Æsingar Sjítar í Bagdad brenna mynd af Maliki forsætisráðherra.
Æsingar Sjítar í Bagdad brenna mynd af Maliki forsætisráðherra. — AP
Eftir Svein Sigurðsson svs@mbl.is ÍRASKAR öryggissveitir áttu í gær í hörðum átökum við sveitir sjíta í hafnarborginni Basra, í borginni Kut og í nokkrum hverfum Bagdadborgar.
Eftir Svein Sigurðsson

svs@mbl.is

ÍRASKAR öryggissveitir áttu í gær í hörðum átökum við sveitir sjíta í hafnarborginni Basra, í borginni Kut og í nokkrum hverfum Bagdadborgar. Óttast sumir, að borgarastríð sé að brjótast út í landinu en það stendur þó ekki á milli súnníta og sjíta eins og ætla hefði mátt, heldur á milli stríðandi sjítafylkinga.

Talið er, að nokkur hundruð manns hafi fallið í átökunum en Nuri al-Maliki forsætisráðherra, sem er sjíti, sendi 15.000 manna lið til að uppræta „óaldarflokkana“ í Basra. Er þá einkum átt við Mahdi-herinn, liðsmenn sjítaklerksins Moqtada al-Sadrs, en Maliki gaf þeim þriggja sólarhringa frest til að leggja niður vopn í fyrradag. Þar geisuðu samt blóðugir bardagar í gær og lá svartur reykjarmökkur yfir borginni, helstu olíuútflutningshöfn landsins, eftir að olíuleiðsla hafði verið sprengd í sundur. Varð það til þess, að heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði töluvert og fór í 107 dollara fatið.

Þrjár meginfylkingar

Sjítafylkingarnar, sem berjast um ítök og völd í Írak, eru í fyrsta lagi Mahdi-her al-Sadrs en innan hans er þó klofningur. Annars vegar eru þeir, sem fara að fyrirmælum al-Sadrs, til dæmis um vopnahléið, og hins vegar þeir, sem virða það að vettugi.

Önnur fylking er Badr-herdeildin, vopnaður armur stjórnmálaflokksins Íslamska æðstaráðsins, en liðsmenn hennar hafa oft átt í útistöðum við liðsmenn Mahdi-hersins. Virðist Badr-herdeildin lítið koma við sögu í þeim átökum, sem nú eiga sér stað og standa einkum á milli stjórnarhersins og Mahdi-hersins.

Þriðja fylkingin er Fadhila. Er stuðningur við hana bundinn við suðurhluta landsins og hún ræður í raun yfir drjúgum hluta olíuframleiðslunnar þar.

Í fjórða lagi má nefna leynilegar sveitir vopnaðra manna, sem eru sagðir fara eftir fyrirmælum frá Íransstjórn.

Auk átakanna í Basra var barist í borginni Kut og einnig í Hilla og Diwaniya. Fréttir voru þó um þreifingar milli fulltrúa al-Sadrs og stjórnarinnar en ekki er alveg ljóst hvers vegna hún ákvað að láta nú til skarar skríða. Telja sumir, að hún vilji klekkja á sjítafylkingunum fyrir sveitarstjórnarkosningar í október en aðrir segja, að slagurinn standi fyrst og fremst um olíuna, meginuppsprettu alls fjármagns í landinu.