og oft voru þar heimsmálin krufin til mergjar, þau hjónin nutu mjög góðra samvista og tókst að skapa fágætan fjölskylduanda og voru samhent með afbrigðum. Oft var glatt á hjalla á ,,Sóló“ í jólaboðunum á jóladag þar sem stórfjölskyldan hittist, enda ættboginn stór, sem kominn var af þeim hjónum, en bæði voru þau Lilla og Böðvar einbirni. Börnin voru 7, þar af sex á lífi, barnabörnin 13 og langömmubörnin 21. Amma Lilla hélt vel utan um hópinn sinn, og fylgdist vel með ferli þeirra af umhyggju og ástúð, ,,Sóló“ var alla tíð miðstöð fjölskyldunnar og þangað var alltaf gott að koma.

Elsku Lilla mín, það er margs að minnast á kveðjustund, vil ég þakka þér fyrir allar okkar góðu samverustundir gegnum árin og skemmtilegu haustferðirnar til Flórída, þar sem þér og Böðvari leið alltaf svo vel. Þín verður sárt saknað, en ljúf minning þín mun lifa um ókomin ár.

Þín tengdadóttir,

Helga Pála Elíasdóttir.

Guðrún tengdamóðir mín fékk friðsælt andlát á áttugasta og sjöunda afmælisdag sinn 15. mars síðastliðinn. Hún hafði þá dvalist á sjúkrastofnunum til endurhæfingar eftir beinbrot frá því í nóvember á síðastliðnu ári. Stóðu vonir til að hún mundi senn geta farið aftur á heimili sitt á Sóleyjargötunni sem hún saknaði þrátt fyrir frábæra umönnun hjúkrunarfólksins á Eir. Við Guðrún dóttir hennar vorum á ferðalagi í Kína þegar andlátsfregnin barst okkur en Guðrún eldri hafði mjög hvatt okkur til ferðarinnar og hlakkað til at heyra ferðasöguna og skoða myndir þaðan. Hún hafði sjálf yndi af utanlandsferðum og fóru þau Böðvar tengdafaðir minn í margar slíkar meðan hans naut við, bæði ein og með börnum sínum, en samband þeirra við börn sín og tengdabörn var einstaklega gott.

Við Guðrún yngri eigum margar góðar minningar um heimsóknir þeirra þegar við bjuggum í Þýskalandi og ekki síður frá Vín og sameiginlegum ferðum um Austurríki. Eftir fráfall Böðvars fyrir tæpum sex árum kom Guðrún reglulega til Vínarborgar og fór auk þess á hverju hausti með sonum sínum til Flórída. Sérlega minnisstæð er heimsókn hennar til Vínar á aðventu fyrir fjórum árum ásamt Guðrúnu yngri, sonum og tengdadætrum. Hún var þá á áttugasta og þriðja aldursári en lét sig ekki muna um að fylgja okkur yngra fólkinu um borgina klukkutímum saman og var hrókur alls fagnaðar.

Guðrún var glaðlynd kona og örlát og hafði á ferðum sínum yndi af því að finna eitthvað fallegt handa hinum mörgu afkomendum sínum. Var þá jafnvel farið að heiman með sérstaka tóma ferðatösku til að hafa nóg rúm fyrir gjafir.

Nú eru liðin rétt fjörutíu ár síðan ég kynntist Guðrúnu sem verðandi tengasonur en við dóttir hennar og nafna giftumst haustið 1969. Allan þann tíma sem kynni okkar stóðu bar aldrei skugga á. Við bjuggum í sama húsinu áratugum saman og við svo langa sambúð hefði mátt ætla að einhverjr núningsfletir gætu myndast. Svo varð þó aldrei. Guðrún hafði einstaklega ljúfa lund og mér leið alltaf vel í návist hennar. Það var ekki hœgt annað en að þykja vænt um hana. Samband hennar við dóttur sína var einnig innilegt og náið. Guðrún eldri var dóttur sinni ekki aðeins móðir heldur einnig besta vinkona og þær hvor annarrar. Eftir fráfall Böðvars urðu tengslin jafnvel enn nánara; hún kom á hverjum degi úr sinni íbúð niður til dóttur sinnar þegar sú síðarnefnda kom úr vinnu og dvaldist þar þangað til hún tók á sig náðir.

Guðrún og Böðvar eignuðust sex börn sem upp komust og er stórfjölskyldan orðin margmenn. Við öll, börn, ömmubörn, langömmubörn og tengdabörn höfum misst konu sem okkur þótti innilega vænt um og við söknum mikið.

Jakob Yngvason.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem.)

Elsku amma. Við kveðjum þig með söknuði og þökkum fyrir allar þær stundir sem við höfum átt með þér. Við eigum margar góðar minningar um þig, duglega og sterka konu sem fylgdist ávallt vel með hvað barnabörnin sín tóku sér fyrir hendur. Allar eftirminnilegu stundirnar á Sóleyjargötunni og Flórída-ferðirnar geymum við í hjörtum okkar og minnumst þeirra með bros á vör. Þú varst góð kona, megi Guð blessa þig.

Vilhjálmur, Gerður, Elínborg Valdís, Leifur og Guðrún.

Elsku amma mín,

mikið þykir mér sárt að kveðja þig.

Það rifjast upp margar góðar samverustundir sem ég hef átt með þér frá því ég man eftir mér. Þú passaðir mig eftir skóla þegar ég var lítil og þá bökuðum við ófáar kökur til að hafa með kaffinu. Það var svo gott að koma til þín, þú varst alltaf svo jákvæð og gamansöm og tilbúin að segja okkur Steinunni sögur .Og þegar ég var að rembast við að læra að hjóla man ég hvernig þú brýndir fyrir mér að segja „ég skal“ og gefast ekki upp. Þegar ég varð eldri skildi ég ennþá betur hvað þú varst frábær kona í alla staði.

Mér er minnisstæð ferðin þegar þið pabbi komuð til að vera við útskrift mína í London fyrir tveimur árum. Þið afi áttuð margar stundir þar en þá hafðirðu ekki komið þangað eftir að hann dó og þú varst svo ánægð og gekkst Oxford stræti fram og til baka, full af orku.

Síðustu vikurnar, þegar þú lást veik sýndirðu enn og aftur hvað þú varst sterk og jákvæð. Þótt þú kæmist ekki í utanlandsferðirnar sem þú hafðir bókað léstu aldrei deigan síga. Þá sagðirðu mér að muna hvað það væri mikilvægt að vera jákvæð þegar á móti blæs. Ég skal muna það.

Þótt það sé erfitt að kveðja þig veitir það mér samt huggun að vita að þú sért loksins komin til afa sem þú saknaðir svo sárt – hann hefur örugglega tekið vel á móti þér á afmælisdaginn þinn.

Elsku amma, þú ert mér fyrirmynd í svo mörgu. Ég vona að ég geti verið jafn sterk og jákvæð og skemmtileg og þú. Þú skilur eftir þig stóra fjölskyldu, yndislegt fólk sem verður alltaf þakklátt fyrir að hafa kynnst þér, átt þig að og lært af þér.

Ég mun alltaf sakna þín.

Hjördís.