Víkverji verður seint talinn til stórnotenda bóka, a.m.k. ef miðað er við hans betri helming sem hreint og beint spænir upp hverja skrudduna á fætur annarri.
Víkverji verður seint talinn til stórnotenda bóka, a.m.k. ef miðað er við hans betri helming sem hreint og beint spænir upp hverja skrudduna á fætur annarri. Þannig tók það makann aðeins um einn og hálfan klukkutíma að drekka í sig 140 blaðsíðna bók, sem Víkverji hefur tekið nokkur kvöld í að stauta sig í gegn um.

Svo rammt kveður að bókaþörf makans að hann gengur um eirðarlaus og titrandi þegar ekkert nýtt lesefni er við hendina, líkt og alkóhólisti sem þráir áfengi eða reykingamaður sem vantar smók. Fíknir geta svo sannarlega verið af misjöfnu tagi!

Þetta hefur valdið Víkverja heilabrotum um verðgildi hluta. Hann var alinn upp í þeirri trú að bækur væru sérlega góðar og eigulegar gjafir en í meðförum makans virðast þær aðeins vera stundarskemmtun, sem í sumum tilfellum varir skemur en meðalbíómynd. Þó kostaði umrædd bók margfalt meira en bíómiði.

Sem betur fer hefur maki Víkverja tamið sér að nýta sér þjónustu bókasafna til að fullnægja bókaþorsta sínum, auk þess sem bókhneigðir ættingjar hans lána honum fúslega bækur til að lesa.

Vinkona Víkverja kvartar sáran þessa dagana yfir vöntun á vori. Henni finnst hún hafa verið svikin með því að hafa páskana svona snemma á árinu því það veldur ruglingi á væntingum hennar til þess hvenær vorið á að koma.

Vinkonan á nefnilega því að venjast að vorið komi eftir páska en sú var ekki raunin í gærmorgun þar sem hún fann frostið skella hörkulega á sólþyrstum kinnum sínum um leið og hún skrönglaðist út í bíl í morgunsárið. Snjókorn flugu í hár hennar, óvarið vegna vorvæntinganna, og allan daginn sat þessi vinkona – sem alla jafna er býsna heitfeng – og skalf á sumarbolnum sínum í vinnunni.

Vinkonan segist þó hafa fundið ráð. Hún hefur ákveðið að blanda sér litríka kokteila með suðrænu ávaxtabragði um helgina og þannig senda kuldabola langt nef um leið og heitur kraftur drykkjanna færir henni hlýju í hjarta og sál.

Ef andinn kemur yfir hana útilokar hún ekki að skella sér að auki í strápils og dansa nokkra velvalda húladansa á stofugólfinu með blóm á bak við eyrað.