Stefán Guðmundsson athenalind@simnet.is
Stefán Guðmundsson athenalind@simnet.is
Í umfjöllun 24 stunda í gær, og í viðtali við Sigrúnu Júlíusdóttur, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, er gerð grein fyrir viðamikilli könnun sem hún stóð fyrir ásamt fleirum.
Í umfjöllun 24 stunda í gær, og í viðtali við Sigrúnu Júlíusdóttur, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, er gerð grein fyrir viðamikilli könnun sem hún stóð fyrir ásamt fleirum. Skýrsla könnunarinnar ber heitið: „Aðlögun og líðan ungmenna í kjölfar skilnaðar foreldra“. Af skýrslunni má ráða að börn verða af feðrum sínum og föðurfjölskyldu í stórum stíl við skilnað – tengslin veikjast verulega eða rofna.

En hvers vegna? Staðreyndin er sú að löggjafinn og kerfið sem fer með þennan málaflokk, beinlínis stuðlar að því að þannig hátti málum í lífi barna. Löggjafinn hefur dregið lappirnar í málefnum barna undanfarna áratugi. Skrifaðar hafa verið margar skýrslur, innlendar og erlendar um að breytinga sé þörf. Skýrsla prófessorsins og stallsystra er aðeins ein af mörgum staðfestingum á því að verulegra breytinga sé þörf og þó fyrr hefði verið. Tökum dæmi: Hendur dómara eru bundnar fyrirfram af löggjafanum og er þetta eini málaflokkurinn á Íslandi þar sem dómara er óheimilt að dæma bestu mögulegu niðurstöðu fyrir barn til framtíðar, þegar til forsjárágreinings kemur. Sem aftur gengur í berhögg við barnalögin sjálf þar sem skýrt er kveðið á um að ávallt skuli haga málum þannig að það sé barni fyrir bestu. Dómara ber fyrirfram samkv. lögum að svipta foreldri forsjá barns – óháð hæfi foreldrisins og óháð betri framtíðarhagsmunum barns. Til hvers eru dómstólar; eiga þeir ekki að vera endastöð ágreiningsmála og komast að bestu mögulegu niðurstöðu? Ef löggjafinn hyggst ekki breyta þeirri skipan, og gefa dómara frjálsar hendur – þá viðhaldast vandamálin. Kerfið hefur komist að því undanfarin ár og áratugi, að við skilnað þurfi börn ekki á feðrum sínum að halda nema 4-6 daga í mánuði, og ekki á aðfangadegi jóla.

Rök kerfisins: Af því bara! Það mun koma í ljós á næstu dögum, úr hvaða efniviði allsherjarnefnd er gerð – þegar hún tekur tímamótafrumvarp Daggar Pálsdóttur um breytingar á barnalögum til efnislegrar meðferðar.

Höfundur er ritari Félags um foreldrajafnrétti.