Heilbrigðisstofnunin Deila er milli lækna og forstjóra.
Heilbrigðisstofnunin Deila er milli lækna og forstjóra.
Allir þrír læknarnir á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi hafa sagt upp störfum og hefur einn þeirra þegar hætt. Uppsagnir hinna tveggja taka gildi um næstu mánaðamót.
Allir þrír læknarnir á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi hafa sagt upp störfum og hefur einn þeirra þegar hætt. Uppsagnir hinna tveggja taka gildi um næstu mánaðamót. Heilbrigðisráðuneytið ætlar að fara þess á leit við læknana að þeir vinni áfram á meðan reynt verður að leysa málið næsta mánuðinn. „Mér skilst að ágreiningur ríki milli þeirra og forstjóra stofnunarinnar um margt, eins og til dæmis launakjör og breytingar á vaktafyrirkomulagi, auk þess sem samskiptaörðugleikar eru fyrir hendi,“ segir Valgarður Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar Blönduóss sem tekur það fram að óásættanlegt sé að leysa ekki deiluna.

„Ágreiningurinn kom inn á borð ráðuneytisins fyrir nokkrum mánuðum. Sveitarfélög eru ekki lengur aðilar að þessum málum. Nú heyra þau beint undir heilbrigðisráðuneytið. Okkar aðkoma að deilunni er því engin en við viljum auðvitað að hér sé læknisþjónusta og að hún sé í lagi. Við teljum hana eina mikilvægustu grunnþjónustuna í hverju byggðarlagi auk þess sem heilbrigðisstofnunin er einn stærsti vinnustaðurinn í sveitarfélaginu,“ tekur Valgarður fram.

Valbjörn Steingrímsson, forstjóri heilbrigðisstofnunarinnar, vildi ekki tjá sig um málið. ingibjorg@24stundir.is